Íslandsraddir á sínum tíma áttu Jón Múli Árnason, Jóhannes Arason, Ásta Ragnheiður Pétursdóttir og Gerður G. Bjarklind. Íslandsröddina nú á Dalvíkingurinn Sigvaldi Júlíusson – Silli, eini þulur Ríkisútvarpsins í fullu starfi. Hann er OKKAR maður, þjóðareign sem sumir eiga samt meira í en aðrir.

Þau lásu jólakveðjur í Ríkisútvarpinu 22. og 23. desember 2016. Frá vinstri: Atli Freyr Steinþórsson, Anna Sigríður Einarsdóttir, Sigvaldi Júlíusson, Gerður G. Bjarklind, Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, Arndís Björk Ásgeirsdóttir og Stefanía Valgeirsdóttir.
Þessi pistill birtist að kveldi Þorláksmessu. Þá er Silli enn að lesa jólakveðjur á Rás eitt og fleiri með honum. Þularhópurinn hefur verið að frá því daginn áður, samanber meðfylgjandi myndir sem teknar voru í Efstaleiti 22. desember.
Silli flutti þjóðinni fyrst jólakveðjur í Ríkisútvarpinu 1987 og hefur gert það á Þorláksmessu síðan þá að undanskildu árinu 2011 þegar hann forfallaðist. Lesturinn í ár er því sá tuttugasti og áttundi, takk fyrir!
Jólakveðjurnar skapa eftirvæntingu og stemningu á heimilum landsmanna og kveðjunum fjölgar bara ár frá ári. Við sendum fleiri og fleiri kveðjur og hlustum á þær líka. Áður dugði Þorláksmessa frá morgni til kvölds til að koma öllum kveðjum til skila. Svo var farið að lesa fram á aðfaranótt aðfangadags og dugði ekki til. Nú eru jólakveðjur lesnar í hátt í fimm klukkustundir að kvöldi 22. desember og svo endilanga Þorláksmessu til miðnættis eða lengur ef þarf.
Kveðjusarpurinn bólgnar út og kemur fjármálastjóra Ríkisútvarpsins í enn betra jólaskap en mörgum öðrum landsmönnum ár eftir ár. Enda skapar jólakveðjuflóðið tekjur og það svo um munar.
Enginn má heyra að þulurinn er í hátíðarskapi
Silli hefur margoft verið þulur á aðfangadagskvöld en ekki í ár. Hann verður hins vegar á sínum stað á jóladag og á annan í jólum en hins vegar ekki um áramótin, aldrei þessu vant. Ófáa nýársmorgna í minningunni hefur röddin frá Dalvík vakið landsmenn til nýs árs, misjafnlega ryðgaða eftir að hafa kvatt úrelt ár og heilsað öðru nýútsprungnu með stæl.
Á rölti til vinnu snemma á nýársdagsmorgni mætir þulur Ríkisútvarpsins ófáum á heimleið í háttinn og svefninn, snemma eða seint á ferð allt eftir því hvernig á er litið. Þannig ætti vel við í mörgum tilvikum að þulur hæfi útsendingu að morgni fyrsta dags ársins í anda þess hluta þjóðarinnar sem er að drattast í bælið þá stundina og segði hátt og skýrt: „Dagskránni er lokið, góða nótt!“ Silla hefur samt tekist að neita sér um það.
„Ýmsir hafa haft á orði að þeir vorkenni dálítið okkur sem stöndum vakt á stórhátíðum, til dæmis á aðfangadagskvöldi. Það er óþarfi, enda sjálfsagður hluti starfsins. Ég kemst í hátíðarskap í vinnu á aðfangadagskvöldi og hugsa á vaktinni hlýtt til nánustu ættingja og vina. Sjálfu jólahaldinu seinkar auðvitað en hvað um það, jólin koma líka til þular á vakt.“
– Þú hefur þá ekki freistast til að koma að hljóðnemanum klökkur af hátíðleika og laumast til að skjóta kveðju að þínum nánustu milli atriða, til dæmis á aðfangadagskvöldi?
„Nei, aldeilis ekki. Jón Múli kenndi mér margt, meðal annars að góður þulur lætur aldrei í ljósi tilfinningar sínar í útsendingu. Hlustandinn á ekki að heyra hvort þulur er í fýlu, yfir sig glaður eða hefur rifist við maka sinn í bílnum á leið í vinnuna!“
Dánartilkynningar þrautlesnar

Silli leggur Ragnari tæknimanni línur fyrir útsendingu. Það fer ekki á milli mála …
–Fékkstu góð ráð hjá Jóni Múla og hinum „gömlu“ þulunum í vegarnestið í upphafi?
„Já, já. Ég byrjaði í þessu starfi 1987 og fékk fastráðningu í nóvember það ár. Við nýliðarnir vorum prófaðir og fengum leiðbeiningar hjá þessum þrautreyndum stjörnum sem við þekktum og höfðum alist upp við í gegnum Ríkisútvarpið. Það var mjög sérstakt að vera allt í einu innan um þetta fólk og sjá hvernig þekktustu raddir Útvarpsins litu út! Ég sagði einu sinni við Múlann að ég tengdi röddina hans við laugardagshádegi og mjólkurgraut og slátur sem við fengum gjarnan heima hjá mér á Dalvík forðum daga. Það fannst honum gaman að heyra.
Múlinn gaf mér mörg góð ráð í nestið og ég tileinkaði mér þau. Til dæmis sagði hann að þulur ætti alltaf að vinna fram fyrir sig og vera búinn undir það fyrirsjáanlega og ófyrirsjáanlega næstu klukkustundina hið minnsta og helst lengur. Vera alltaf á tánum.
Hann ráðlagði mér líka að lesa vel yfir það sem ég ætlaði að segja í hljóðnema, einkum og sér í lagi ætti ég að þrautlesa og kynna mér texta í dánarfregnum og jarðarförum fyrir útsendingu.
Staðreyndin er nefnilega sú að óvenjuleg mannanöfn og staðarnöfn koma oft fyrir í dánartilkynningum og þá eigum við að fara með þau rétt og eðlilega, án þess að tafsa eða mislesa. Þetta geri ég og fletti upp í Þjóðskrá eða hringi til að fá staðfest að rétt sé með farið í textanum. Alltaf er illt að fara ranglega með nöfn fólks en aldrei eins og í dánar- og útfarartilkynningum.“
Var í Ríkinu, fór til ríkisins
Ragnheiður Ásta Pétursdóttir hefur lengstan starfsaldur þula Ríkisútvarpins frá upphafi og var við hljóðnemann í vel yfir 40 ár. Jóhannes Arason var þulur í rúmlega 30 ár og Silli nær 30 ára starfsafmæli í nóvember 2017. Þau þrjú eiga það sameiginlegt að hafa verið þulir allan sinn feril en hin þrjú fengust líka við dagskrárgerð um hríð: Gerður Bjarklind, Pétur Pétursson og Múlinn.
„Ég hafði komið nokkuð víða við sögu áður en ég hafnaði í þularstofu. Ég byrjaði í læknisfræði í Háskóla Íslands eftir stúdentspróf, söðlaði síðan um og fór í heimspekideild til að læra heimspeki, sögu og bókmenntir. Svo var ég kennari um hríð heima á Dalvík, afgreiddi áfengi yfir borð í Lindargöturíkinu og fór að síðustu að vinna hjá Miðlun.
Á Miðlunartímanum var ég fenginn til að vera þulur í ferðaþáttum sem sýndir voru í Sjónvarpinu. Í kjölfarið hafði Elva Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins, samband í umboði Markúsar Arnar Antonssonar útvarpsstjóra og hvatti mig til að sækja um þularstarf í Ríkisútvarpinu. Þá voru Jóhannes Arason, Jón Múli og Pétur Pétursson að hætta og ég sótti um.
Umsækjendur voru hvorki fleiri né færri en 99 og ég var einn þriggja sem var ráðinn. Ríkisútvarpið var í miðborginni þegar ég sótti um en var komið í Efstaleiti þegar ég hóf störf. Ég var því aldrei þulur í Útvarpshúsinu við Skúlagötu en hef verið í núverandi aðsetri RÚV frá því það var tekið í gagnið.“
Heilög þögn RÚV á aðfangadag
–Hefur þularstarfið breyst á einhvern hátt á þessum tæplega þrjátíu árum?
„Já, blessaður vertu. Heilmikið! Mestu breytingarnar áttu sér stað fyrir um tveimur árum þegar þulir voru gerðir að tæknimönnum líka. Ég hef tæknimann með með mér í útsendingum um helgar en á virkum dögum er þulurinn á útsendingartökkunum líka og þarf auk þess að sinna dagskrárgerð í verulegum mæli líka.“
– Ha, dagskrárgerð?
– Já, þar á ég aðallega við að við verðum að gæta þess stöðugt að hvergi myndist eyður í dagskránni og fylla þær með því að tala sjálfir eða velja tónlist og spila. Nú ertu í heimsókn um fimmleytið á sunnudegi, ég hef verið á vakt í sjö klukkustundir og valið tónlist í meira en eina klukkustund til að fylla í eyður sem myndast af því „niðursoðnir“ þættir í dagskránni fylla ekki út í tímaramma sem þeim eru ætlaðir.
Þessa tónlist vel ég sjálfur og spila. Annars væri þögn í útsendingu og þegjandi útvarp gengur víst ekki. Eina þögnin sem þekkist í Ríkisútvarpinu er þessi fyrirskipaða og heilaga á undan aftansöngnum á aðfangadagskvöld frá kl. 17:45 til 18.
Þessi þögn er reyndar svo hátíðleg að sumir setjast sérstaklega við útvarpstækin til að hlusta á hana! Svo rjúfa kirkjuklukkur kyrrðina og jólin ganga í garð.“
Færri þulir, miklu meiri vinna!
Silli Dalvíkingur er þulur í fullu starfi, sá eini. Aðrir þulir eru í hlutastörfum og alls eru þeir í 1,7 stöðugildum. Það er nú allt og sumt.
Stöðugildin dragast saman og rýrna en verkefnum þulanna fjölgar!
„Þularvaktirnar voru þrískiptar þegar ég byrjaði en nú er ein vakt allan daginn, tíu og hálf klukkustund á virkum dögum. Starfið er miklu umfangsmeira og erfiðara en áður var.
Sumir halda að ég geti rölt um húsið og rætt við fólk hingað og þangað á milli kynninga og auglýsingatíma en það er nú öðru nær. Ég get eiginlega aldrei um frjálst höfuð strokið og er bundinn í þularstofunni mestallan þann tíma sem vaktirnar vara.
Fyrir kemur að fólk, sem leysti af sem þulir áður fyrr, komi hingað og vilji grípa í starfið í afleysingum en hverfur frá því þegar það sér og áttar sig á eðlisbreytingu starfsins. Sjálfum hefði mér staðið ógn af þessu fyrir 29 árum.“
Svo leggst Dalvíkingurinn í útreikninga. Þarf að brúa bil í tali eða tónum næsta klukkutímann? Ábyggilega og þá þarf að redda málum.
Þulur til kvölds er Sigvaldi Júlíusson.
Fróðleiksmolar um jólakveðjur Ríkisútvarpsins
- Ríkisútvarpið tók til starfa 1930 og 1932 voru þar fyrst fluttar jólakveðjur. Fyrst voru þær á dagskrá á aðfangadag jóla, svo á jóladag og loks á Þorláksmessu og þar hafa þær verið áratugum saman.
- Ragnheiður Ásta Pétursdóttir starfaði sem þulur í 44 ár. Hún las fyrst jólakveðjur á Þorláksmessu 1962 og þá hófst lesturinn kl. 20:30.
- Sigvaldi Júlíusson las jólakveðjur í fyrsta sinn 1987. Þá hófst lesturinn kl. 16 og honum lauk um miðnætti.
- Í ár, 2016, var lesið í fimm tíma að kvöldi 22. desember og alla Þorláksmessu frá morgni til miðnættis! Öllu var rutt af dagskrá Rásar eitt nema fréttum, veðurfregnum og hefðbundnum auglýsinga- og tilkynningalestri.
Heimildir: Sigvaldi þulur Júlíusson og Morgunblaðið 16. desember 2010