Jón Tryggvason á Dalvík lýsir því á áhrifamikinn hátt í heimildarmyndinni Brotinu þegar hann barðist fyrir því að koma áhöfninni og bátnum sínum, Muggi EA, heilu og höldnu til hafnar í mannskaðaveðrinu á Norðurlandi 9. apríl 1963. Það tókst.
Jón lést 14. mars 2016. Með honum á Muggi voru Jóhann Tryggvason, bróðir Jóns, og Sigurður Jónsson, betur þekktur sem Siggi á Sigurhæðum.
Á heimleiðinni lá segldúkspjatla ofan á stýrishúsi Muggs og á henni handfærarúlla með færeysku lagi, enda gjarnan kallaðar „Færeyingar“ í daglegu tali sjómanna. Í sviptingunum rann færarúllan ofan af stýrishúsinu og hvarf í hafið ásamt segldúknum. Jón vissi nokkurn veginn hvar báturinn var staddur á Eyjafirði þegar það gerðist.
Meira en hálfri öld síðar var Jón Tryggvason á vappi við Dalvíkurhöfn og tók meðal annars á móti Gulla Tona, Gunnlaugi Antonssyni – föður stórpopparans Eyþórs Inga Gunnlaugssonar, þegar hann kom heim úr róðri. Á dekkinu lá meðal annars færarúlla eða „Færeyingur“ sem Gulli kvaðst hafa fengið á krók og dregið upp á línunni. Jón fór að gruna ýmislegt og spurði hvar þessi „meðafli“ hafi fengist. Þegar hann heyrði það var hann samstundis viss um að þarna hefði „Færeyingurinn“ af Muggi skilað sér úr hafinu, eftir allan þennan tíma og meira að segja með girninu á.
Færarúllan er þessa dagana á sviðinu í Ungó á Dalvík, við sýningartjaldið þar sem gestir horfa á áhrifamikla heimildarmynd um sjóslysin miklu og hlýða meðal annarra á Jón heitinn Tryggvason segja frá heimsiglingunni á Muggi.
Siggi á Sigurhæðum kom í Ungó og heilsaði upp á „Færeyinginn“ og bætti við frásögnina um heimferðina. Muggur gat víst verið erfiður að eiga við þegar þannig viðraði, eins og Jón lýsir sjálfur í Brotinu. Siggi rifjaði upp að hann hefði neglt yfir gangveginn að stýrishúsinu og upp á stýrishúshurðina. Það var til að fyrirbyggja að báturinn fengi ekki fylluna inn að aftan þegar honum var snúið í öldurótinu. Jón var því í raun negldur inni í stýrishúsinu og kannski hefur það gert sitt til að þremenningarnir náu landi.
Sjórinn skilaði tveimur líkum þeirra fórust og svo „Færeyingnum“ meira en hálfri öld síðar.
Nú er færarúllan á sviðinu í Ungó og blasir við þeim sem sitja í salnum fyrir eða eftir sýningu Brotsins. Þögult og sögulegt vitni um skelfingaratburð sem rifjaður er upp í heimildarmyndinni góðu.