Rótfastur Eyjamaður en Dalvíkingur inn við beinið

Staðlað

Hann fór til Vestmannaeyja á vertíð með nokkrum félögum sínum á Dalvík árið 1956 og örlögin réðust í framhaldinu. Arnfinnur Friðriksson festi fjölskyldurætur í Eyjum en segist alltaf verða Dalvíkingur inn við beinið.

„Við komum hingað nokkrir gaurar frá Dalvík til að ná okkur í peninga á vertíð: Reynald Jónsson á Sigurhæðum, Rafn Sigurðarson, Sveinn Jónsson og Jóhann Tryggvason.

Fleiri Dalvíkingar hafa drepið hér niður fæti, til dæmis Steingrímur í Grímsnesi og Jakob Helgason, báðir unnu í saltfiski hjá Ársæli Sveinssyni.

Ég er sá eini sem settist að og er því síðasti móhíkaninn hér úr þessum hópi.“

Harmónikkudraumurinn rættist

Arnfinnur, yfirleitt kallaður Finnur, er bróðursonur Finns bílstjóra í Laxamýri á Dalvík og reyndar nauðalíkur þessum frænda sínum í útliti og fasi. Móðir Arnfinns var Þórlaug Kristinsdóttir frá Ingvörum.

Arnfinnur missti föður sinn tólf ára gamall og ólst upp í Laxamýri hjá afa sínum og ömmu á neðri hæðinni. Þar var líka Finnur föðurbróðir hans. Á efri hæð voru Fríða, föðursystir Arnfinns, og Páll Sigurðsson málari. Arnfinnur segist í raun hafa verið alinn upp á báðum hæðum í Laxamýri.

Á efri hæðinni leigði Kató Valtýsson bílstjóri herbergi í mörg ár. Hann spilaði á harmónikku. Arnfinnur heyrði tónana af efri hæðinni berast niður á þá neðri. Hann dreymdi um að verða harmónikkuleikari líka. Það gekk eftir.

 Eyjalögin lifa vel og lengi

„Það blundaði alltaf í mér að eignast harmónikku og læra á hana. Svo keypti ég gamla nikku sem upphaflega var í eigu Össa Baldvinssonar Jóhannssonar kaupfélagsstjóra og prófaði að spila. Það tókst, ég eignaðist fljótlega aðra harmónikku og hef síðan þá spilað á nikkuna, sjálflærður að öllu leyti.

Ég hef spilað í danshljómsveitum vítt og breitt um landið og erlendis líka; einu sinni á þorrablóti í Noregi og á þremur þorrablótum í Bandaríkjunum. Fyrir áratug eða svo stofnuðum við hópinn Blítt og létt í Eyjum og erum oftast tíu til tólf saman í bandinu en stundum færri. Alltaf sami fasti kjarninn.

Blítt og létt fór til Færeyja fyrir fimm árum og er á leið þangað aftur að syngja og spila núna í maímánuði.

Við erum með fastan lið á dagskránni í skemmtanalífinu í Vestmannaeyjum, Eyjakvöld á fyrsta fimmtudegi hvers mánaðar frá september fram í maí. Þá flytjum við aðallega Eyjalög og þessar samkomur eru fastur punktur í tilveru margra. Mér finnst alltaf mikið spunnið í tónlistina sem verður til í Vestmannaeyjum. Mörg Eyjalögin eru svo falleg, vel samin og ljóðræn. Þau eru þekkt og ganga bæði vel og lengi.

Á Fiskideginum mikla með forsetahjónin á fremsta bekk

IMG_6174

„Í fyrrasumar vorum við á Dalvík á Fiskideginum mikla og tókum meðal annars lagið í kirkjunni með Guðna Th. forseta og Elízu forsetafrú á fremsta bekk. Það tókst afar vel og Blítt og létt gæti alveg hugsað sér að mæta aftur til Dalvíkur á Fiskidagssamkomuna. Ég hef verið þar nokkrum sinnum og er afskaplega ánægður að sjá hve vel sveitungar mínir standa að öllu saman.

Menn hafa spurt hvers vegna ég fari aftur og aftur norður um Fiskidagshelgina, hvort mér dugi ekki að fara einu sinni. Ég svara því þá til að Eyjamenn hljóti að skilja þetta manna best, þeir fari sjálfir ár eftir ár á þjóðhátíð í Herjólfsdal, hitti sama fólkið en aðra líka.

Maður er manns gaman, hvort sem er á Dalvík eða í Herjólfsdal!“

Flóttamenn í Þorlákshöfn á gostímanum

Finnur Friðriksson var um árabil starfsmaður olíufélagsins Skeljungs í Vestmannaeyjum, ók olíubíl og annaðist afgreiðslu á olíu og olíuvörum. Hann var líka ökukennari en hefur bæði hætt að dæla olíu og kenna á bíl en er enn þann dag í dag stundum kallaður „Finnur í olíunni“ meðal eldri Eyjamanna.

Nikkuna hefur hann síður en svo lagt á hilluna. Á hana spilar hann oft og mikið.

Í Heimaeyjargosinu 1973 færði fjölskyldan sig um set og bjó í Þorlákshöfn í níu mánuði. Hún var í hópi flóttafólks frá Eyjum sem ferjað var til Þorlákshafnar með Ísleifi VE. Arnfinnur fór beint í vinnu hjá Skeljungi þar og þjónaði meðal annars bátum Eyjamanna sem margir lönduðu í Þorlákshöfn á meðan jarðeldar ógnuðu byggðinni heima fyrir með hraunflóði og öskuregni.

„Aldrei kom annað til greina en að flytja aftur til Eyja eftir gos. Húsið okkar við Strembugötu er ofarlega í bænum og skemmdist ekki. Enginn beygur var í okkur að koma hingað aftur og aldrei er talað um hættu á nýju gosi hér. Aðalmálið var bara að komast heim!“

Ef menn þola ekki snjó er Vestmannaeyjar rétti staðurinn til að búa

Eiginkona Arnfinns er Steinunn Pálsdóttir, fædd undir Eyjafjöllun en flutti barnung með foreldrum sínum til Vestmannaeyja. Þau eiga dóttur, Sólveigu Þóru, og son, Friðrik Pál, sem bæði búa í Eyjum með fjölskyldum sínum.

„Eyjamenn eru samheldnir en annars ósköp svipaðir Norðlendingum í sér, félagslyndir og fínir. Alla vega féll ég strax vel inn í samfélagið!

Fyrstu árin langaði mig stundum norður og ég fann fyrir einangrun en það er löngu liðin tíð. Lítið mál er að fara upp á meginlandið ef á þarf að halda.

Stærsta breytingin við að koma hingað var snjóleysið. Ég var vanur snjóþungum vetrum á Dalvík en hér kemur kannski ein snjógusa eða tvær vetrarlangt og svo er allt orðið autt nokkrum dögum síðar.

Ef fólki leiðist snjór í miklum mæli er Vestmannaeyjar rétti staðurinn til að búa á.“

Ein athugasemd við “Rótfastur Eyjamaður en Dalvíkingur inn við beinið

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s