Mörg litrík og sterk lýsingarorð féllu í ummælum gesta á tveimur sýningum á Brotinu á Ólafsfirði, laugardaginn 24. september 2016. Flestir gestir í félagsheimilinu Tjarnarborg voru heimafólk en þarna voru líka Siglfirðingar, Dalvíkingar, Svarfdælingar, Akureyringar og meira að segja voru dæmi um að Húsvíkingar gerðu sér ferð alla leið til Ólafsfjarðar til að horfa á heimildarmyndina um sjóslysin miklu við Norðurland í dymbilvikunni 1963.
Heimildarmyndin Brotið var frumsýnd á Dalvík í Fiskidagsvikunni í sumar og sýnd alls sjö sinnum. Aukasýningum var bætt við þegar á hólminn var komið. Brotið mælir með sér sjálft, orðsporið er jafnan besta kynningin/auglýsingin.
Dalvík var sem sagt fyrst í sýningarröðinni, þá Ólafsfjörður og höfuðborgarsvæðið næst í október (Bíó Paradís í Reykjavík). Aðstandendur Brotsins hafa í nógu að snúast; Haukur Sigvaldason, María Jónsdóttir og Stefán Loftsson.
„Þetta var ekki skemmtiefni á laugardagskvöldi en áhrifamikið og innihaldsríkt. Ekki hefði ég viljað missa af því að sjá myndina,“ sagði einn gestanna í Tjarnarborg að sýningu lokinni. Ummælin voru dæmigerð og reyndar dæmigerð líka fyrir umsagnir fjölda fólks sem mætti í Ungó á Dalvík í ágúst.

Sylvía Ósk, Orri Snær, Ottó Freyr og Bessi Mar.
Sylvía Ósk Ómarsdóttir og Ottó Freyr Ottósson komu á sýninguna í Tjarnarborg frá Ingvörum í Svarfaðardal með synina Bessa Mar og Orra Snæ. Ottó Freyr missti afa sinn, Jóhann Helgason, skipverja á Hafþóri frá Dalvík, í slysinu sem um er fjallað í Brotinu:
Frábær mynd. Merkilegt að hlusta á lýsingar þeirra sem komust af og frásagnir barna þeirra sem fórust. Myndin af atburðinum skýrðist verulega, ekki síst aðdragandinn þegar óveðrið skall á eins og hendi væri veifað.

Þórir Jónsson á skrafi við Láru Stefánsdóttur, skólameistara Menntaskólans á Tröllaskaga.
Þórir Jónsson, kennari á Ólafsfirði, sagði að sýningu lokinni:
Ég er eiginlega orðlaus. Sýningin var ofboðslega sterk upplifun og sérstaklega vel heppnað að nota ekki þul til að halda söguþræðinum heldur láta viðmælendur og atburðarásina sjálfa um það. Afar áhrifamikið að horfa á myndina og kynnast hörmungum annars vegar og kraftaverkasögum hins vegar í frásögnum þeirra sem upplifðu þennan skelfingaratburð. Virkilega gott verk.

Rögnvaldur Brynjar og Rögnvaldur afi.
Nafnarnir Rögnvaldur Brynjar Rúnarsson, 15 ára Ólafsfirðingur, og afi hans, Rögnvaldur Ingólfsson, húsvörður, bílstjóri og allsherjarreddari í Hornbrekku, heimili aldraðra á Ólafsfirði, voru ánægðir með Brotið. Rögnvaldur yngri kvaðst ekkert hafa vitað um sjóslysin 1963 fyrir sýningu en eftir sýninguna er hann öllu upplýstari: „Ég fór fljótlega að sjá þetta allt fyrir mér eftir að sýningin byrjaði. Mjög góð mynd.“

Hörður ók frá Húsavík á bíó á Ólafsfirði!
Hörður Sigurbjarnarson, skipstjóri og gæðastjóri Norðursiglingar á Húsavík, fór um langan veg í bíó og varð ekki fyrir vonbrigðum:
Afar góð mynd og merkilegt framtak. Ég hef oft undrast hve drukknuðum sjómönnum á Íslandsmiðum hefur verið sýndur lítill sómi um dagana miðað við það sem ég sé víða erlendis. Ekki síst þess vegna finnst mér mikið fagnaðarefni að aðstandendur Brotsins hafi ráðist í þetta verkefni.
Ég man vel eftir páskahretinu 1963, ellefu ára strákur á Húsavík. Pabbi var á sjó en var blessunarlega í hópi þeirra sem komust heilir til lands.
Fyrsti hvalaskoðunarbátur okkar hjá Norðursiglingu, Knörrinn, tengir mig líka óbeint við óveðrið. Hann var þá nýsmíðaður og hét Auðunn. Þegar óveðrið brast á var Auðunn norðaustur af Melrakkasléttu á leið austur fyrir Langanes með fimm um borð. Áhöfnin komst heil af húfi til hafnar. Knörrinn, áður Auðinn, hefur alla tíð verið mikil happafleyta.

Dómsorð við þetta borð: „Æðislegt, vel gert, athyglisvert. Sérstaklega merkilegar lýsingar á óveðrinu. Mörg ólík sjónarhorn fólks á landi og sjó fléttuð vel saman. Meistarastykki!“

Óli Þór Ástvaldsson, viðskiptastjóri VÍS á Akureyri og á sínum tíma framkvæmdastjóri Vélbátatryggingar Eyjafjarðar um árabil: „Alveg mögnuð mynd og frábærlega gerð.“ Eiginkonan, Guðfinna Nývarðsdóttir, er Ólafsfirðingur og mætti í bíó á æskuslóðirnar.