Gangan á Vegi heilags Jakobs endaði í Syðra-Holti

Staðlað

Nýr eigandi Syðra-Holts í Svarfaðardal hefur upplifað margt sætt um dagana en ýmislegt súrt líka og sumt afar sárt. Ása Dóra Finnbogadóttir gekk nær 800 kílómetra á Spáni í október og nóvember, fetaði í fótspor pílagríma og glímdi við sorgina eftir að hafa misst eiginmann sinn í sjóslysi sumarið 2015. Örlögin höguðu því svo til að hún dvaldi núna um jól og áramót í Suður-Ameríku og fór þangað beint frá því að kaupa Syðra-Holt. Hún lítur björtum augum til nýrra tíma. Ljósmynd: Jose Besoain Narvaez.

„Þetta gerðist allt hratt og óvænt. Nú hef ég varla eirð í mér að vera lengur í Chile, ég vil komast heim í Dalinn minn og byrjaði á því að ná mér í miða á þorrablótið á Rimum 28. janúar.

Þegar ég var í Madrid á Spáni á heimleið af Jakobsveginum hafði Fréttablaðið samband og birti viðtal í byrjun desember.

Inga María Jónínudóttir í Syðra-Holti hafði samband á Fésbók og sagðist hafa fundið á sér að það ætti hún að gera til að kasta á mig kveðju og óska mér velfarnaðar. Ég spurði á móti um hennar hagi og þá kom í ljós að þau Anton höfðu ákveðið að flytja aftur í Hóla í Hjaltadal og sett jörðina í sölu fimm dögum áður. Ég spenntist öll upp, enda er Syðra-Holt á flottum stað og ég hafði verið þar í sveit sem stelpa hjá Ástdísi og Sigurði. Inga Maja sendi mér slóð á fasteignasöluna, ég þaut af stað, fór í Syðra-Holt og skoðaði, bauð í jörðina og við náðum saman. Bingó, jörðin var mín!“

Fjós verður gistihús

sydraholt

Syðra-Holt í Svarfaðardal. Mynd úr Byggðum Eyjafjarðar 2010.

Þar með er Ása Dóra á leið á heimaslóðir í ákveðnum skilningi, móðir hennar, Þórdís Hjálmarsdóttir (Dísa Bomma), býr á Dalvík og þar eru ræturnar.

Ása Dóra hefur rekið gistiheimili á Bíldudal undanfarin ár en seldi það Friðbjörgu Matthíasdóttur starfandi bæjarstjóra í Vesturbyggð á meðan barnsburðarleyfi Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra varir.

Friðbjörg tók við rekstrinum 1. nóvember en þá var seljandinn gangandi á pílagrímaslóðum á Spáni.

Fyrir liggur að reynsla af ferðaþjónustu á Bíldudal verður nýtt í Syðra-Holti.

„Já, ég ætla að leigja út herbergi í kjallaranum og svo er stóri draumurinn að skipta um þak á fjósinu, innrétta það sem gistihús og taka á móti litlum gönguhópum.

15626213_10210258168783372_4941070311518194730_o

Ása Dóra í góðra vina hópi í Chile. Fleiri myndir frá dvölinni í Suður-Ameríku um jól og áramót er að finna í lok viðtalsins.

Ég heimsótti á dögunum skólafélaga minn hér í Chile og gisti á bæ þar sem kartöflugeymslu hafði verið breytt í gistihús. Þar kviknuðu hugmyndir um eitt og annað sem gaman væri að útfæra í Syðra-Holti,“ segir nýbakaður jarðareigandinn sólbakaður í blíðviðri í Suður-Ameríku í samtali á Skype.

Í Chile er nefnilega sumar og sól um þessar mundir. Ása Dóra var í 30 stiga hita um jólin í Santiago en er núna í ögn svalara loftslagi sunnar í landinu, í héraðinu Valdivia.

Flugeldar sáust ekki á himinhvolfinu um áramótin. Það er einfaldlega bannað að fást við slíkt nema hvað Ása Dóra heyrði af skipulagðri flugeldasýningu við vatn annars staðar í landshlutanum.

Mikið var um fjölskylduboð út og suður en jól og áramót voru annars afar ólík því sem hún þekkti að heiman, allt mun látlausara og óformlegra. Gjafir voru gefnar en þær fengu menn afhentar í jólaboðunum hjá gefendum en voru ekki sendar heim til viðtakenda.

Breytt tilvera þegar sorgin barði að dyrum

Ása Dóra hefur komið víða við um dagana. Hún lærði umhverfisskipulag í þrjú ár á Hvanneyri í Borgarfirði og þar áður hafði hún fengist við ýmislegt, meðal annars prófað sjómennsku við Íslandsstrendur og þrifið eftir fulltrúa á þjóðþingi Danmerkur (Folketinget) í tvö ár. Hún starfaði í 50 manna liði ræstingarfólks sem fór með ryksugur og afþurrkunarklúta í allar vistarverur og skot löggjafarsamkomunnar í Kaupmannahöfn og losaði yfirfulla öskubakka af skrifborðum þingmanna. Danir eru á köflum miklir reykingaberserkir og slíka er auðvitað að finna líka á þingi.

Til Vestfjarða flutti Ása Dóra vorið 2010 til þess að reka Skrímslasetrið á Bíldudal þá um sumarið. Hún ákvað að dvelja lengur, keypti lítið hús í þorpinu og settist að. Um vorið kynntist hún Magnúsi Kristjáni Björnssyni og þau tóku upp samband, síðar sambúð og atvinnurekstur. Hún sá um að reka gistiheimilið þeirra en fyrir þeim lá að eiga samvistir einungis í fjögur ár. Magnús fórst með Jóni Hákoni BA-60 úti fyrir Aðalvík á Hornströndum sumarið 2015.

Þröstur Leó Gunnarsson leikari var í áhöfninni og honum lánaðist að bjarga naumlega lífi tveggja félaga sinna: Björns Magnús­sonar skip­stjóra (sonar Magnúsar heitins) og Guðmundar Rún­ars Ævars­sonar stýri­manns.

Þröstur Leó lýsti slysinu í áhrifamiklum viðtölum í sjónvarpi og í Morgunblaðinu.

Hlustendur Rásar tvö völdu hann mann ársins 2015. Rannsókn slyssins er enn ekki lokið, alla vega hefur ekkert heyrst af niðurstöðum hennar.

Ása Dóra skráði gistiheimilið á alþjóðlega vefsíðu fyrir þá sem vilja gerast sjálfboðaliðar til ýmissa starfa í tvo mánuði og vinna fyrir fæði og húsnæði í 25 tíma á viku. Til hennar kom par frá Bandaríkjunum og annað frá Bretlandi seinna. Síðarnefnda parið ætlaði að vera í einn mánuð á Bíldudal en annan á sunnlensku svínabúi. Ása Dóra fékk þau til að framlengja dvölina hjá sér. Það gerðist rétt fyrir sjóslysið og svo fór að breska parið tók í raun að sér rekstur gistiheimilisins þar til Íslandsdvölin endaði. Engu líkara en örlögin hefðu séð Ásu Dóru fyrir þessum hjálparhöndum þegar á þurfti að halda á tímum sorgar og erfiðleika.

Stóð við við loforð um Chileför fyrr en hana óraði fyrir

Þriðja parið í sjálfboðavinnu á Bíldudal kom alla leið frá Chile og þegar það kvaddi Ásu Dóru var tekið af henni loforð um að láta sjá sig síðar í suður þar.

„Ég svaraði því til að sjálfsagt myndi ég hitta þau á heimavelli en innst inni reiknaði ég ekki með að það myndi gerast vegna anna við að reka gistiheimilið. Svo gerast óvænt atvik og hér er ég stödd!

Dvölin á Bíldudal breyttist mikið eftir að Magga naut ekki lengur við. Við vorum afar samrýmd og tómlegt var þegar hann var farinn. Mér datt í hug að gott væri að skipta um umhverfi og ákvað að fara norður í leiðsögunám í Háskólanum á Akureyri. Það gekk hins vegar ekki upp vegna þess að mér tókst ekki að fá neinn til að annast gistiheimilið á meðan, sem var í raun fínt því annars hefði ég ekki upplifað allt þetta undanfarnar vikur og mánuði! Það var erfið ákvörðun að selja gistiheimilið en þegar hún lá fyrir var hægt að leiða hugann að hvað gæti tekið við hjá mér. Eitt leiddi svo af öðru.

Leiðsögumannanámið er enn á dagskrá, nema hvað nú get ég sótt það heiman frá mér í Syðra-Holti. Það er ekki lítil breyting í tilverunni.

Vinur minn og göngugarpur, Einar Skúlason, hvatti mig til að fara til Spánar, ganga Jakobsveginn, vera ein á ferð og eiga tal við sjálfa mig. Að mér hvarflaði ekki að ég myndi fara alla leiðina frá Pýreneafjöllum að dómkirkjunni í Santiago de Compostela, endastöð pílagrímagöngunnar. Ég ætlaði bara að ganga eins og þrekið leyfði og láta þar við sitja en þegar ég var hálfnuð hljóp í mig kapp. Þá voru um 400 kílómetrar að baki og hvers vegna gat ég ekki gengið annað eins og komist alla leið í mark

Þarna kom vestfirski þráinn til sögunnar. Pabbi var frá Hvestu í Arnarfirði og talað er um að í Vestfirðingum séu þrjóskugen sem ábyggilega birtust þarna í mér. Reyndar getur mamma verið algjör þrjóskupúki líka, svo það er ekkert skrítið að ég hafi þrjóskast áfram á pílagrímaslóðinni.

Stimplar sig inn á Rimablóti

„Gönguferðin á Spáni gerði mér gott, afar gott og ég náði að gera upp sorgarferlið eins og hægt er í góðum félagsskap við sérstakar sérstakar og mannbætandi aðstæður.

Ég hef að vísu ekki náð því að vinna almennilega úr upplifuninni á göngunni löngu því ég staldraði bara við í tvær vikur á Íslandi áður en ég fór til Síle og í Íslandsstoppinu keypti ég jörð í Svarfaðardal, sem aldeilis ekki var á dagskrá!

Nú hef ég um nóg að hugsa og hlakka óskaplega til að „stimpla mig inn“ í samfélagið í Svarfaðardal og taka til hendinni í Syðra-Holti. Í Dalnum er mikil orka, ungt og framtakssamt fólk sem gaman verður að kynnast og starfa með.“

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s