„Ég hafði fyrir þáttinn ákveðið að velja annað hvort Unnstein Manúel eða Svölu Björgvins ef það byðist á annað borð. Þegar ég hafði flutt lagið höfðaði Unnsteinn mest til mín, hann virkaði þægilegur og eðlilegur. Kannski hjálpaði til að ég hlusta mikið á tónlistina hans en pældi samt ekkert í því á þeirri stundu.“
Guðbjörg Viðja Antonsdóttir bræddi sönghjörtu allra fjögurra dómaranna í fyrsta þætti Voice Iceland í sjónvarpi Símans. Hún er á leið í úrvalsdeild söngvara …
Enn ein söngstjarnan úr Dalvíkurbyggð! (Guðbjörg) Viðja er dóttir Antons Níelssonar og Ingu Maríu Jónínudóttur í Syðra-Holti í Svarfaðardal. Sextán ára menntaskólanemi en syngur á við þrautreynda og þjálfaða söngvara. Það er til dæmis ekki fyrir hvern sem er að feta í söngslóð Queen-söngvarans sáluga, Freddy Mercury, en Viðja fór með Somebody to love eins og að drekka vatn í söngvakeppni framhaldsskólanna 2015. Hún keppti fyrir hönd Menntaskólans að Laugarvatni, þar sem hún er á öðru ári. Með henni söng bróðir hennar, Aron. Hann er á útskriftarári í sama skóla.
Gamlir Queen-geggjarar fá tár í augun af minna tilefni en að heyra þennan flutning Laugvetninga!
Æfir með Unnsteini, vinnur á Loka
Viðja gat sem sagt valið um að vera í liði með Unnsteini Manúel, Svölu Björgvins, Helga Björns og sveitunga sínum Sölku Sól. Margt ungmennið hefði verið með verkjum valkvíða að standa frammi fyrir slíkum kostum en hún valdi snöggt þann fyrstnefnda og verður liðsmaður hans í útsláttarkeppni sem stendur þar til 16 þátttakendur eru eftir. Söngvararnir í þeim hópi keppa til úrslita á sjónvarpi Símans í janúar og verði Viðja ekki með þá mega keppinautar hennar vera góðir, reyndar ævintýralega góðir!
Heyrið hvernig stelpan stóð sig í fyrsta þættinum. Svala og Unnsteinn féllu fyrir henni strax á fyrstu tónunum, Helgi Björns fljótlega þar á eftir og síðan Salka Sól.
Um þessar mundir æfir Guðbjörg Viðja reglulega í hópi Unnsteins og býr sig undir átökin og keppnina framundan. Hún fer þá til Reykjavíkur og vinnur jafnframt sumar helgar á veitingahúsinu Loka á Skólavörðuholti, hjá Hrönn Vilhelmsdóttur og Þórólfi Antonssyni, frænda sínum. Guðbjörg, amma Viðju, er elsta systir Þórólfs veitingamanns á Loka. Þau eru börn Laugu og Tona í fiskbúðinni á Dalvík, Sigurlaugar Ásgerðar Sveinsdóttur og Antons Guðlaugssonar.
Systkin á bólakafi í tónlist
Foreldrar Viðju lifa og hrærast í hestamennsku og hrossum (ræktun, tamningar, reiðkennsla). Þau störfuðu á heimaslóðum í Svarfaðardal á uppvaxtarárum hennar og Anton, faðir hennar var reiðkennari í Hólaskóla í Hjaltadal. Síðan fluttu þau suður á land og Anton gerðist yfirþjálfari á hrossaræktarbúinu Feti í Rangárvallasýslu.
Nú eru Anton og Inga María sem sagt komin aftur heim í Syðra-Holt og dóttir þeirra, Dana Ýr, sömuleiðis. Sú er elst alsystkinanna þriggja og er kafi í tónlist eins og þau. Elst er hálfsystirin Sirrý Sif og hún syngur. Músík og aftur músík hvert sem litið er í þessum hópi!

Viðja færir Þórólfi frænda kaffi á Loka, veitingahúsinu frábæra á Skólavörðuholfi.
Guðbjörg Viðja lærði söng hjá Eyrúnu Jónasdóttur í Kálfholti, tónlistarkennara í Laugalandsskóla í Holtum í Rangárvallasýslu, og segir að Eyrún sé „hinn fullkomni söngkennari“. Eyrún stjórnar núna sjötíu manna kór Menntaskólans á Laugarvatni, líklega fjölmennasta kór sem nokkur framhaldsskóli á Íslandi státar af. Í kórnum eru svarfdælsku systkinin bæði, Viðja og Aron.
Viðja er annars með ólíkindum hæfileikarík á fleiri sviðum en söng og hefur komið víða við. Lítið á þetta:
- Nám í píanóleik fyrir sunnan og norðan.
- Spilar á gítar („sjálflærð en ekki sérlega góð“ – að eigin sögn!).
- Nám í harmóníkuleik fyrir norðan og sunnan. Hún á harmóníku en spilar ekki mikið á hana – „krakkarnir á heimavistinni á Laugarvatni fíla ekki harmóníkutónlist!“
- Klassískt suzukinám á fiðlu – segist ekki hafa haldið fiðluspilinu við.
- Reiðmennska – kemur ekki á óvart! Keppti á hryssunni Aþenu frá Feti, m.a. í barnaflokki á landsmótinu í Kópavogi 2012. Liðsmaður í hestamannafélaginu Hring í Svarfaðardal.
- Æfði sund á Dalvík.
- Æfði sjálfsvarnaríþróttina taekvando fyrir sunnan.
- Æfði glímu í Laugalandsskóla.
- Æfði og keppti í frjálsum íþróttum á Suðurlandi.
Af nógu að taka en söngur heillar mest
„Ég hef æft söng frá því í sjöunda bekk og fæ útrás við að syngja. Ólýsanleg tilfinning. Ég hlusta á alls kyns tónlist og á mér uppáhaldssöngkonu sem ég hef að sumu leyti sem fyrirmynd. Jillian Rose Banks er bandarísk, fædd í Kaliforníu, ekki mjög þekkt en mjög góð!“
Fyrsta vetur Viðju að Laugarvatni vann hún með námi við tamningu og þjálfun hrossa í Bræðratungu í Biskupstungum, þeim sögufræga stað. Núna gefst ekki nokkur tími fyrir hrossastúss, söngurinn gengur fyrir og gleymum heldur ekki náminu … Hún átti góðhestinn Kappa heima í Syðra-Holti en seldi hann núna í október til að borga fyrir bílpróf í desember, uppihald á Laugarvatni og ferðir í tengslum við söng og vinnu í Reykjavík. Söluverð hestsins er trúnaðarmál en ef að líkum lætur hefur hann farið á yfirprís. Hljóta ekki foreldrahjörtu nyrðra að slá í takt við sveiflu dótturinnar syðra upp á stjörnuhimin söngsins? Slíkt hlýtur að tosa upp verð í hrossakaupum.
Aron bróðir stoð og stytta
„Keppnin Voice Iceland er mikið ævintýri. Ég fæ mikla þjálfun, reynslu og tækifæri til að kynna mig. Það byrjaði talsverður hasar á samfélagsmiðlum strax eftir fyrsta þáttinn og ég fékk helling af vinabeiðnum á Fésbók!
Aron bróðir styður mig og hvetur. Hann er mjög góður í tónlist, spilar á gítar og trommur og semur helling af lögum. Bæði hann og Dana systir eru reyndar miklu betri en ég að semja – enn sem komið er! Ég væri tæplega komin svona langt án hjálpar og stuðnings Antons. Mér þykir rosalega vænt um allt sem hann gerir fyrir mig.“
Ekki amalegt að eiga svona ömmubörn!