Hinsta kveðja til Júlíusar Dan

Staðlað

Menn eiga ekki að fresta því til morguns sem þeir geta gert í dag. Ég hringdi í Júlíus frá Syðra-Garðshorni á afmælisdaginn hans, 6. janúar, en fékk ekki svar. Dagar liðu. Fimmtudaginn 20. janúar vildi ég hrista af mér slenið, keypti sex þorraölsflöskur frá Árskógssandi, settist við eldhúsborðið og leitaði að númeri Júlíusar í símanum mínum. Ég vildi boða komu mína í Seljahlíð þá síðdegis. Á sama andartaki sendi tölvan mín skilaboð um nýjan tölvupóst: Júlíus hafði kvatt þennan heim þá um morguninn.

Þannig fór það.

Ég horfði á pokann með Þorrakalda tárvotum augum, sat lengi og hugsaði  um þennan öðling og kynni mín af honum. Júlíus var einn allra besti sonur Dalsins væna.

Við blasti að þennan Kalda myndum við aldrei drekka saman.

Auðvitað veit enginn sína ævi fyrr en öll er. Mér fannst líklegt að við Júlíus Dan myndum ekki hittast aftur fyrr en að drjúgum tíma liðnum og Kaldi hefur ekki ótakmarkað geymsluþol. Svo var það spurning um flutning á flöskum milli heima, um flöskuopnara og fleira praktískt í „herberginu“ sem ljúflingurinn frá Syðra-Garðshorni flutti sig í. Þórhallur miðill talar nefnilega gjarnan um að við andlát flytji menn sig milli herbergja. Svo einfalt er víst það.

Ég tók einn og sjálfur úr tveimur Kaldaflöskum úr pokanum þá um kvöldið í minningu Júlíusar og tek úr tveimur í kvöld. Því miður höguðu örlögin því þannig að ég gat ekki verið viðstaddur útförina en veit að það er fyrirgefið með breiðu brosi í hinu herberginu.

Júlíus Dan var góður maður með sérlega þægilega nærveru. Heimsóknirnar í Seljahlíð voru of fáar, það sé ég nú, en fagna því hins vegar heiftarlega að ég hafi þrisvar sinnum haft með mér upptökugræjur og bróður Jón Baldvin til fundar við kappann.

Upptökur af samtölum okkar hlýja um hjartarætur sem aldrei fyrr. Þær eru líka lifandi heimild um mannlíf í Svarfaðardal á öldinni sem leið og um viðmælandann sjálfan.

Ég birti hér brot úr spjalli frá því í janúar 2014 og votta um leið fjölskyldu og vinum öðlingsins frá Syðra-Garðshorni innilega samúð.

Alltaf mun ljós, hamingja, friður og hlýja tengjast minningum um Júlíus Jón Daníelsson.

 Atli Rúnar Halldórsson

Sjá líka:

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s