Guðsorð, Kristjánspungar og Bragakaffi

Staðlað

IMG_2800Hátt í þrjú hundruð manns komu saman í Bústaðakirkju í dag og sóttu árlega Akureyrarmessu. Göngustaðaættin svarfdælska setti samt sinn svip á athöfnina: Ingi Jóhannsson flutti blessunarorð í upphafi, Davíð bróðir hans var í undirbúningsnefnd og þriðji bróðirinn, Kristinn G., teiknaði forsíðumynd sálmaskrárinnar.

1-teikn

Mynd Kristins G. Jóhannssonar af Göngustaðaætt í sálmaskrá dagsins: Nonni og Manni undir árum á kænu á Pollinum á Akureyri.

Akureyrarmessa er hefðbundinn viðburður í Bústaðakirkju með séra Pálma Matthíasson Akureyring í broddi fylkingar, að sjálfsögðu. Þetta eru afar notalegar samkomur og létt yfir þeim og kirkjugestum. Auðvitað situr enginn með markaða skeifu í andlitsbjórnum í athöfn sem hefst með því að sungið er um vor í Vaglaskógi, „við skulum tjalda í grænum berjamó“ og svo framvegis, líkt og gerðist í dag.

Hljómsveit Ingimars Eydal gaf Vor í Vaglaskógi út á 45 snúninga plötu 1966, ljóð Kristjáns frá Djúpalæk en lag Jónasar Jónassonar. Grímur Sig var gítaristi í kirkjubandinu í dag og spilaði lengi með Ingimar en reyndar eftir að þessi plata var gerð. Það var samt heimilislegt að sjá þennan þrautreynda Sjallamann spila og raula … „leikur í ljósum lokkum og angandi rósum, leikur í ljósum lokkum hinn vaggandi blær …“

Steini Pje, Þorsteinn Pétursson, fyrrum Akureyrarpólití og núverandi forystumaður í hollvinasamtökum trébátsins Húna II, flutti ágæta örsögu að norðan.

Hugleiðingu dagsins flutti Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) myndlistarmaður og prófessor í hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Hann lýsti ástar- og haturssambandi sínu við Akureyri og uppskar hláturrokur í salnum. Það er sálarnærandi að hlæja í kirkju þegar við á.

Svo var boðið upp á Bragakaffi í safnaðarheimilinu á eftir, ástarpunga úr Kristjánsbakaríi og Lindukonfekt. Allt eftir bókinni.

  • Akureyri er satt best að segja ljómandi góður staður og enn öruggari en Brimborg til að vera á. Akureyringar eru líka upp til hópa eðalfínt fólk, bæði brottfluttir og heimabúandi. Hér með er gleymt og grafið að þeir hafi sigrað Dalvíkurbyggð í Útsvari fyrr í vetur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s