Ása Dóra staðarhaldari á Húsabakka

Staðlað
snapchat-1035021978

Gróðursælt er á Húsabakka en kannski ekki alveg svona … Ása Dóra var í Chile í vetur og þar var myndin tekin.

Ása Dóra Finnbogadóttir, eigandi Syðra-Holts í Svarfaðardal, er nýr staðarhaldari á Húsabakka og hefur tekið til starfa við að sjá um ferðaþjónustu þar. Fyrstu gestir eru væntanlegir 8. mars en stefnt er að því að hefja starfsemina formlega í byrjun júnímánaðar.

img_0723

Kvöldstund á tjaldstæðinu á Húsabakka.

Stórval ehf. eignaðist skólahúsin á árinu 2016 og samdi fyrir skömmu við gistiþjónustufyrirtækið CPLA (Central Premium Luxuary Apartment) í Reykjavík um að það leigi fasteignir og aðstöðu á Húsabakka til 15 ára og reki ferðaþjónustu undir heitinu Húsabakki Guesthouse.

Ása Dóra rak gistiheimili á Bíldudal um árabil, eins og rakið var í umfjöllun um hana snemma árs hér í Svarfdælasýsli.

„Ég las í Norðurslóð að eigandi Stórvals væri að leita að einhverjum til að sjá um rekstur á ferðaþjónustu á Húsabakka og hafði samband við hann til að grennslast fyrir um hvort þetta væri eitthvað sem hentaði mér og mínum áformum. Þá var þegar búið að semja við CPLA um að taka staðinn á leigu og sjá um rekstur ferðaþjónustunnar. Ég ætlaði þá að láta málið niður falla en CPLA hafði samband og vildi fá mig til liðs við sig. Atburðarásin var hröð og nú hef ég tekið að mér framkvæmdastjórn á Húsabakka.

Verkefnið er mjög spennandi en býður hreint ekki upp á nein rólegheit því í mörg horn verður að líta á skömmum tíma! Það þarf að byrja á því að mála og dytta að ýmsu í húsunum, koma fyrir húsbúnaði og standsetja gistiherbergin. Svo hef ég áhuga á að gera móttöku gesta meira aðlaðandi en nú er.

CPLA verður með fjármál og bókhald Húsabakka á sinni könnu en stefnumörkun og markaðsmál verða sameiginleg verkefni mín og CPLA. Að mörgu er að hyggja og við vinnum meðal annars að því hörðum höndum að koma staðnum inn á helstu bókunarsíður á Vefnum og gera það sem gera þarf til að geta boðið gestum að gista hér.

Þetta er í seinna lagi því margir bóka langt fram í tímann en töluvert er samt um að fólk bóki með stuttum fyrirvara þannig að vonandi fáum við góða aðsókn í sumar!

Fyrstu gestirnir koma núna viku af mars og við gerum ráð fyrir að geta tekið á móti þeim sem kunna að hafa samband á næstu vikum. Síðan vonumst við til að vera tilbúin að hefja starfsemina af fullum krafti í júníbyrjun.“

  • Reksturinn verður með svipuðu sviði og hefur verið á Húsabakka undanfarin ár. Seld verður gisting í svefnpokaplássum og í uppábúnum rúmum í húsunum tveimur og rekið  tjaldstæði.
  • Vinsælt hefur verið að halda ættarmót og ýmsar uppákomur á Húsabakka og miðað við að svo verði áfram, enda nýtist aðstaðan á Rimum þá líka vel .
  • Gert er ráð fyrir því að Húsabakki Guesthouse hafi umsjón með félagsheimilinu Rimum.

„Við einbeitum okkur í bili að komandi annatíma og leggjum kapp á að kynna strax hérlendis og erlendis að hér verði gisting og tilheyrandi þjónusta í boði í sumar.

Sjálf hef ég ýmsar hugmyndir um hvað hægt sé að gera á Húsabakka utan háannatímans og vonast til að hrinda einhverjum þeirra í framkvæmd strax næsta haust. Sjáum hvað setur í þeim efnum.

Svo hef ég auðvitað hug á samstarfi við aðra sem að ferðaþjónustu starfa hér um slóðir til að styrkja svæðið í heild og tryggja sem mesta fjölbreytni þess sem útlendum og innlendum ferðamönnum býðst í Dalvíkurbyggð og á Tröllaskaga.“

samsett1a

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s