Göngustaðaættin tengir saman Clapton, Danadrottningu, Ringó og Ísland

Staðlað

1-img_9299Ætli Suðurflug á Keflavíkurvíkurflugvelli sé ekki eina þjónustufyrirtæki í flugsamgöngum veraldar þar sem eru fangaklefar í öðrum enda húss en búr fyrir lögregluhunda í hinum?

Ábyggilega einsdæmi en það er eftir öðru sem tengist Göngustaðaættinni svarfdælsku. Margir græðlingar hennar fara helst ekki troðnar slóðir.

Flugstöð Suðurflugs er fjarri Flugstöð Leifs Eiríkssonar og starfsemi þessa félags er svo fáum kunn að hún telst vera ágætlega varðveitt leyndarmál í atvinnulífinu og samgöngusögunni.

4-img_9334

Miðrými í flugstöð Suðurflugs, „torgið“ þar sem leiðir starfsmanna og viðskiptavina liggja saman.

Viðskiptavinalistinn sem slíkur ætti samt út af fyrir sig að duga til að Suðurflug væri stöðugt í fréttum fjölmiðlanna en það er nú öðru nær. Vilji fræga fólkið og fyrirmennin fara hljóðlega og áreitislaust ferða sinna um Keflavíkurflugvöll fær það óskir sínar uppfylltar í einu og öllu. Starfsmenn Suðurflugs eru þögulir sem gröfin.

Hvorki fjölmiðlar né aðrir óviðkomandi komast nálægt flugstöðinni, fræga fólkinu og einkaþotum þess. Suðurflug er nefnilega inni á sjálfu flugvallarsvæðinu, handan rammgerðrar girðingar sem á er vaktað hlið dag og nótt.

Í gestabókum Suðurflugs er að finna margt kunnuglegra nafna og sum koma margoft fyrir:

 • Andrea Bocelli
 • Antonio Banderas
 • Clint Eastwood
 • Eric Clapton
 • Friðrik, krónprins Danmerkur
 • Haraldur Noregskonungur
 • John Travolta
 • Margrét Danadrottning
 • Mick Jagger
 • Mikhaíl Gorbatsjov
 • Olivia Harrison
 • Plácido Domingo
 • Ringó Starr
 • Yoko Ono

Danadrottning lendir svo oft hjá Suðurflugi að hún þekkir alla starfsmenn þess með nafni Danski krónprinsinn ávarpar sömuleiðis flesta með nafni. Þau eru fastagestir.

John Travolta er flugmaður sjálfur og lendir svo oft á Keflavíkurflugvelli að tæplega telst til tíðinda að Suðurflugsmenn hitti hann fyrir á kaffistofunni.

Haraldur Noregskóngur og Eric Clapton rokkkóngur hittust á Íslandi, tóku tal saman og hrifust mjög hvor af öðrum. Suðurflug leiddi þar óvart saman tvo viðskiptavini sína.

Klefar fyrir þrjá fanga á skrifstofu félagsins

Suðurflug er hvorki flugfélag né ferðaskrifstofa heldur þjónustufyrirtæki fyrir 80% af annarri umferð á Keflavíkurflugvelli en farþegaflugi. Þar er átt við viðskiptajöfra á einkaþotum, ferjuflug, sjúkraflug milli heimsálfa, hervélar og síðast en ekki síst þjóðhöfðingja og ýmis önnur stórmenni, heimsþekkta rokktónlistarmenn og kvikmyndastjörnur; ríka og fræga fólkið yfirleitt.

3-img_9324

Davíð, Þórdís og Björn Stefánsson, vaktstjóri og meðeigandi þeirra í félaginu.

Davíð Jóhannsson af Göngustaðaætt er framkvæmdastjóri og aðaleigandi Suðurflugs ásamt eiginkonu sinni, Þórdísi Sigtryggsdóttur, sem jafnframt er fjármálastjóri félagsins.

 • Faðir Davíðs var Jóhann Sigurðsson, smiður á Akureyri. Systkin Jóhanns voru Steinunn á Göngustöðum (Nunna í Dröfn); Engilráð á Bakka; Jón, smiður á Dalvík (Jonni á Sigurhæðum); Rannveig á Jarðbrú; Davíð, smiður og harmonikkuleikari á Dalvík og Páll, málari á Dalvík.

Davíð tók við rekstri Suðurflugs í ársbyrjun 2000, keypti 90% í félaginu 2007 en á nú tæplega helming á móti tveimur öðrum yfirmönnum hjá Suðurflugi, Birni Stefánssyni og Kristbirni Albertssyni; Arngrími Jóhannssyni flugstjóra, bróður sínum; og Hermanni Friðrikssyni framkvæmdastjóra.

8-img_9291

Fangaklefi fyrir tvo, takk fyrir.

Suðurflug flutti á dögunum í byggingu á flugvallarsvæðinu þar sem áður var flugstöð Bandaríkjahers og síðar aðsetur herlögreglunnar. Þar er komin skýring á tveimur fangaklefum armslengd frá kontórum framkvæmdastjóra og fjármálastjóra. Annar er ætlaður tveimur föngum en hinn einum.

Sáralitlar líkur eru á því að Davíð og Þórdís stingi nokkrum manni þarna í steininn, þó hæg séu heimatökin að refsa hverjum þeim sem gera kann á hlut Suðurflugs.

Nei, fangaklefinn fær að standa sem safn, minnisvarði um liðna tíð á Íslandi þegar Bandaríkjamenn voru með herstöð á Miðnesheiði.

Í viðbyggingu var bækistöð fyrir hunda herlögreglunnar, hundabúr, annar búnaður og myndir á veggjum sem hermennirnir dunduðu sér við að teikna. Skrítið að sjá þetta allt saman og velta fyrir sér í leiðinni: Hvern fjandann gerði Kaninn með alla þessa hunda í herstöðinni? Þurfti að hundelta dátana um heiðina eða hvað?

Suðurflug gerir ekki út hunda en sjálft húsnæðið er auðvitað gott og gilt. Í hundahúsinu verður geymsla fyrir tól og tæki tengd starfseminni. Búrin koma sér því vel en til allt annars brúks en heimsveldið ætlaði þeim.

Betri stofan í flugturninum

Starfsmenn Suðurflugs eru samheldinn og öflugur hópur. Hægt er beinlínis að skynja góðan starfsanda í loftinu þegar inn er komið.

Samheldnin sýndi sig í verki í sumar þegar nýju vistarverurnar tóku á sig mynd. Starfsmenn félagsins unnu baki brotnu á frívöktum sínum með iðnaðarmönnum viku eftir viku við að mölva niður veggi, reisa nýja, mála og snurfusa.

ÍSAVIA á húsið en Suðurflug leigir það.

11-img_9330

Merking á vegg.

Starfsemi Suðurflugs er á neðri hæðinni en félagið hyggst leigja út efri hæðina. Sjálfur flugturninn fylgir með í leigunni og þar er meiningin að innrétta flotta setustofu fyrir gesti og gangandi.

Kannski eiga vinirnir Ringo og Clapton eftir að tylla sér þarna niður með Egilsappelsín í glösum (uppáhaldsdrykk þess síðarnefnda), horfa yfir flugvallarsvæðið og skála?

Nú eða danska drottningin fær sér smók og Gammel Dansk?

Hver veit. Alla vega er klárt mál að væntanleg betri stofa Suðurflugs verður með þeim flottari og frumlegri á landi hér og þótt víðar væri leitað.

Það skálar enginn löglega í öðrum flugturni en þessum.

Traust og trúnaður skapar og eflir viðskipti

Það var gaman, eftirminnilegt og fróðlegt að taka hús á Suðurflugsfólki. Þar á bæ ríkir bjartsýni, mikið að gerast og margt í gangi.

Göngustaðaættin fær lokaorðið, Davíð Jóhannsson:

Viðskiptin byggjast á persónulegu trausti og trúnaði. Við höfum skipt við sömu fyrirtækin árum saman og hingað koma sömu flugmennirnir með sömu áhafnirnar aftur og aftur. Það breytir öllu að þeir hitti alltaf fyrir fólk hér sem þeir þekkja og treysta. Við settum upp aðstöðu á Akureyrarflugvelli líka að ósk viðskiptavina sem vildu geta farið þangað beint, til dæmis í veiði að sumarlagi eða á skíði að vetri til. Sömuleiðis höfum við leyfi til að taka á móti viðskiptavinum á Egilsstaðaflugvelli.

Við komumst í gegnum bankahrun með félagið og síðan eldgos í tvígang og lifum af samdrátt í starfseminni í öll skiptin. Umsvifin hafa aukist síðan þá ár frá ári en samt ekki náð því sem var fyrir hrun. Við höfum öflugt starfsfólk með margra ára starfsreynslu að baki og það veður nánast eld og brennistein til að við náum þeim árangri sem raun ber vitni um! Íslandsbanki sýnir okkur traust og stendur með okkur og samstarf við Park Inn hótel í Keflavík skiptir miklu máli líka.

 Önnur en gjörólík mál þar sem Davíð Jóhannsson kemur líka við sögu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s