
Oddný lengst til vinstri, Andrína og Steinunn Aldís.
Fyrstu kynni af jólamarkaði við Elliðavatn reyndust vera afskaplega góð. Meiningin var að ná sér í jólatré skjótlega og auðveldlega en svo kom á daginn að þarna var blómlegt mannlíf og blómlegt viðskiptalíf handverksfólks, meira að segja átti Skíðadalur fulltrúa sinn þar í hópi.
Alls kyns handverk og varningur til sölu úti og inni við Elliðavatnsbæinn, jólatré úr Heiðmörk til sögu á vegum Skógræktarfélags Reykjavíkur og meira að segja eldsmiður að störfum og hamrar járnið meðan heitt er.
Kunnuglegt andlit við eitt söluborðið innan dyra, Steinunn Aldís Helgadóttir frá Másstöðum í Skíðadal. Hún flutti frá Reykjavík til Hveragerðis í fyrra og unir hag sínum svona líka vel austan við Hellisheiði. Hún var þarna með tveimur öðrum handverkskonum frá Hveragerði með muni sína og gripi til að sýna og selja.
Steinunn vinnur með rekavið af Ströndum og var líka með gripi úr leir, brennda í jarðholu. Hún setur meðal annars rekavið og þurrkað þang sem brenni í holuna sem hverfist í hitanum og myndar sérstaka áferð á leirnum.
Oddný var með náttúrulega skartgripi, heilræði og spakmæli til að hafa á vegg.
Andrína var með magnað fuglasafnið sitt.
Steinunn, Andrína og Oddný eru þrjár af sex handverksmönnum starfa í samfélagi listamanna og tónlistarmanna í gamla barnaskólanum í Hveragerði. Þar eru líka níu félagar í Myndlistarfélagi Árnessýslu og tvær þungarokkshljómsveitir!
Hveragerðisbær lætur listafólkinu endurgjaldslaust í té. Eina kvöðin er sú að það hafi opið hús fyrir almenning á bæjarhátíðum Hvergerðinga. Aldís bæjarstjóri Hafsteinsdóttir sýnir þarna í verki áhuga sinn á því að styðja listafólk í Hveragerði til góðra verka og stuðla þannig að blómlegu menningarlífi – sem er að sjálfsögðu til fyrirmyndar.
Margir listamenn, leikarar og rithöfundar búa í Hveragerði og hafa flutt þangað nýlega, þar á meðal Steinunn frá Másstöðum. Áður fyrr vakti athygli hve margir listamenn og menningarfrömuðir bjuggu í Hveragerði og kannski er sagan að endurtekur sig nú. Alla vega hefur bæjarstjórinn ekkert á móti því.
- Nefnum af handahófi nokkra Hvergerðinga úr menningarheimum á árum áður: Karl Jónatansson hljóðfæraleikari, Gunnar Benediktsson rithöfundur, Kristján skáld frá Djúpalæk, Kristmann Guðmundsson rithöfundur, Jóhannes úr Kötlum skáld, Gunnlaugur Scheving listmálari, Ríkharður Jónsson myndlistarmaður, Árni Björnsson tónskáld.
Svona gerast ævintýrin. Einföld ferð til að kaupa jólatré varð tilefni pælinga um listir í Hveragerði með krók í Skíðadal. Farið að Elliðavatni og njótið aðventunnar þar um þessa helgi og ná næstu.