Hjörleifur Sveinbjörnsson og Guðni Berg Einarsson eru heimsmeistarar í brússpili árið 2017 og voru krýndir með viðhöfn á Rimum í Svarfaðardal að kveldi 24. mars. Amma beggja, Þorgerður, hlaut klórningarverðlaun.
Vel að merkja: hvar er svokallað kynslóðabil í svarfdælskri byggð? Það er ekki til, alla vega ekki í brússpili!
Svarfaðardalur er nafli alheimsins í brús, vagga spilsins, vettvangur uppvaxtar þess og lífsreynslu á alla kanta.
Embættismaður frá Svarfdælasýsli var fluga á vegg á heimsmeistaramótinu (vopnaður myndavél).

Verðlaunahafar á heimsmeistaramótinu í brús á Rimum 2017.
Brús er upplifun og uppákoma og betri skemmtun en flest annað þar sem spil koma við sögu. Þar ræður heppni meira en hugarleikfimi og þess vegna láta margir briddsspilarar Svarfdælinga sér fátt um finnast. Golfleikarar sömuleiðis (sumir að minnsta kosti). Sjóstangaveiðimenn spila brús.
Svarfdælasýsli er margt til lista lagt en það kennir ekki brús. Utansveitarfólk getur reyndar lært spilið en þá verður það að njóta leiðsagnar innvígðra, maður á mann, og leggja mikið á sig. Þetta er alveg hægt!
Í öðrum héruðum fer sögum af því að brús sé ofbeldiskennd spilamennska. Það er orðum aukið en í sumum skröksögum er sannleiksþráður.
Þegar Svarfdælingar smala sauðfé til slátrunar og spila brús birtast sérstakir eiginleikar þeirra til að iðka góðgjarna illmennsku, ofbeldi og einelti. Gangnamenn sveitarinnar hafa sérstaka unun af því að yrkja níðvísur hverjir um aðra og eru þeim meiri vinir sem kveðskapurinn er svæsnari.
Skussar í einstaka brússpilum fá að kenna á því en þeir geta samt staðið uppi sem Svarfaðardalsmeistarar, Íslandsmeistarar og jafnvel heimsmeistarar ef þeir sækja í sig veðrið og hirða prik þar á milli. Þeir hinir síðustu verða fyrstir eða geta að minnsta kosti orðið það – eins og til dæmis nýkrýndir heimsmeistarar.
Klórning er vinsamleg valdbeiting og þekkist bara í Svarfaðardal – þegar brús er spilað. Alls kyns flökkusögur fara samt um landið af klórningum og meintu ofbeldi.
Hvað er satt og hvað er logið? Svarfdælasýsl svarar því og í þeim efnum er ekki öðrum fjölmiðlum betur treystandi.
- Sýslið birtir hér fyrstu ekta upptökur veraldar af klórningu í brússpili.
Betur færi í veröldinni ef ofbeldi væri alls staðar iðkað í jafnmiklum vinskap og gerist í Svarfaðardal.
Heimsmeistaramótið hófst við kertaljós. Rafmagnið fór af vesturkjálka Svarfaðardals í klukkustund en menn létu það ekki á sig fá.
-
Lærðu brús! Brús-spilareglur_7 (pappír að vísu)