Sveitapilturinn og sjávarplássið

Tilvitnun

IMG_6168

Ávarp sem Jón Baldvin Halldórsson flutti við súpukvöldsmessu í Dalvíkurkirkju 5. ágúst 2016.

Ítrekað hefur verið skorað á Sýslið að birta tölu Jarðbrúardrengs og auðvitað skorað það ekki undan því!

Forseti Íslands, forsetafrú, kæru sveitungar og gestir!

Hrólfsskersvitinn í miðjum Eyjafirði sést út um eldhúsgluggann á æskuheimili mínu á Jarðbrú. Það glittir í sjóinn – ekki mikið en svolítið og það skipti mömmu máli. Þótt svarfdælsk sé í báðar ættir ólst hún upp við sjávarsíðuna í Ólafsfirði. Hún hefur oft talað um hvað það skipti sig miklu að sjá í sjóinn frá heimili sínu, þótt ekki nema í örlitlu sé. Kannski hefur þetta haft meiri áhrif á okkur hin í fjölskyldunni en við gerum okkur grein fyrir. Sjórinn hefur alltaf togað í mig. Mér hefur til dæmis aldrei fundist ég vera búinn að skoða sjávarpláss fyrr en hafa farið að höfninni. Og alltaf hefur Dalvíkurhöfn átt sérstakan stað í huga og hjarta sveitapiltsins. Það sást ekki úr eldhúsglugganum þegar smærri bátar og skip sigldu inn og út úr höfninni en möstur stóru skipanna náðu yfir Hrísahöfðann og kveiktu hugrenningar um hverjir væru þar á ferð og í hvaða erindagjörðum. Þótt fjósið væri næst því sem gat að líta úr eldhúsglugganum, og lífið í því væri samofið okkar lífi, þá skiptu skipaferðirnar okkur líka miklu máli ásamt lífinu á Dalvík og við höfnina þar.

Eðli málsins samkvæmt stóðu landbúnaðarstörfin sveitapiltinum ávallt nær en störf við sjávarsíðuna. En alltaf voru tengslin við sjóinn mikil og við fólkið í sjávarplássinu. Það hefur reyndar löngum verið svo í Svarfaðardal því sagan kennir okkur að margir bændur í dalnum sóttu sjóinn stíft fyrr á tíð meðfram búskapnum. Þeir voru útgerðarbændur í orðsins fyllstu merkingu. Við vorum það samt ekki, tengsl okkar við lífið í sjávarplássinu voru með öðrum hætti.

Marsvínadrápið 1959

Ein mín fyrsta minning af sjónum við Dalvík og höfninni var af atburði þar árið 1959. Alveg þangað til um síðustu jól hef ég reyndar burðast með það að þessi minning væri aðeins tilbúinn gjörningur í kolli mínum. Ég hef varla þorað að leita mér heimilda til þess að verða ekki fyrir vonbrigðum. Allt væri þetta kannski hugarburður. En svo sá ég síðastliðinn vetur kvikmyndarbrot stórsöngvarans okkar heitins, Jóhanns Daníelssonar, af marsvínagöngunni á Dalvík í nóvember 1959 og viti menn, þetta hafði þá gerst! Jóhann átti litla kvikmyndatökuvél og til eru ómetanlegar heimildir á kvikmyndabútum hans úr Svarfaðardal, frá Dalvík, Akureyri, Reykjavík og víðar. Efni sem hefur ekki verið birt ennþá en mun vekja mikla athygli þegar það verður gert.

Ég var 4 ára að aldri og fyrir mér eru enn ljóslifandi spriklandi marsvínin og blóði drifinn sjórinn, smábátar innan um þá, trukkar og ýtur uppi á landi og hvarvetna menn í miklum ham með hnífa á lofti. Bjarmi hafði rekist á marsvínatorfu í Eyjafjarðarálnum. Það tókst að reka hana til Dalvíkur og þarna réðu menn niðurlögum 340 dýra. Kjötið var hraðfryst til útflutnings í skepnufóður og spikið brætt. Gott ef eitthvað af fénu sem fékkst fyrir marsvínin fór ekki einmitt í kirkjubygginguna hérna. Dalvíkurkirkja var vígð 1960. Svo þessi marsvínaganga hlýtur að hafa verið Guði þóknanleg!

Selspik með grænni slikju

Ekki minnist ég þess að inn fyrir mínar varir hafi nokkuð komið af marsvínunum, veit heldur ekki hvort eitthvað af þeim fór til manneldis, en hvalir voru samt ríkur þáttur í matseldinni á Jarðbrú í uppvextinum. Oft var hrefna skorin á Dalvík, sem annað hvort olíubíllinn eða verkstæðistrukkurinn drógu á land, og þá fórum við og sóttum okkur í matinn. Ég veit ekki hvað fólk meinar þegar það kvartar yfir lýsisbragði af hvalkjöti. Man ekki eftir að það hafi plagað okkur þá. Kannski hefur mamma kunnað einhver ráð til að losna við lýsisbragð en mér fannst hrefnukjötið pönnusteikta í brauðmylsnunni hið ágætasta og hafði ekkert á móti því að það væri oft í matinn. Stundum fengum við hrefnuspik til að hafa með signa fiskinum. Það var líka gott og sama gilti um selspikið, ef það var frekar í boði. Mamma þekkti frá Ólafsfirði að selspikið yrði að vera komið með græna slikju að utan, þá fyrst væri það verulega gott.

Skiptibissness með búvörur og fisk

Ekki man ég eftir hvernig innkaupum Jarðbrúarfólks á hvalkjöti var háttað. Þó þykir mér ekki sennilegt að þau hafi mikið farið fram í gegnum hefðbundna verslun. Fiskbúðin hjá Tona var að vísu fastur viðkomustaður í bæjarferðum til Dalvíkur og þar var spriklandi nýjan fisk að fá. En verslun okkar með fiskafurðir og sjávarfang var að miklum mun umfangsmeiri sem vöru- eða þjónustuskipti. Við fengum fisk en slógum og heyjuðum í staðinn tún dalvískra færakarla og annarra sjósóknara sem jafnframt voru smábændur eða gaukuðum að þeim afurðum landbúnaðarframleiðslunnar. Og faðir minn, dýralæknirinn, kom til hjálpar ef eitthvað amaði að kindunum þeirra. Þarna tvinnaðist því saman búskapurinn og sjávarútvegurinn sem ekki aðeins skilaði sér í gjöfulum viðskiptum fyrir báða heldur líka mikilvægum félagstengslum og heimsóknum þar sem sveitapilturinn naut jafnan góðra veitinga meðan fullorðna fólkið spjallaði og átti í vöruskiptum. Þær voru til dæmis margar og ánægjulegar heimsóknirnar til Árna Lár í Karlsbrautinni í þessum erindagjörðum. Árni kunni til verka og signi fiskurinn frá honum var góður. Seinna urðum við sjálf nokkuð liðtæk í því að láta signa með því að hengja upp við súgþurrkunarblásarann í fjóshlöðuskúrnum á Jarðbrú. Þar fékk fiskurinn frið fyrir flugunni.

Síld fyrir dýr og fólk

Ég náði í skottið á síldarævintýrinu og minnist hamagangsins á plönunum þótt hvergi kæmi þar nærri nema til að horfa á, undrast og dást að. Þarna áttu samt sveitin og sjávarplássið samleið og sveitapilturinn fékk hlutverk í ævintýrinu. Við fórum á haustin til Dalvíkur með heyvagn og sóttum þangað tunnur fullar af síld sem uppfyllti ekki kröfur til útflutnings en var nógu góð ofan í kindurnar. Ungviðið fékk að vera á vagninum á heimleiðinni og sýslaði við að eta upp úr tunnum því þetta var jú ágætis kryddsíld. Sumar síldarnar náðu aldrei fram í Jarðbrú vegna þess að bræður dunduðu sér við að henda þeim á brúsapalla á leiðinni, svona þegar faðirinn á dráttarvélinni sá ekki til! Síldartunnunum var svo raðað upp norðan við fjóshlöðuna og í þær var þessi eðalfæða sótt yfir veturinn. Síldinni var dreift í garðann, ærnar átu með bestu lyst og oft líka sá sem var að gefa þeim.

Íslands hrafnistumenn klingir enn …

Hátíðir Dalvíkinga voru hátíðir okkar í sveitinni líka, til dæmis 17. júní og sjómannadagurinn. Við fórum niðri´á Dalvík til lyfta okkur upp frá vafstrinu í sveitinni og gleðjast með frændfólki okkar og vinum þar. Það var alltaf mikið um að vera á sjómannadaginn. Þá var sjávarplássið í essinu sínu. Ég minnist líka margra heimsókna á bryggjuna á Dalvík þegar verið var að taka á móti nýjum bátum og skipum. Við mættum framan úr sveit og fögnuðum með. „Íslands hrafnistumenn“, sem Karlakór Dalvíkur söng á bryggjunni, klingja enn í höfðinu á mér eftir öll þessi ár!

Sveitapilturinn fagnaði þannig með bæjarbúanum í sjávarplássinu þegar hafið var gjöfult og teknir voru stórir áfangar í uppbyggingu til þess að styrkja sjósókn og vinnslu eða bara til að lyfta sér upp. Á sama hátt syrgði sveitin öll með sjávarplássinu þegar hafið hrifsaði frá okkur vini eða frændfólk. Við vorum jú öll ein stór fjölskylda. Nú er minnst með miklum sóma sjóslysanna hræðilegu í apríl 1963. Þá var höggvið stórt skarð í svarfdælska byggð við sjó og í sveit. Náið frændfólk okkar missti úr fjölskyldu sinni kæran eiginmann og föður. Það kom illa við okkur. Árni Steinar var frændi á svipuðum aldri og góður vinur, nú í einni svipan föðurlaus með systkinum sínum og einstæðri móður. Sveitapilturinn man vel þegar af sjóslysunum bárust fréttir og hversu sárt það var að takast á við þau grimmu örlög að svo margir sjómenn hefðu látið lífið í óveðrinu sem skyndilega skall á. Í heimildamyndinni um sjóslysin sem á að kynna núna á Fiskideginum mikla eru einmitt notuð kvikmyndarbrot frá áðurnefndum Jóa Dan.

Rauðmagaleikur í snjóskafli

Það var alltaf nokkur tilhlökkun hjá sveitapiltinum þegar leið á veturinn að trillukarlanir á Dalvík færu að koma með rauðmagann að landi. Þá var skrifaður mikilvægur kapítuli í vöruskiptabókina. Við fengum rauðmaga og svo auðvitað grásleppuna líka. Hinn besti matur hvort tveggja en rauðmaginn hafði þó sérstöðu í því að það var hægt að gera hann að hálfgerðu leikfangi. Við fengum oft mun fleiri rauðmaga í einu en hægt var að torga og ekki var hægt að hafa hann í matinn dag eftir dag. Það var einum um of. Þá var ekki annað ráð en að finna honum góða kælingu en enginn var kælibúnaðurinn nógu stór til þess í þá daga. Ráðið var að grafa rauðmagann í fönn. Við reyndum að setja á okkur af bærilegri nákvæmni hvar rauðmaginn var grafinn en svo áttu til að skella á stórhríðar og þá breyttist fljótt landslagið í snjónum. Þegar kom að því að mamma tæki ákvörðun um rauðmaga í matinn var það hlutverk okkar bræðra að hefja leit í snjónum. Þá var betra að hafa staðsetninguna nokkuð á hreinu til að hitta á rauðmagann og að hafa sett á sig hvað væri búið taka marga og hversu margir væru þar með eftir. Yfirleitt var rauðmagaleitin í stóra skaflinum efst á bæjarhlaðinu okkur engin áþján, miklu fremur hin besta skemmtan og leikur.

Stórlúður hurfu við uppskipun

Sveitapilturinn óx úr grasi og sambandið við sjávarplássið breyttist, varð jafnvel enn meira en áður. Ég komst í löndunargengið og uppskipun og útskipun. Sveitapilturinn varð hafnarverkamaður á Dalvík og þannig samverkamaður hinna merkustu manna; Nonna Hjörleifs, Palla á Ufsum, Stjána, Stebba Stef og Árna Lár svo nokkrir séu nefndir en allir þessir eru horfnir yfir móðuna miklu. Þetta var fyrsti háskóli sveitapiltsins og hann bauð örugglega upp á engu lakari kennslu en þær háskólastofnanir sem síðar voru sóttar. Þvílíkt val harðduglegra jaxla sem töldu ekki eftir sér að púla heilu og hálfu næturnar ofan í lest þótt sumir væru komnir á efri ár. Þeir kunnu að stúa, þessir karlar! Þeim hefur sjálfsagt í fyrstu þótt lítil hjálp í sveitapiltinum en hann var tuktaður til í fræðum hafnarvinnunnar og um leið kennd talsvert óheflaðri íslenska en var töluð frammi í sveit. Allt var þarna í akkorði sem skilaði sveitapiltinum góðum vasapeningi. En ekki bara það því nú var sveitapilturinn ekki lengur aðeins þiggjandi við matarborðið á Jarðbrú. Það var enginn maður með mönnum í lönduninni nema stinga undan girnilegum fiski í soðið. Einstaka sinnum fannst stórlúða í lestinni og einhverra hluta vegna hvarf hún alltaf og lenti utan vigtar! Annars heillaði ýsan löndunarkarlana mest og sveitapilturinn lærði fljótt að enginn með fullu viti tæki með sér heim þorsk í soðið. Það er ekki fyrr en nú á síðari árum sem ég hef getað viðurkennt þorskinn að fullu sem gæðamat.

Alltaf lýsir vitinn á Hrólfsskeri

Svona hefur nú sambýli sveitapiltsins og sjávarplássins birst í ýmsum myndum og samskiptin alltaf verið mikil og gefandi. Þau hafa í sjálfu sér aldrei rofnað þótt vissulega hafi fjarlægð ráðið miklu um að úr þeim hefur dregið. En alltaf lýsir Hrólfsskersviti utan við sálargluggann hjá manni, skipin sigla í huganum inn og út úr Dalvíkurhöfn, fiski er landað og fiskur er lestaður, frænd- og vinafólk í sjávarplássinu heldur áfram að eiga í sveitapiltinum hvert bein.

Enn er mætt og fagnað þegar mikið stendur til á Dalvík. Fiskidagurinn mikli er jú bæði fyrir sveitapiltinn og sjávarplássið.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s