
Gestgjafi að Skógarhólum 32, Guðmundur Kristjánsson, bætir í súpumál forsetahjónanna.
Húsráðandi leit sem snöggvast á baukinn og hugsaði sýnilega: „Ætli Heineken hafi pumpað ofskynjunarmixtúru í dolluna í stað öls?“
Svo leit hann út aftur og sá ekki annað eftir á lóðinni sinni en glottandi mannapa með myndavél, hristi höfuð og hvarf.
Súpukvöldið mikla á 2016. Forseti og fylgdarlið stytta sér leið og lámast um bakgarða milli áfangastaða.
Ferðalagið hófst raunar í Fiskidagsvikunni með símtali frá Morgunblaðinu í Reykjavík til miðstjórnar Svarfdælasýsls: Væri mögulegt að fá nokkrar myndir frá súpukvöldinu og Fiskideginum mikla á Dalvík til birtingar á fréttavefnum mbl.is?
Sjálfsagt mál. Sameiginlegur skilningur jafnframt að forsetahjónin myndu koma talsvert við sögu sem myndefni og fyrirsætur, enda heiðursgestir Fiskidagsins.
Ljótur hálfviti í skærgulri prestsskyrtu
Messan var hin ágætasta samkoma og raunar mikil skemmtun. Blítt og létt hópurinn úr Vestmannaeyjum spilaði og söng, Eyjatónlist var í fyrirrúmi og átti vel við. Arnfinnur harmóníkuleikari Friðriksson vakti sérstaka athygli heimamanna í kirkjunni, alla vega þeirra sem komnir eru á virðulegan aldur. Hann er bróðursonur Finns í Laxamýri á Dalvík, bjó í Laxamýri forðum, er nauðalíkur Finni frænda í útliti og alltaf kallaður Finnur í Eyjum.
Jón Baldvin frá Jarðbrú flutti skemmtilega tölu um samband sveitapiltsins forðum við Dalvík og Dalvíkinga.
Presturinn, sem stýrði athöfninni með hátíðlegum léttleika, vakti sérstaka athygli aðkomufólks og varð umræðuefni á tjaldstæðinu um kvöldið: Oddur Bjarni Þorkelsson.
„Ljótur hálfviti verður prestur á Dalvík“, sagði visir.is í júlí 2014 í fyrirsögn fréttar í tilefni af því að biskup skipaði Odd Bjarna í embættið. Það var rétt svo langt sem náði. Maðurinn er fjarri því að vera ljótur og hálfviti er hann alls ekki. Hann er hins vegar í hljómsveitinni Ljótu hálfvitarnir.
Prestur klæddist skærgulri prestsskyrtu, flík sem er einstæð í hinni íslensku þjóðkirkju en færi öðrum þjónum hennar örugglega vel líka.
Séra Oddur Bjarni fékk skyrtuna sína frá Írlandi og á tjaldstæðinu var almannarómur að þennan prest væri gott að hafa í öðrum prófastsdæmum. Þá var bent á að prestur Dalvíkinga væri ekki falur, ekki frekar en Gylfi hjá Swansea.
Tveggja herra þjónn
Á kaupfélagstúninu safnaðist saman mannfjöldi mikill, spenna í loftinu sem leystist úr læðingi þegar heiðursgesturinn var kynntur til sögunnar. Heimsókn forsetahjónanna hafði verið beinn hvati margra til að koma til Dalvíkur og viðbrögð fólksins í brekkunni voru afar sterk, einlæg og gæsahúðarskapandi. Guðni Th. og Eliza eru geysivinsæl. Það margsannaðist á Dalvík.
Með forsetahjónunum voru í för Örnólfur Thorsson forsetaritari og Friðbjörn Beck Möller Baldursson, umsjónarmaður á Bessastöðum (sjá umfjöllun um þann síðarnefnda á Sýslinu í janúar 2015). Örnólfur hnippti í Sýslara og spurði hvort forsetaembættið fengi ekki myndir til að nota á embættisvefnum, forseti.is. Sjálfsagt mál.
Nú var Sýslið skyndilega komið með sama verkefnið þrískipt; fyrir sjálft sig, fyrir Morgunblaðið og fyrir forsetaembættið. Sagt á annan hátt: Sýslið þjónaði nú tveimur herrum samtímis, Davíð og Guðna Th. Ég var orðinn eltihrellir fræga fólksins með myndavél að vopni; svarfdælskur paparazzi.
Hver hefði nú trúað því að slíkt væri mögulegt en það tókst bærilega, takk fyrir. Alla vega hafa engar kvartanir borist, hvorki frá ritstjóra Moggans né forseta lýðveldisins.
Helsta áhyggjuefnið var að Andri Snær og Halla myndu hringja líka og biðja um Fiskidagsmyndir. Þá hefði vandast málið umtalsvert. Hægt er með lagni og svarfdælskri samningalipurð að þjóna tveimur herrum en ekki þremur herrum plús einni frú. Meira að segja Svarfdælingar verða mát af minna tilefni.
Drónadæmið

Sjónvarpsstöðin góða N4 mætt. Hildur Jana Gísladóttir með forsetann í viðtali.
Sjónvarpsstöðin N4 og RÚV fengu forsetann í viðtal að lokinni athöfn neðan við kirkjuna, síðarnefnda stöðin beint í sjónvarpsfréttir.
Bið í tuttugu mínútur undir vegg heilsugæslustöðvarinnar. Á meðan þaut dróni yfir okkur, ekki einu sinni heldur tvisvar. Í fyrra skiptið í lágflugi. Það var í meira lagi óþægileg tilfinning og mikið umhugsunarefni að svona nokkuð eigi sér stað.
Hvað myndi gerast í útlandinu ef dróni þyti yfir höfðum þjóðarleiðtoga við skyldustörf utan dyra? Kvikindið væri snarlega skotið niður og stýrimennirnir hnepptir í varðhald. Alla vega í henni Ameríku.
Hér virðist flest leyfilegt með dróna og þarf líklega stórslys til svo kerfið rumski.
Í lögguleik í húsagörðum
Á Dalvík var blankalogn og hlýtt þennan föstudag, sem var Þorláksmessa Fiskidagsins: Súpukvöldið mikla. Forsetahjónin og fylgdarlið fengu hressingu og hvíld í um klukkustund heima hjá sveitarstjóranum eftir messu og mjaltir en fyrir súpurölt. Dýrindis bleikja á borðum og unaðslegar súpur. Jakob Helgi Bjarnason, yngsta barn húsráðenda og einn þriggja bestu 14 ára skíðamanna heims 2010, veiddi fiskinn í landi Lambaness í Fljótum daginn áður og matbjó af mikilli list með tilheyrandi sósum. Notaleg heimsókn.
Bjarni sveitarstjóri hafði valið nokkra súpustaði til að fara á, innan og utan dyra, í görðum og á götum. Svo margt fólk var saman komið víðast hvar á götum að erfitt var að komast þar um, einkum og sér í lagi fyrir vinsælan forseta sem ótrúlega margir vildu heilsa, faðma, spjalla við eða láta taka af sér myndir með.
Myndatökur og sjálfur (e. selfie) í Dalvíkurheimsókninni allri skiptu örugglega mörgum tugum. Alltaf sögðu Guðni og Eliza já og sátu fyrir með börnum, gamalmennum og öllum aldursflokkum þar á milli.
Þetta reyndi talsvert á taugar skipuleggjenda og fararstjóra í þéttskipaðri dagskrá! Það er hins vegar ekki forsetahjónanna sjálfra að taka af skarið þegar stefnir í að tímaáætlanir riðlist, heldur fylgdarmanna.
Þegar ljóst var að hersingin kæmist ekki tímanlega milli súpupotta Dalvíkur eftir hefðbundnum leiðum eingöngu kaus sveitarstjórinn að fara óhefðbundnar leiðir. Þær voru meira að segja á köflum framandi manni sem taldi sig áður þekkja býsna vel til á Dalvík.
Við skálmuðum milli húsa um baklóðir, stikuðum yfir blómabeð og grænfóðursreiti, skáskutum okkur gegnum skarð í birkirunna, fórum inn um þvottahúsdyr á einum stað, skutumst þar gegnum hús og garð og áfram út í gegnum bílskúrinn.
Þetta var orðinn spennandi lögguleikur. Að vísu vantaði bæði löggur og bófa í hlutverkasafnið til að leikurinn yrði meira alvöru.
Við röltum innan um tjöld og fellihýsi efst í bænum. Þar var mannlaust, allir úti í bæ að fá sér súpu. Fram undan blasti við lágreist girðing, brött brekka og malarstígur niður. „Bjarni, við erum á hælum, konurnar,“ heyrðist þá Iðunn sveitarstjórafrú kalla (ögn örvæntingarfull) til sveitarstjórans, bónda síns, í framlínunni.
Hvað hefði leyniþjónusta Bandaríkjanna sagt og gert ef Obamahjónin hefðu stytt sér leið gegnum kálgarða og tjaldstæði á Fiskideginum mikla í Seattle?
Senuþjófur í Ásvegi
Gagnkvæmt ástarsamband myndaðist í súpufjörinu. Forsetahjónin voru afskaplega hrifin og ánægð með gestgjafana á Dalvík, gesti Fiskidagsins og allt það sem þau sáu og upplifðu. Dalvíkingar og gestir þeirra voru afskaplega ánægð með þau.
Satt að segja ríkti þarna óvenjulega magnað andrúmsloft. Stemningunni verður ekki lýst. Hún var nokkuð sem verður að upplifa til að skynja og skilja.
Myndirnar af Ásveginum eru táknrænar fyrir andrúmsloftið. Þegar við gengum niður götuna spratt skyndilega upp náungi í landsliðstreyju með gítar og tilkynnti forsetanum í tali og tónum að súpan hjá heima í garði væri því miður búin. Pottarnir tómir.
Þau röltu saman góða stund, forsetahjónin og senuþjófurinn skemmtilegi. Forsetinn tók meira að segja undir með götutrúbadornum á síðustu metrum samfylgdar. Það hefði Ólafur Ragnar pottþétt ekki gert en Dorrit hefði verið vís með að rífa af manninum gítarinn og spila sjálf. Þannig breytast tímar og forsetar með.
- Senuþjófurinn umtalaði er Elmar Sindri Eiríksson. Auðvitað fjallar Sýslið hér sérstaklega um manninn.
Skíðadalur heillaði
Forsetaheimsókninni lauk undir um hádegisbil á Fiskidaginn mikla. Forsetahjónin gistu á Klængshóli í Skíðadal, þessu mikla ferðaþjónustusetri þar sem var dráttarvél í hlaði í tíð Jónínu og Hermanns forðum en þyrilvængjur í tíð Önnu Dóru og Jökuls nú. Þannig breytast tímar og Skíðadalur með.
Guðni Th. hafði orð á því daginn eftir hve vel fjallaloftið hefði farið í hann. Hann og fylgdarliðið höfðu mörg orð um hve gott og notalegt hefði verið á Klængshóli.
Forsetahjónin komu á hafnarsvæðið korteri áður en dagskrá Fiskidagsins hófst og tóku sér góðan tíma til að rölta um, smakka á hinum og þessum réttum og ræða við fólk. Já, og stilla sér upp til myndatöku.

Á grindverki var mynd af Dorrit að mata kunnuglegan spýtukarl, smíðaðan á Dalvík á sínum tíma. Stutt stopp þar á súpuröltinu.
Ólafur Ragnar horfinn, Guðni Th. ókominn
Flaggskip Landhelgisgæslunnar, Þór, var í höfn á Dalvík og kaðall strengdur fyrir landganginn.
Skipið átti að vera til sýnis almenningi á Fiskidaginn í fyrra og allt orðið klárt til sýningarhaldsins en þá kom útkall. Sagan segir að danska strandgæslan hafi misst skip frá Sea Sheperd samtökunum af radar hjá sér við Færeyjar og talið að þessi harðsnúnu hvalfriðunarsinnar stefndu fleyi sínu til Íslands. Engin áhætta tekin þar, þessi samtök sökktu hvalbátum í Reykjavíkurhöfn forðum og slíkt hyski á ekki að taka neinum vettlingatökum.
Þór lagði þegar af stað úr höfn á Dalvík en ekkert varð úr sjóorrustu við Sea Sheperd. Hvalfriðunarsinnarnir höfðu bara platað Danina.
Fiskidagsgestir fengu sem sagt ekki tækifæri til að skoða þetta glæsilega skip í fyrra en tækifærið kom í ár. Þúsundir manna notfærðu sér það. Fyrstu gestirnir voru reyndar forsetahjónin. Það var óvænt en ánægjuleg uppákoma.
Þorsteinn Már Aðalsteinsson, stjórnarformaður Fiskidagsins, var leiðsögumaður á hafnarsvæðinu. Honum datt í hug að fara með hina tignu gesti um borð í Þór og fór að gala af bryggjunni upp í brú skipsins. Borðalögðu mennirnir þar heyrðu hrópin og á stundinni var sendur maður niður til að taka á móti gestunum.
Á ýmsu áttu varðskipsmenn von á Dalvík en ekki því að fá sjálfan forseta Íslands í heimsókn. Hefð er víst fyrir því að forsetar heimsæki Landhelgisgæsluna formlega, enda hafa löngum verið sérstök tengsl milli forsetaembættisins og Gæslunnar. Á árum áður fóru forsetar oft milli staða með varðskipum og í þeim voru „forsetasvítur“. Í Þór er að finna vistarverur vel boðlegar þjóðhöfðingja en kallast ekki lengur forsetasvíta.
Guðni Th. hafði orð á að gaman væri að prófa að sigla síðar með Þór, til dæmis á Hrafnseyrarhátíð. Hann lætur ábyggilega verða af því.
Í brúnni var varpað fram þeirri spurningu hvenær von væri á opinberri mynd af forseta Íslands til að hengja upp í skipinu.
„Von bráðar,“ var svarað.
„Veggurinn er auður, við tókum Ólaf Ragnar niður um mánaðarmótin.“
„Þið eruð sem sagt forsetalausir? Úr því verður bætt!“
Góð stemning sem sagt í brú Þórs, góð stemning á súpukvöldinu, góð stemning á Fiskideginum mikla.
•
Guðni og Eliza hafa skorað grimmt fyrstu daga hans í embætti. Hann hefur á skömmum tíma gefið skilaboð og markað sér stefnu sem eftir er tekið.
Guðni kvaðst í kosningabaráttunni ætla að verða forseti fólksins. Það gat í hita leiksins þá allt eins talist vera innihaldslítill frasi.
Á Dalvík fékk yfirlýsingin hins vegar skýra merkingu. Hann var raunverulegur forseti fólksins sem fyllti götur, garða og hafnarsvæðið.
