Sagan af skipsklukkunni á Bjarma II

Staðlað

img_1058„Ég fékk fyrir skömmu ljósmynd og meðfylgjandi ábendingu um mann í Keflavík sem ætti skipsklukkuna frá Bjarma II EA-110, sem reyndist rétt vera. Ég setti mig í samband við hann og fékk gripinn til eignar, 15 kílóa koparhlunk með mikla sögu. Vonandi verður stofnaður vísir að sjóminjasafni á Dalvík og þá skal ég glaður gefa klukkuna sem fyrsta safngripinn!“ segir Haukur Sigvaldason, smiður og einn af aðstandendum heimildarmyndarinnar Brotsins.

img_1064Hann er óþreytandi að sanka að sér heimildum og þekkingu um báta og útgerð fyrri tíma á Dalvík og um trébáta og bátasmíðar á landinu yfirleitt. Boltinn hleður sífellt utan á sig. Á dögunum kom hann frá Keflavík með skipsklukkuna úr Bjarma II og fór síðan til Grindavíkur til að reyna að komast yfir stýrishjólið í sama báti sem reyndar hefur heitið Hrugnir GK um áratugaskeið, liggur með ónýta aðalvél í Grindavíkurhöfn og bíður niðurrifs. Ef að líkum lætur sannfærast Grindvíkingar um að stýrið sé hvergi betur komið en hjá Hauki, einkum og sér í lagi þegar þeir átta sig á því að þessir hlutir hafa bæði sögulegt og tilfinningalegt gildi fyrir Dalvíkinginn brottflutta.

 Bjarmi númeraður í minningu Sigvalda

Útgerðarfélagið Röðull hf. á Dalvík lét smíða stálbátinn Bjarma II í Sandefjord í Noregi 1963 . Eigendur þess voru bræðurnir Bjarni Th. og Jóhannes Th. Jónssynir, bræðurnir Jón og Sigvaldi (faðir Hauks) Stefánssynir frá Brúarlandi og Jónas Hallgrímsson frá Bjarnastöðum. Ákvörðun um fjárfestinguna var tekin árið 1962 en Sigvaldi lifði ekki að sjá bátinn koma til heimahafnar í febrúar 1964. Hann fórst ásamt Gunnari bróður sínum með Val EA-110 í páskafárviðrinu á Norðurlandi 1963. Meðeigendur Sigvalda í Röðli heiðruðu minningu félaga síns með því að skrá nýja bátinn með sama númer og Valur bar; Bjarmi II EA-110.

Strandað í tvígang

Útgerð Bjarma II gekk ekki áfallalaust. Báturinn strandaði í Loftsfjöru við Stokkseyri aðfaranótt 6. mars 1967 og flestir töldu að þar yrði endapunkturinn settur. Kristinn Guðbrandsson, síðar kenndur við Björgun, var á öðru máli. Honum og mannskap á hans vegum tókst að koma Bjarma á flot þremur vikum síðar, furðulítið skemmdum.

Árið 1973 strandaði báturinn aftur, á Hvalbak eystra, kominn úr eignarhaldi Dalvíkinga og hét þá Reykjanes GK-50. Hann skemmdist mun meira en í Loftsfjöru.

Á Vefsíðu Emils Páls Jónssonar í Keflavík má sjá að Bjarmi II hafi síðar heitið líka Fjölnir SU en lengst af samt Hrugnir GK-50 eða á fjórða áratug. Bátnum hefur verið breytt eða hann lengdur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á langri ævi. Haukur Sigvaldason kastar því fram að einungis þriðjungur bátsins nú í Grindavíkurhöfn sé upprunalegur frá fyrstu útgerðarárunum á Dalvík.

 Sendibílstjórinn bjargaði klukkunni

„Mér var bent á Jón Ingþór Jóhannesson í Keflavík og hann reyndist eiga klukkuna af Bjarma II í geymslu hjá sér. Faðir hans var sendibílstjóri á Suðurnesjum og fékk eitt sinn það verkefni að losa geymslur og háaloft hjá útvegsfyrirtækinu Miðnesi í Sandgerði fyrir margt löngu og flytja nokkra bílfarma af rusli og dóti á haugana. Þar átti að fljóta með klukkan af Bjarma en Jóhannes bílstjóri skaut henni undan og átti gripinn mörg næstu árin eða þar til þau hjón minnkuðu við sig húsnæðið. Þá fékk sonur þeirra, Jón Ingþór, klukkuna og hafði sem stofustáss þar til í fyrra að hún var sett í geymslu,“ segir Haukur Sigvaldason.

„Ýmsir höfðu lýst áhuga á klukkunni en Jón Ingþór vildi ekki láta hana. Hann kvaðst hafa haft á tilfinningunni að einhver gæfi sig fram sem tengdist gripnum beint eða óbeint á einhvern hátt. Þegar ég hafi samband við hann og sagði frá því að pabbi verið í eigendahópi útgerðarfélagsins á Dalvík sem lét smíða Bjarma II boðaði Jón Ingþór mig á sinn fund, afhenti mér klukkuna og fékk í staðinn disk með Brotinu og spilastokk og músamottu með mynd af Dalnum eina. Hvorugur fór því allslaus af fundinum, langt í frá! Hann nefndi í leiðinni að skipsklukkunni fylgdi góður andi og það get ég staðfest eftir að hún kom inn á heimilið mitt í Reykjavík.“

img_1058-2

Haukur með skipsklukkuna á kontórnum sínum. Mynd af pabba Sigvalda til vinstri og  Dalvíkurhöfn „til forna“ á tölvuskjánum. Kappinn er talsvert oft með hugann við bátana, bryggjurnar og trillukarlana á Dalvík þegar hann ólst upp og síðar …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s