Blót á Rimum eftir bókinni

Staðlað

Þorrablót á Rimum lukkaðist þetta líka ljómandi vel og þétt var setinn Svarfaðardalur í félagsheimilinu að vanda. Á sama tíma og þorrablót Sunnansvarfdælinga lognast út af vegna áhugaleysis komast færri að en vilja á Rimablót.

Þetta var samkoma eftir bókinni. Hákarl og brennivínsstaup við upphaf fagnaðarfundar, át, drykkja, söngur, linnulaust gleðihjal og svo dans fram á rauða nótt. Framkvæmdanefnd blótsins var í 1979-stemningu og klæddist í samræmi við tíðaranda sumarsins þegar kvikmyndin Land og synir var tekin upp í dalnum.

Margrét Sverrisdóttir, leikari og prestsfrú á Möðruvöllum, var forsöngvari og söngstýra á samkomunni. Hlutverkið var eins og skraddarasaumað á hana og hún fær líka sérstakt viðurkenningarprik fyrir að skála oft og lengi við blótshjörðina. Það þarf nefnilega að halda fólki við fast efnið en vill gleymast á stundum.

Sölvi á Hreiðarsstöðum stjórnaði skaupinu eins og fyrri daginn. Flutningur fréttaannáls liðins árs er sérgrein hans og hápunktur Rimablóta. Mikið hlegið og leikin atriði vöktu líka mikla kátínu, bæði þau sem leikin voru á vettvangi og tekin upp á myndband til sýningar á tjaldi. Kvikmyndagerðin var reyndar sérlega fagmannleg í þetta sinn.

Sveitarstjórnin og tilteknir starfsmenn Dalvíkurbyggðar máttu þola umtalsverða skothríð í annálnum og greinilegt að salurinn lét sér það vel líka. Stóra Húsabakkamálið kraumar undir. Svokallaður athafnamaður að sunnan keypti skólahúsin á Húsabakka í fyrra og vill núna bæta Sundskála Svarfdæla við í innkaupakörfuna sína. Hann skoðaði reynar félagsheimilið Rimar líka í fyrra, ásamt skólahúsunum og sundskálanum, áður en lagði hann fram tilboð í Húsabakka.

Það kæmi því ekki á óvart þótt þreifað yrði á Rimum næst með kaup í huga. Gárungar velta fyrir sér hvort Tjarnarkirkja endi líka á þessu markaðstorgi, enda ábyggilega samlegðaráhrif fyrir Húsabakkatorfuna að tengjast guðshúsi.

Hvað svo sem gerist blasir við nú strax í janúar að Húsabakka- og sundskálamál verða dagskrárefni í annáls Rimablóts 2018. Reyndar má teljast meira en líklegt að höfundar þorrablótsannála fá efnivið í hendur þarna í miðsveitinni þarnæstu árin líka.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s