Fjölmenni fagnaði Sigríði á Tjörn níræðri í dag, 5. febrúar, í tilefni níræðisafmælis hennar 19. janúar 2017. Efnt var til mannfagnaðarins hjá Imbu frá Tjörn og Ragnars í grennd við höfnina. Íbúðin þeirra er reyndar svo nálægt veitingahúsinu Sægreifanum að næstum því er hægt að taka við signum fiski eða skötu þaðan á diski með því einu að teygja sig út um gluggann.
Sigríður Margrét Árnadóttir Hafstað er sem sagt orðin níutíu ára og trúi því hver sem vill en kirkjubækur skrökva helst ekki. Til stóð að halda afmælisveisluna í höfuðborginni fyrir hálfum mánuði en í aðdragandanum þurfti afmælisbarnið að gangast undir aðgerð á sjúkrahúsinu á Akureyri. Sigríður vildi hins vegar halda sem lengst í vonina um að mæta í eigin afmælishóf fyrir sunnan og gerði að lokum ráð fyrir því að útskrifast að morgni sunnudags, ná hádegisvélinni til Reykjavíkur og mæta í tæka tíð í partíið síðdegis.
Læknar nyrðra fengu veður af ráðabrugginu og hótuðu því að útskrifa ekki húsfreyjuna á Tjörn nema hún lofaði að hætta við partíferðalagið – í bili. Hálfum mánuði síðar var hún mætt á vettvang og tók fullan þátt í gleðskapnum.
Hafi í einhvern tíma verið hægt að tala um troðfullt hús af fólki var þetta stund og staður til þess. Þarna voru ættingjar og vinir úr öllum áttum og kimum. Svarfaðardalur var afar þétt staðinn. Mikið var gaman að hitta þarna Sigurlaugu, fyrrverandi skólastjórafrú á Húsabakka og marga fleiri mætti nefna en myndir segja meira en orð.
Öll Tjarnarsystkin mættu nema Kristján. Það er víst ekki í fyrsta sinn sem hann missir af því að vera á fjölskyldumynd. Gripið var til þess ráðs einu sinni að hafa haus á kafarabúningi í hópnum í hans stað við myndatöku. Í dag hafði Sigrún systir hans augastað á afrískri galdragrímu til að tákna næstyngsta bróðurinn á hópmynd en grímuskömmin var svo hátt uppi á vegg að ekki var lífsins leið að ná henni niður. Meira að segja Jóhann Svarfdælingur hefði kallað eftir stiga.
Myndin var því tekin Kristjáns- og grímulaus en Stjáni fær hins vegar fegurstu hugsanir sendar norður yfir heiðar og allt hans fjarstadda fólk.
Að myndatöku lokinni sungu systkinin svo brag sem Hjörtur á Tjörn orti á sínum tíma um barnaskarann sinn.
Sýnilega dásamleg samkoma. Mér finnst ég svo tengd þessu góða fólki, enda á ég Árna, Sigrúnu og Ingibjörgu Hjartarbörn með mínum góða manni, ættuðum frá Dalvík og svo var markið okkar í sveitinni, “ Lögg og sýlt“ en Tjarnarmarkið var “ sýlt og lögg“. heill Sigríði og hennar góða fólki sem alltaf gleður og kætir. Unnur Halldórsdóttir.