Kristján Eldjárn á pólitískri skjálftavakt á forsetaferlinum

Staðlað

IMG_2598„Enginn forseti lýðveldisins hefur glímt við eins mikil vandamál á vettvangi stjórnmálanna og Kristján Eldjárn. Örlögin voru betri við okkur hina forsetana. Aðeins ein ríkisstjórn á tólf ára forsetaferli hans féll ekki á kjörtímabilinu,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í ávarpi á mögnuðu málþingi í Bergi á Dalvík í tilefni af því að í ár eru liðin hundrað ár frá fæðingu Kristjáns Eldjárns forseta. Fjölmenni sótti samkomuna sem Svanfríður Jónasdóttir stýrði vel og röggsamlega.Ávarp Ólafs Ragnars var afar athyglisverð greining á hlutverki og stöðu forsetaembættisins í stjórnskipun landsins og svo greindi hann sérstaklega viðfangsefni Kristjáns Eldsjárns í samanburði við aðra forseta lýðveldisins. Þarna talaði fyrrum stjórnmálafræðiprófessor í Háskóla Íslands með mikla pólitíska reynslu og síðar meiri reynslu í embætti forseta en nokkur annar frá upphafi lýðveldisins. Langstærsti hluti ávarpsins fylgir með hér fyrir neðan í upptöku Sýslsins í Bergi.

Athyglisvert var reyndar að upplifa það að enginn „stóru“ fjölmiðlanna sæi ástæðu til að senda fulltrúa sína til Dalvíkur í dag til að fjalla um málþingið og þá sérstaklega innlegg forsetans. Eða telja fjölmiðlamenn það ekki áhugavert að kanna hvað forsetinn hefur að segja í ávarpi til heiðurs fyrrverandi forseta á kosningaári til forseta – þegar tólf hafa boðið sig fram og annar eins hópur er undir undir feldi eða segli og hugsar sinn gang?!

Margt sem Ólafur Ragnar sagði í Bergi ætti að vera tilefni umræðna og speglasjóna, bæði um forsetaembættið sem slíkt og um forsetatíð Kristjáns sérstaklega. Og það má raunar segja að Ólafur Ragnar hafi gefið óbeina uppskrift að vænlegum forsetaframbjóðanda þegar hann sagði eftirfarandi:

„Þess vegna finnst mér nú, þegar þjóðin gengur að þessu kjöri, þá sé forsetatíð Kristjáns Eldjárns kannski einn mikilvægasti grundvöllur að skynsamlegum umræðum um hvers eðlis staða forsetans er í lýðræði og stjórnskipan okkar Íslendinga og hve miklu máli það getur skipt að maður með greind, heiðarleika, þroska og yfirsýn skipi Bessastaði.“

Svo geta menn velt fyrir sér hvort einhverjir í þessum stærsta flokki frambjóðenda Íslandssögunnar til forræðis á Bessastöðum fylli út í þennan ramma …?

Málþingið um Kristján Eldjárn var sérlega athyglisvert í heild sinni. Þar fjallaði Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug- og félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri, um frænda sinn, forsetann og fjölskyldumanninn Kristján Eldjárn. Sérlega áheyrilegt og tilfinningaríkt erindi hjá Sigrúnu um uppáhaldsfrændann sinn, sem reyndar fylgir með í heild sinni hér fyrir neðan (hljóðupptaka).

Adolf Friðriksson fornleifafræðingur fjallaði um fornleifafræðinginn Kristján Eldjárn og gerði glögga grein fyrir því öllu því sem eftir Kristján liggur og hve mikla þýðingu verk hans hafa haft og hafa enn í fornleifafræði og sagnfræði hérlendis og erlendis.

Síðast en ekki síst fjallaði Árni Daníel Júlíusson, sagnfræðingur frá Syðra-Garðshorni, um væntanlega bók sína um miðaldasögu Svarfaðardals. Hann tók upp þráð frá Kristjáni Eldjárn og vinnur að verki sem forsetanum fyrrverandi auðnaðist ekki að ljúka áður en hann féll frá.

Óhætt er að segja að fyrirlestur Árna Daníels hafi kveikt mikinn  áhuga fyrir bókinni, sem gert er ráð fyrir að gefa út í desember – þegar rétt öld er liðin frá fæðingu Kristjáns Eldjárns.

Hver hefði til dæmis trúað því að á sínum tíma hafi verið guðshús á 21 bæ í Svarfaðardal, bænahús eða hálfkirkja?

Mörgum þykir vel í lagt að nú séu þrjár kirkjur í Svarfaðardal en á miðöldum var kristnihald sem sagt heimilisiðnaður á ríflega tveimur tugum bæja í sveitinni! Það var ekki einu sinni bruggað á svo mörgum bæjum í Svarfaðardal þegar Sýslari ólst þar upp, hvað þá farið með kvöldbænir undir svefninn á tugum bæja.

Upptaka – Ólafur Ragnar í Bergi á Dalvík – I (surg í loftræstingu truflar ögn hljóðið!)

Upptaka – Ólafur Ragnar í Bergi á Dalvík – II

Sigrún Stefánsdóttir – hljóðupptaka

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s