Tóna-Kólgan söngelska önnum kafin í hljóðstofu Hljóðfærahússins

Staðlað

Tónlistin er kjörin til að dilla sér við og laglínur festast í heilabúinu við fyrstu hlustun. Það er andleg upplyfting að líta inn á æfingu Kólgu og hlýða á söng og hljóðfæraslátt þjóðlagasveitarinnar líflegu.

Þessu bandi væri trúandi til að breyta dauðyflislegasta fólki í gleðipinna á einum tónleikum EÐA með því að stinga að því væntanlegum diski, þeim fyrsta sem frá Kólgu kemur.

Í höfuðborginni var hríðarkólga að morgni dagsins er leiðir Sýslsins og bandsins lágu saman. Svo gekk á með éljakólgu og þá tók við skýjakólga. Loks stytti upp síðdegis og þá kom Kólga saman til æfinga í Hljóðfærahúsinu við Síðumúla, þessari miklu og glæsilegu verslun sem Dalvíkingar stýra: Sindri Már Heimisson framkvæmdastjóri og Jón Kjartan Ingólfsson verslunarstjóri.

Sá síðarnefndi er bassaleikari í Kólgu og á lag á væntanlegum diski við texta eftir Kela vert á Snæfellsnesi, Þorkel Símonarson, ferðaþjónustubónda með pípuhatt í Langaholti í Staðarsveit.IMG_2986

Öll að norðan, þannig séð

Með Jóni Kjartani eru í Kólgu Magni Friðrik Gunnarsson, gítarleikari, blikksmíðameistari og Dalvíkingur; Helgi Þór Ingason, harmónikkuleikari og prófessor í Háskólanum í Reykjavík, sem á ættir að rekja að Syðri-Á á Kleifum við Ólafsfjörð; og Kristín Sigurjónsdóttir fiðluleikari og hjúkrunarfræðingur frá Kirkjubóli í Innri-Akraneshreppi.

Þau eru sem sagt öll að norðan, þannig séð. Kristín er upprunnin norðan Hvalfjarðar og það er meira en nóg til að Sýslið geti flokkað hana sem norðanmann.

Kólgufólk stendur í stórræðum. Það undirbýr útgáfu á diski og tekur upp í hljóðstofu í Hljóðfærahúsinu. Auðvitað er stúdíó þar að finna, hvað annað!

Bandið forselur diskinn á Karolina fund og er komið vel á veg að draga saman í útgáfusjóð. Þarna er því í boði dillandi andlegur, menningarlegur og göfugur fjárfestingarkostur!

Lýst eftir fiðlara á Fésbók

Jón Kjartan og Magni Friðrik byrjuðu að spila í Þelamerkurskóla þegar þeir voru guttar um fermingu og hafa síðan þá verið saman í fleiri hljómsveitum en þeir treysta sér til að nefna án mikilla heilabrota.

Kleifamaðurinn Helgi Þór var í hljómsveitinni víðfrægu sem kenndi sig við Syðri-Á upp á ensku: South River Band. Jón Kjartan gerðist bassaleikari í South River Band og var þar í nokkur ár. Magni Friðrik bættist í hópinn eftir fráfall Ólafs Þórðarsonar sem var af Kleifakyni og oft kenndur til Ríó (tríó). Þessir þrír Kólguliðar störfuðu því saman um hríð í South River Band, hljómsveit sem reyndar kúrir í híði nú um stundir.

Þremenningarnir vildu fá fiðluleikara með sér í Kólgu og auglýstu eftir ábendingum um einn slíkan á Fésbók. Jón Kjartan tók fram á Fésinu að lýst væri eftir „áhugasömum fiðluleikara“ og tók fram að sá ætti ekki að vera atvinnumaður. Skilyrði var líka að viðkomandi hefði samband milliliðalaust.

Kristín var eini fiðlarinn sem hafði samband og var ráðinn, enda bæði góður hljóðfæraleikari og mögnuð söngkona.

Þar með var áhöfnin fullskipuð og andi bandsins fór að skapast og þroskast í þá átt sem raun ber vitni. Kólgufólk skilgreinir tónlistina sína sem þjóðlagaskotna, undir áhrifum frá Írlandi, Austur-Evrópu, Skandinavíu og Bandaríkjunum. Svo er það svo líflegt og flott á sviði …

Hönd í hönd í Elliðaárdal

Allir fjórir Kólguliðar eru „kórabörn“. Söngur og raddsetningar eru aðalsmerki bandsins.

Á væntanlegum diski verður mest af efninu frumsamið og flest úr smiðju Helga Þórs Ingasonar. Þar eru líka textar eftir Jón Árnason á Syðri-Á, föðurbróður Helga Þórs. Og reyndar slæðist með kveðskapur Helga Þórs um þennan frænda sinn á Kleifum.

Tvö tóndæmi fá að fljóta hér með.

  1. Sýslið tók upp Hönd í hönd, lag & ljóð sem Helgi Þór samdi um eldri hjón sem leiðast aftur og aftur þögul um Elliðaárdalinn.
  1.  Á YouTube er að finna Vornæturstemningu, lag Helga Þórs við ljóð Jóns á Syðri-Á.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s