Heimildamyndin Brotið fékk verðskuldaðar viðtökur áhorfenda í Ungó á Dalvík í dag, enda upplýsandi, áhrifarík og vel gerð. Þrír Dalvíkingar, búsettir í Reykjavík, standa að verkefninu og hafa unnið lengi að því: Haukur Sigvaldason smiður, María Jónsdóttir textílhönnuður frá Árhóli á Dalvík og Stefán Loftsson kvikmyndagerðarmaður og bróðursonur Hauks.Í Brotinu er fjallað um mannskætt fárviðri er varð ellefu sjómönnum norðanlands að aldurtila, þar af sjö Dalvíkingum í blóma lífsins.
Sjómönnunum frá Dalvík var reistur bautasteinn við Dalvíkurhöfn 9. apríl 2013, þegar nákvæmlega hálf öld var liðin frá slysunum. Haukur Sigvaldason hafði frumkvæði og var drifkraftur að því. Hann missti föður sinn í þessu skelfilega páskahreti, þá fimm ára snáði.
- Hér á Sýslinu var á sínum fjallað um upphaf verkefnisins, bautasteinsins annars vegar og heimildarmyndarinnar hins vegar. Hér er umfjöllun frá 18. nóvember 2012.
- Síðar var fjallað um minningarathöfn á Eyjafirði, í Dalvíkurkirkju og við Dalvíkurhöfn 9. apríl 2013.
Vel er við hæfi að sýna Brotið í Ungó, gamla samkomu- og bíóhúsinu sem Leikfélag Dalvíkur hefur með að gera nú. Enginn gengur ósnortinn á braut eftir að hafa horft á myndina. Hún gekk greinilega nærri öllum frumsýningargestum og mest auðvitað aðstandendum og nánum vinum þeirra er fórust. Þetta er góð sýning en hún tók tók verulega á!
Haukur, María og Stefán lögðu upp í langferð og hafa leitað styrkja héðan og þaðan til að létta undir með sér, enda er þetta milljónadæmi. Nokkur fjárstuðningur hefur fengist en betur má ef duga skal. RÚV hlýtur að taka myndina til sýningar síðar, enda á hún erindi við landsmenn alla.
- Myndirnar eru af nokkrum viðmælendum, teknar af sýningartjaldinu í Ungó!