Hver er maðurinn? var spurt þegar Morgunblaðið birti mynd að morgni Fiskidagsins mikla, 6. ágúst 2016, af forsetahjónunum í Ásvegi á Dalvík og með þeim trallandi gítarista í landsliðstreyju.
Fátt um svör þá en nú skal upplýst að þarna fór ekki neinn gítargutlari heldur alvöru músíkant og það svo mjög að síðasta lagið, sem Rúnar Júlíusson, sjálfur herra Rokk, hljóðritaði á ævinni, var einmitt eftir Elmar Sindra Eiríksson.
Elmar Sindri er kennari á Dalvík og býr að Ásvegi 12. Þegar Guðni Th., Eliza og föruneyti röltu niður götuna súpudagskvöldið mikla á dögunum greip Elmar Sindri gítarinn, slóst í för með forsetahjónunum góðan spöl og söng fyrir þau laglínu og texta sem varð til á stundinni og staðnum. Hann sagði Bessastaðabændum í tali og tónum að súpupotturinn hjá sér væri því miður galtómur. Gestir kunnu vel að meta óvænt dagskráratriði opinberrar heimsóknar forsetans til Dalvíkur. Á síðustu metrunum tók forseti meira að segja undir með þessum skemmtilega senuþjófi í Ásvegi.
„Við vorum með súpu í potti í garðinum heima og gáfum þeim sem hafa vildu. Súpan kláraðist því miður áður en forsetinn kom í Ásveg. Þegar ég sá til gestanna greip ég gítarinn og sagði þeim á minn hátt hver staðan væri: „Súp-súp-súpan er bú-bú-in …!“
Ég ætlaði að rifja þessa laglínu og textann upp nokkrum dögum síðar en gekk ekki vel. Stemninguna vantaði. Ég bíð með að prófa næst þar til rennur upp súpukvöld að ári. Þá kemur þetta hvort sem Guðni Th og Eliza verða nálægt mér eða ekki!“
Ég þrái að lifa
Elmar Sindri er Akureyringur, af haugnesku kyni að hálfu, og náði í betri helminginn sinn á Dalvík, Jónínu Björk. Sú er dóttir Hafdísar Sverrisdóttur og Stefáns Björnssonar, Stebba Björns hins eina og sanna, með öðrum orðum.
Þá er búið að tengja manninn og hægt að halda áfram. Hann spilar, syngur og semur lög og texta og hefur gefið út tvo diska með hljómsveit sinni, Best Fyrir:
- Lífið er aðeins … þessar stundir, kom út 2003.
- Á augnabliki … lokar þú augunum, kom út 2009.
Á síðari disknum er úrval gestaflytjenda í landsliðsflokki og skal fyrst telja sjálfan herra Rokk, Rúnar Júlíusson. Þarna eru líka Rúnar Þór Pétursson, Matthías Matthíasson, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Helgi Þórsson og Jónína Björk Stefánsdóttir.
Rúnar Júl. syngur lagið Ég þrái að lifa og það er í hæsta máta sögulegt. Lagið var hljóðritað í hljóðveri Gunnlaugs Helgasonar á Ólafsfirði sunnudaginn eftir Fiskidaginn mikla sumarið 2008 og er hið síðasta sem herra Rokk tók upp í hljóðveri áður en hann kvaddi, langt fyrir aldur fram. Hann lést eftir hjartaáfall 5. desember 2008, 63 ára gamall.
Þennan merkilega kveðjusöng Rúnars er sem sagt að finna á diski höfundar lags & ljóðs og félaga í Best Fyrir. Lagið var líka endurútgefið á fyrstu sólóplötu Rúnars Hvað dreymdi sveininn sem fjölskyldufyrirtækið hans, Geimsteinn, gaf út árið 2009. Það eru því sögulegir þræðir á milli Fiskidagsins mikla 2008 og 2016, milli herra Rokks og senuþjófs í Ásvegi. Það var ekki hver sem er sem tók óvænt lagið fyrir Bessastaðabændur.
Herra Rokk og vitrun við Ásveg
„Ég fékk vitrun heima hjá mér og sá Rúnari Júlíussyni bregða fyrir í dyragættinni heima hjá mér. Mér fannst þetta boða að Rúnar ætti að syngja ákveðið lag um mann sem er að kveðja og horfir um öxl. Ég skrifaði Rúnari virðulegt bréf og sendi honum lagið í júní 2008,“ segir Elmar Sindri.

Þrenning í hljóðveri í Ólafsfirði Fiskidagshelgina 2008. Gunnlaugur Helgason upptökustjóri og Rúnar Júl./herra Rokk að baki Elmari Sindra.
„Síðar sendi ég honum tölvupóst, af því ég þóttist vita að hann myndi fagna með okkur Fiskideginum mikla á Dalvík eins og venjulega. Hann svaraði því til að hann myndi hljóðrita lagið og að við skyldum hittast að morgni Fiskidagsins til að ráða ráðum okkar.
Ég mætti heldur seint og hugsaði: Ekki byrjar það vel hjá mér að láta sjálfan herra Rokk bíða eftir mér! Skemmst er frá að segja að daginn eftir fórum við til Ólafsfjarðar og Rúnar söng. Lagið var fullunnið síðar og er að finna hér.
Rúnar var ekki ánægður með titil lagsins hjá mér. Ég nefndi það Fjara út en hann vildi sækja titilinn í fyrstu laglínuna, sem hefur mun bjartari hljóm: Ég þrái að lifa. Auðvitað varð það niðurstaðan og eftir á að hyggja táknræn.
Þegar Rúnar hafði lokið við upptökuna kom hann út úr hljóðverinu og mælti: „Ég hef lokið keppni!“ Ég hélt að þetta væri bara einn af hans frösum en Júlli, sonur Rúnars, sagðist síðar ekki minnast þess að hafa heyrt rokkkónginn, föður sinn, taka svona til orða. Í ljósi þess sem síðar gerðist á sama ári var þetta býsna athyglisverð og margræð yfirlýsing. Fjölskylda Rúnars veit ekki til þess að hann hafi tekið neitt upp í hljóðveri eftir þetta. Ég þrái að lifa var svanasöngur herra Rokks.“
Málverkið á leiðinni þegar andlátsfregnin barst
„Aldrei fór neitt á milli okkar Rúnars um borgun fyrir þennan greiða við mig og mikinn heiður sem hann sýndi mér og hljómsveitinni. Hann sagði einfaldlega að sér hefði litist vel á lagið og viljað syngja það. Einfalt mál,“ segir Elmar Sindri Eiríksson.
„Mig langaði til að þakka fyrir mig og gefa honum málverk eftir systur mína, Steinunni Ástu Eiríksdóttur. Yfirskrift málverksins tók ég úr hinu rómaða lagi Rúnars Það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig. Mér þótti titillinn svo viðeigandi í ljósi þess sem Rúnar hafði þá gert fyrir mig og hljómsveit mína, með því að syngja fyrir okkur.“
Bónusvinningur lesenda Svarfdælasýsls nú er lagið Á augnabliki loka ég augunum eftir Elmar Sindra Eiríksson, samið um svipað leyti og Ég þrái að lifa, sem Rúnar Júl. söng og hljóðritaði.
Stórrokkarinn frá Dalvík, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, syngur. Hann var nítján ára þegar lagið var hljóðritað.
Upplýst skal nú að kveikjan að textanum var samtal höfundar við Einar Emilsson í Reykholti á Dalvík á kennarastofu Dalvíkurskóla. Emil barðist við krabbamein og lést ekki löngu eftir að samtalið átti sér stað. Elmar Sindri segir að þrátt fyrir að glíman við sjúkdóminn hafi verið töpuð á þessu augnabliki hafi Emil verið, þá sem áður, fullur af hnyttni, list og hlýju.
Sýslið heiðrar minningu Einars Emilssonar.