Leiðin frá Tjörn um Þjóðminjasafnið að Bessastöðum

Staðlað
img_0828

Þór Magnússon

„Við gistum í Fornahvammi á suðurleið en að morgni dags vildi Kristján ekki halda áfram för fyrr en hann hefði farið með bónda til gegninga í fjárhúsin,“ sagði Þór Magnússon fyrrverandi þjóðminjavörður þegar hann brá upp eftirminnilegri og á köflum nærgöngulli nærmynd af Kristjáni Eldjárn. Tilefni samkomu í Þjóðminjasafninu var að liðin er nákvæmlega öld frá fæðingu drengsins á Tjörn sem síðar varð forseti Íslands.

Hátíðardagskrá var yfirgripsmikil, fjölbreytt, fróðleg og áheyrileg. Frásögn Þórs Magnússonar af samstarfi þeirra Kristjáns situr sterkt í huganum, sömuleiðis ljóðalestur Þórarins Eldjárns og Stefáns Halls Stefánssonar.

Það væri hægt að nefna svo margt fleira.

Guðni Th. Jóhannesson forseti ávarpaði samkomuna og fylgdist með hátíðardagskránni frá upphafi til enda ásamt Elizu forsetafrú. Hann hefur stúderað embættisferil Kristjáns, skrifað merkar bækur um hann og þekkir því sögu Íslandsforseta nr. þrjú betur en flestir aðrir. Kristján glímdi við rysjótt tíðarfar í stjórnmálum öll kjörtímabilin sín þrjú með tilheyrandi stjórnarkreppum og skammlífum ríkisstjórnum. Kannski er Guðni að sigla inn í slíka tíð á fyrstu mánuðum embættisferils síns. Þá er gott vegarnesti að hafa stúderað Kristján, viðbrögð hans og vinnubrögð þegar kom til kasta húsbóndans á Bessastöðum forðum.

Hljóðgæði upptökunnar á ávarpi Guðna Th. í Þjóðminjasafninu eru ekki í hágæðum en þau duga til að koma boðskap forsetans til skila. Það er aðalatriðið og þess vegna er ávarpið birt hér.

Íris Ólöf Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafnsins að Hvoli á Dalvík, flutti áhugavert ávarp til kynningar starfseminni og Kristjánsstofu alveg sérstaklega. Innlegg hennar verðskuldar að vistast hér á Sýslinu til fróðleiks bæði og ánægju þeim sem vilja vita meira um safnið.

Fyrirlestrasalur Þjóðminjasafnsins er ekki sérlega stór, alla vega ekki þegar minnast skal manns á borð við Kristján Eldjárn. Þarna var meira en þétt setinn Svarfaðardalur, frekar hefði mátt tala um troðinn dal.

Hátíðardagskráin var samvinnuverkefni Þjóðminjasafnsins, fjölskyldu Kristjáns Eldjárns, Félags fornleifafræðinga og Forlagsins. Samkoman var afar vel heppnuð og upplýsandi um margt í lífi og starfi forsetans.

  • Svo er meira en sjálfsagt í lokin að taka undir hvatningarorð Þórarins Eldjárns, ætluð þeim sem taka þau til sín: Gerist áskrifendur að Norðurslóð!

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s