Setrið Norðurslóð við Strandgötu á Akureyri er ævintýri sem mun draga að sér gesti langt að og vekja eftirtekt og umtal. Bandarísk hjón kvöddu þar dyra fyrir helgi og fengu að heyra að ekki væri búið að opna almenningi aðgang en þau fengu samt leyfi til að kíkja inn fyrir þröskuldinn og skoða. Þau fóru þremur klukkustundum síðar, himinlifandi. Það segir sína sögu.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, opnaði Norðurslóð formlega í dag að viðstöddu fjölmenni. Arngrímur Jóhannsson, athafnamaður, flugstjóri og áður gjarnan kenndur við flugfélagið Atlanta, er aðaleigandi Norðurslóða og drifkraftur verkefnisins. Einfaldast er reyndar að kenna hann bara við upprunann.
Arngrímur frá Göngustöðum í Svarfaðardal er frumkvöðull og hugsjónamaður. Norðurslóðasetrið er afskaplega vel heppnað og áhugavert. Þetta er ekki safn og raunar má ekki nefna hugtakið „safn“ neins staðar nálægt Strandgötunni því þá taka minjalög til setursins og Margrét Hallgrímsdóttir fær embættisrétt yfir því. Margfalt betur fer á því að andi Göngustaða ríki þarna. Reyndar er áberandi og athyglisvert að gestir Norðurslóða, sem þekkja Arngrím, skynja vel alúð hans og mannlega hlýju þarna innan dyra.
Ólafur Ragnar lagði til að kalla sýninguna einfaldlega „ferðalag“. Það er við hæfi og má til sanns vegar færa.
Gestir á hátíðarsamkomunni í dag voru yfir sig hrifnir. Þetta er svo áhugavert og vel upp sett og skipulagt að það þarf að koma aftur og aftur til að meðtaka áhrifin til fulls. Aðalsteinn Bergdal leikari verður staðarhaldari og hann stjórnaði samkomunni.
Safn uppstoppaðra dýra og fugla Hafsteins Hólm Þorleifssonar á Siglufirði hefur fengið veglegan sess á Norðurslóðum. Hann lést fyrir fáeinum árum og börn hans reyndu að finna því stað. Það stóð til að fá því húsnæði í Hrísey en Arngrímur opnaði dyr sínar við Strandgötu og þangað eru dýrin og fuglarnir komnir. Börn Hafsteins afhentu Arngrími í dag safnið til eignar og varðveislu; Helga, Kristín, Jón og Hanna Björg Hólm.
Skemmtilega táknrænt er að Arngrímur hóf starfsferil sinn ungur drengur í þessu sama húsi. Þarna var á árum áður rekið bílaverkstæði og Arngrímur var þar sendill. Ekki nóg með það. Ingi bróðir hans varð sendill á verkstæðinu tveimur árum síðar og yngsti bróðirinn, Davíð, fetaði í sendilsfótspor eldri bræðranna þegar hann hafði náð aldri og þroska til slíkra embættisverka.
Gestir frá Landhelgisgæslunni komu af himnum ofan til samkomunnar. Þyrla Gæslunnar hlammaði sér í snjókófi niður á bryggjukantinn, fáeina metra frá dyrum Norðurslóða, og út streymdu flugliðar færandi varning og gjafir. Svo hvarf þyrilvængjan á braut eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það er jafnan flest stórt í sniðum eða óvenjulegt í kringum hann Arngrím frá Göngustöðum.