Hann smíðaði á Dalvík, virkjaði Lagarfljót, keyrði flutningabíla hér og þar á landinu og fór á vertíð á Snæfellsnesi. Á Grundarfirði var myndarleg og blíð Ástralíudama í fiskvinnu. Örlög Dalvíkings réðust á stundinni. Geiri Steina Kidda og Vicki gengu í heilagt hjónaband, hafa búið í Ástralíu samfellt frá 1982 og eignast tvö börn. Þau heilsa upp á ættingja og vini á Íslandi sumarið 2017.
„Hitinn ætlaði okkur lifandi að drepa í febrúar og fór í 40-45 gráður dag eftir dag í hálfan mánuð. Þá var nú eins gott að hafa góða loftkælingu í húsinu og öl í ísskápnum, elsku drengurinn. Sums staðar annars staðar var enn heitara. Lögreglumanni datt í hug að setja venjulega steikarpönnu á húddið á löggubílum sínum og spæla egg. Eggið varð ætt á augabragði!“
Spjallið við Ásgeir Þorsteinsson Kristinssonar frá Dalvík átti sér stað gegnum Vefinn. Hann sat með Massey Ferguson-bjórflösku (alla vega sást milli heimshluta að á flöskumiðanum stóð MF með ótvíræðri dráttarvélastafagerð).
Samtal hófst um miðnætti að staðartíma í landi kengúrunnar. Í höfuðborg Íslands sat Sýslarinn með vatn í glasi um hádegi að staðartíma. Svona geta tímabelti geta breytt drykkjumenningu. Og þeir sem halda að skrifari ýki söguna um spælegg, hitasvækju og löggubílahúdd ættu að fara alveg niður í botn á þessu skjali. Þar er að finna upptöku af matseldinni.
„Paddan“ breytti samskiptatilverunni

Vicki og Geiri með barnabarnið Jasmin, dóttur Önnu Kristínar.
Geiri og Vicki eru á eftirlaunum og minnkuðu við sig húsnæðið í fyrra. Þau seldu stórt einbýlishús með sundlaug í garðinum og landmikilli lóð og keyptu íbúð í nýju hverfi sem rís fyrir eldri borgara. Þar er gott að vera, sundlaug og tennisvöllur og meira að segja er séð fyrir því að gras sé slegið á lóðinni. Geiri þarf eiginlega ekki annað að gera en strjúka barnabörnunum þremur þegar þau koma í heimsókn, rölta eftir bjór og öðrum nauðsynjum út í kaupfélagsbúðina og kjafta við gamla félaga og vini heima á Íslandi gegnum Ipad-græjuna sem börnin hans gáfu honum fyrir þremur árum. Paddan sú breytti tilverunni í orðsins fyllstu merkingu.
Þegar Geiri flutti fyrst til Ástralíu kostaði lifur og lungu að hringja til Íslands en nú getur hann rætt málin við Val Hauks, Kalla Sævaldar, Rabba Arnbjörns, Óskar Pálma, Ellu Rósu og Palla Kristins og alla hina snillingana tímunum saman án þess að það kosti hann nokkurn skapaðan hlut, ef frá er talin ein og ein flaska af MF dráttarvélaöli til að halda samtalinu gangandi sín megin.
Samtölin við kunningja og vini á Íslandi eru einu tækifærin sem Geiri fær að jafnaði til að tala íslensku. Engir Íslendingar búa neins staðar nálægt honum og samtöl í fjölskyldunni fara fram á ensku. Hann hefur haldið móðurmálinu við með því að lesa heil býsn af íslenskum bókum og sumar þeirra aftur og aftur.
Í sumar gefst honum vel þegið tækifæri til að tala íslensku daginn langan í þrjár vikur. Geiri og Vicki koma hingað í júní og verða fram í júlí norðan- og sunnanlands.
Mikla og vaxandi spennu má greina í rödd Dalvíkingsins milli heimshorna. Margt skal gera og marga á að hitta, þar á meðal er á dagskrá hittingur 1950-árgangsins í Dalvíkurskóla í Bergi á Dalvík og hittingur nokkurra Sunnansvarfdælinga á Loka í Reykjavík, veitingaranni Þórólfs og Hrannar.
„Nú vil ég feginn fara í land og smeygja …“

Steini Kidda í einkennisbúningi Landhelgisgæslunnar. Hann var ungur maður til sjós á varðskipum í fimm ár.
Geiri og Vicki komu síðast til Íslands árið 2011 og fylgdu þá móður hans, Kristínu Ásgeirsdóttur – Stínu, til grafar á Dalvík. Faðir hans, Þorsteinn Kristinsson – Steini Kidda, fór mörgum árum áður eða 1979.
Steini var bílstjóri, hestamaður og hagyrðingur og reyndar sjómaður líka framan af starfsævinni. Geiri var einkasonur Stínu og Steina. Skemmtilegt er það og einkennilegt í senn að Steini var á vertíð á Snæfellsnesi þegar hann kynntist Stínu. Hún átti heima í Grundarfirði.
Löngu síðar krækti Geiri líka í sitt konuefni í Grundarfirði.
Eitthvað mjög sérstakt við þessar ástarsögur feðganna frá Dalvík. Steini var reyndar nýsloppinn af unglingsárum þegar leiðir þeirra Stínu lágu saman og hann orti eina af fyrstu vísunum sínum í tilefni af samskiptum þeirra og samlífi. Með þá vísu var lengi vel ekki farið nema í lokuðum samkvæmum valinkunnra manna og aðgangur innan tvítugs illa séður. En eftir að Hugleikur Dagsson gerðist uppistandari, og lætur allan sinn neðanmittismunnsöfnuð vaða yfir börn, gamalmenni og allar kynslóðir þar á milli, stendur ekkert í vegi fyrir því að sóknarprestar í Dalvíkurprófastdæmi taki æskukveðskap Steina Kidda inn í fermingarfræðslu sóknarbarna sinna.
Þó að fleyið fari í strand, fæ ég eigi pínu. Nú vil ég feginn fara í land og fá að smeygja í Stínu.

Stína og Steini.
Farmiði aðra leiðina til Ástralíu 1982
Geiri byrjaði að læra trésmíði hjá Ingólfi á Tréverki strax eftir skyldunám á Dalvík, sextán ára gamall. Hann starfaði þar í ellefu ár og getur augum litið marga steypta minnisvarða frá þessum tíma í byggðarlaginu líkt og gerist og gengur með húsasmiði.
„Ég byrjaði 1966 og man ég eftir ýmsum góðum mönnum á smíðaverkstæðinu. Þar voru Ingólfur Jónsson, Óskar í Odda, Bragi Jónsson, Binni Öllu Friðleifsson; Aðalberg Pétursson, bróðir Sigmars og Þórhalls Grundarbræðra, Magnús Sigurbjörnsson og kannski sem ég man ekki að nefna í svipinn.
Á Tréverksárunum tók ég til dæmis þátt í að smíða fjós á Sökku og íbúðarhúsið í Brekku eftir að gamla húsið þar brann. Svo var ég lengi í Fnjóskadal að reisa sumarbústaðaþorp verkalýðsfélaganna. Ég sagði reyndar upp störfum og hætti hjá Tréverki eftir að okkur Ingólfi lenti eitthvað saman á meðan stóð á framkvæmdunum í Fnjóskadal. Það jafnaði sig auðvitað fljótlega og heyrði sögunni til en úr Fnjóskadal fór ég austur á land að byggja Lagarfljótsvirkjun. Þar vorum við í uppmælingu og höfðum rífandi tekjur. Hörkuvinna, miklir peningar en talsvert sukk líka! ÁTVR fékk sinn skerf af fjárfúlgunum sem við þénuðum.
Leiðin lá aftur til Tréverks og þá til vinna við byggingu heimavistarinnar á Dalvík, sem nú er hótel, sumarið 1973. Það var samfelldur gleðitími og afar minnisstæður. Við gerðum auðvitað miklu meira en að segja gamansögur og fara með vísur því þetta mikla hús reis á einu sumri og ég efast um að nokkrir smiðir nú til dags geri betur.
Í framhaldinu stofnaði ég dráttarbílafyrirtæki með tveimur mönnum sem ég hélt að væru vinir mínir en voru það ekki þegar á reyndi. Þeir sigldu fyrirtækinu til helvítis og ég fór þá á vertíð á Snæfellsnesi. Það var mikið örlagaskref í lífinu því þar hitti ég fyrst mína ágætu eiginkonu.
Algengt var að ungt fólk frá Ástralíu og Nýja Sjálandi færi til Evrópu til að ferðast um og vinna í bland. Sumir lögðu leið sína til Íslands í frystihúsastörf, þar á meðal Vicki og vinkona hennar. Þetta var 1976. Við urðum par og árið eftir fórum við til Ástralíu og giftum okkur.
Skömmu síðar veiktist pabbi alvarlega og dó árið 1979. Við flugum til Íslands og dvöldum á Dalvík í fyrstu en fluttum síðan til Grundarfjarðar, keyptum þar hús og bjuggum til 1982. Þá lauk Íslandsdvölinni og síðan þá höfum við búið í Ástralíu.“
Smíðaréttindi viðurkennd að hálfu

Geiri með hallamálið í væntanlegri heimavist á Dalvík sumarið 1973. Mynd: Stefán Björnsson.
Geiri ætlaði að nýta fagréttindin sín sem smiður hinum megin á hnettinum en úr því varð minna en efni stóðu til. Ástralir hafa nefnilega annað lag á hlutum við húsbyggingar en Tréverk. Þeir hlaða húsin sín úr múrsteinum, sem er nokkuð sem Tréverksmenn sýsla ekki við ótilneyddir. Húsasmíðaréttindi Geira voru bara viðurkennd að hálfu leyti.
„Þá fór ég að starfa á heimili fyrir vangefna og var þar í ein þrjú ár áður en ég gerðist bílstjóri á dráttarbílum og flutti þakjárn og byggingarstál um áströlsk héruð. Ég varð síðar skrifstofumaður flutningafyrirtækjanna en varð að segja skilið við flutningabransann vegna bakveiki og keyrði í lokin skólabíl þar til ég varð 65 ára og komst á eftirlaun.
Við keyptum nýtt hús í upphafi búskaparins hér og stækkuðum við okkur átján árum síðar. Seinna húsið var lífeyrissjóðurinn okkar og það seldum það í fyrra og fluttum í íbúðina sem búum í núna.
Vicki var lengst af skrifstofumaður í fyrirtækjum, síðast í steypuröraverksmiðju. Dóttir okkar, Anna Kristín, starfar hjá vinnumiðlun á vegum ríkisins og á tvö börn. Sonurinn Símon Jón er rannsóknarlögreglumaður og á eitt barn.
Ég hef alltaf kunnað vel við mig í Ástralíu og okkur líður vel. Skilaðu kveðju til vina minna heima. Við sjáumst von bráðar á Íslandi.“
Þannig lauk heimshornasamtalinu við Geira.
- Skálað var undir svefninn eftir miðnætti í Massey Ferguson öli Ástralíumegin en í blávatni upp úr hádegi Íslandsmegin.
- Kengúrurnar löngu sofnaðar og löggur spældu egg á eldavélum.
- Brennheit sólin hafði tekið sér næturhvíld.
- Í Reykjavík snjóaði í logni en veðurguðir hótuðu 40 metrum á sekúndu síðdegis.
- Engin sól og hvorki kengúrur né spældar löggur á kreiki.

Glæsilegt mannval; árgangur 1950 á Dalvík. 1. Pétur Jóhannsson á Bessastöðum; 2. Jóhann Bjarnason; 3. Friðrik Sigurðsson í Framnesi; 4. Ásgeir Þorsteinsson; 5. Gunnþór Ægisson (látinn); 6. Steinþór Sigurðsson; 7. Jón Steingrímsson; 8. Ella Rósa – Elín Rósa Ragnarsdóttir; 9. Sigrún Óskarsdóttir; 10. María Steingrímsdóttir; 11. Ingibjörg Marinósdóttir; 12. Dísa Bomma – Þórdís Hjálmarsdóttir; 13. Elínborg Jónmundsdóttir; 14. Stella Bára Hauksdóttir í Sæbóli; 15. Filippía Jónsdóttir á Sigurhæðum; 16. Laufey Helgadóttir; 17. Auður Jónsdóttir; 18. Ella Hanna – Elín Jóhanna Gunnarsdóttir.

Barnabörnin þrjú: Lochlan, Oliver og Jasmin.