Bjórbað, hvalir og bræður á Bakka

Staðlað

Bakkabræður, bjór og eyfirskir hvalir eiga fátt sameiginlegt svona fljótt á litið. Í dag voru þetta þemu dugmikilla fyrirtækja í ferðaþjónustu og iðnaði í Dalvíkurbyggð, skýli á Reykjavíkurflugvelli af öllum stöðum.

Múgur og margmenni var á Mannamóti, kynningarsamkomu ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni í flugskýli flugfélagsins Ernis. Þarna voru fulltrúar yfir 200 fyrirtækja og sannaðist að þröngt mega sáttir sitja við kynningarborðin þegar nauðsyn krefur.

Afar fjölbreytt flóra og fróðlegt að sjá allt það sem ferðafólki býðst til þjónustu, fróðleiks, afþreyingar, matar og drykkjar á landsbyggðinni.

Mannamót 2017 var fjórða samkoma sinnar tegundar og í öll skiptin lét Flugfélagið Ernir sýnendum eftir flugskýlið sitt endurgjaldslaust. Mannamót er sameiginlegur vettvangur þeirra sem kynna það sem þeir hafa upp á að bjóða annars vegar og hins vegar fulltrúar ferðaskrifstofa, markaðsfólks, leiðsögumanna og annarra sem hafa með skipulag og framkvæmd ferðaþjónustu að gera.

Saman á Dalvíkurbyggðarpriki í flugskýlinu kynntu Sigurður Bragi Ólafsson yfirbruggari og Ragnheiður Ýr Guðjónsdóttir væntanleg bjórböð Bruggsmiðjunnar á Árskógssandi; Aðalheiður Símonardóttir og Bjarni Gunnarsson kynntu allan sinn rekstur í gistingu og þjónustu við svanga og þyrsta á kaffihúsinu Gísla, Eiríki og Helga; Aðalsteinn Svan Hjelm kynnti hvalaskoðun frá Hauganesi og Freyr Antonsson kynnti hvalaskoðun frá Dalvík. ArcticSeaTours á Dalvík fá í apríl fínan spíttbát fyrir viðskiptavini sína og auðvitað flaggaði Aðalsteinn Svan mynd af honum á kynningarborðinu sínu.

Margt nýmetið var að finna og sjá hjá ferðaþjónustufyrirtækjunum en bjórböðin á Árskógsandi hljóta að teljast ein merkasta nýjungin í ár. Landsmenn kunna vel að meta Kalda í glasi en nú fá þeir tækifæri til að baða sig í honum líka. Meira að segja er víst bæði bráðhollt og heilsusamlegt að lauga sig í öli og slaka síðan á.

Gísli, Eiríkur og Helgi á Bakka voru þrifnir karlar, lauguðu fætur og rugluðust á því hver átti hvaða löpp. Þeir lifðu það ekki að baða sig í bjór en hefðu örugglega orðið enn gáfaðri við að hafa bæði Kalda í krús og laug.

Kaldi innvortis og útvortis á Dalvík og Ársskógssandi, hvalaskoðun á eftir frá Hauganesi eða Dalvík. Það var boðskapur dagsins á Dalvíkurprikinu á Reykjavíkurflugvelli.

Við þangað.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s