Tónleikar voru þetta vissulega en miklu nær því að vera veisluborð hlaðið kræsingum.
Viðtökurnar, maður minn. Hrifningin. Ábyggilega engin önnur dæmi um svo útbreidda gæsahúð meðal gesta í Tjarnarkirkju í Svarfaðardal frá því hún var vígð á hvítasunnu 1892.
„Tjarnarmafían í Tjarnarkirkju í kvöld“ var auglýst í Ríkisútvarpinu, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Sikileysku mafíunni er hugsanlega eitthvað til lista lagt en hún gæti aldrei mátað sig við Tjarnarliðið í söng, hljóðfæraslætti, tónsmíðum og ljóðagerð. Því fer víðs fjarri.
Tjarnarhjónin Kristjana Arngrímsdóttir og Kristján Hjartarson + börn þeirra Örn og Ösp Eldjárn fóru á kostum. Amalía, dóttir Arnar, lét heldur betur til sín taka líka í söngnum. Sú er aldeilis flott!
Efnisskráin var að miklu leyti frumsamin, flest lögin og mörg ljóðanna sömuleiðis.
Margt og mikið fallegt mætti segja um þá feðga, Kristján og Örn, og frammistöðu þeirra og framlag í kirkjunni. Mæðgurnar Kristjana og Ösp framleiddu hins vegar gæsahúð á færibandi, hvor um sig og sameiginlega.
Kristjana er ekki bara súpersöngkona heldur tónskáld líka og flutti frumsamin lög, hvert öðru betra.
Ösp hefur þetta allt saman og kynnti ótal frumsamin lög og ljóð. Ljóðagerðin hennar er kapítuli út af fyrir sig. Hún er stjarna. Ekkert minna.
Sýslari hefur í áranna rás sótt marga, marga tónleika fólks úr Tjarnarranni. Þessir voru í sérflokki, hrein upplifun. Synd að þeir voru ekki teknir upp í heild sinni í hljóði og mynd. Það var nefnilega galdur í loftinu í Tjarnarsókn, alla vega í sóknarkirkjunni sem sagt er að rúmi 60-70 manns þegar þétt er setið í jólamessum.
Í kvöld var bætt við aukastólum og troðið í bekki. Yfir 80 áheyrendur ljómuðu af lukku í sumarblíðunni að tónaveislu lokinni, í nýslegnum og vel hirtum kirkjugarðinum.
Þessi kvöldstund gleymist seint og helst aldrei.
Örstutt tóndæmi úr Tjarnakirkju, hluti lokalags og viðbrögð áheyrenda. Segir allt sem segja þarf um hrifningu gesta.
Ein athugasemd við “Tónaveisla í boði Tjarnarmafíunnar”