Taðfellingartankur frá Sæplasti er málið

Staðlað

IMG_1742Taðfellingar …. hvað? Von að spurt sé. Taðfellingartankur er leynivopn Sæplasts á Dalvík og mjög útbreitt tækniundur í Kópavogi, af öllum stöðum. Að vísu neðanjarðar og í hesthúsahverfinu en samt.

Einhvern veginn dæmigert að í bæjarfélaginu sem gerði indversku prinsessuna Leoncie að bæjarlistamanni skuli taðfellingartankur vera útbreitt hjálpartæki hestalífsins.

Staðurinn er Laugardalshöll, stundin er föstudagur 4. mars 2016. Sýningin Verk & vit í fullum gangi. Sæplast á Dalvík með þrjá framlínumenn í kynningu og sölu í bás fyrirtækisins: Friðrik Vilhelmsson, sölustjóra byggingarvara; Halldór Jónsson sölustjóra og Sævald J. Gunnarsson sölumann. Þeir kynntu „rotþrær, brunna, skiljur og aðrar lausnir fyrir frárennsliskerfi og vatnsveitur“, eins og það heitir á hátíðlegu kynningarmáli Sæplasts.

IMG_1749

Friðrik Vilhelmsson, Sævaldur J. Gunnarsson og Halldór Jónsson í Sæplastsbásnum. Sveitungi þeirra heilsaði upp á þá, Jón Viðar Óskarsson.

Það var eins og við manninn mælt. Þegar Kópavogsbúa bar að garði á sýningunni var erindið fyrir fram augljóst og rakið. Gesturinn vildi helst ekki annað sjá og um annað tala en Sæplast og taðfellitanka .

Þetta sérstæða framleiðsluævintýri Sæplasts, nýsköpun og sprotastarfsemi, hófst með því að hestamaður nokkur í Kópavogi hringdi til Dalvíkur og spurði hvort þar væru framleiddir taðfellitankar. Viðmælandinn nyrðra kvað nei við en færðist undan því að játa að hann hefði aldrei heyrt minnst á taðfellingartanka. Ekkert kom út úr því að gúggla orðið og í orðasafni Árnastofnunar fundust engin merki um að hugtakið taðfellingartankur væri til í íslenskri tungu alveg frá landnámi Þorsteins Svörfuðar á Grund til Boggu og Friðriks í nýja lausagöngufjósinu.

Dalvíkingar hverfa hins vegar ekki ráðadeigir frá góðum verkum. Kópavogsbúinn skýrði það út í símtalinu að hrossaborgirnar væru tengdar frárennsliskerfi kaupstaðarins og þar tækju menn við rennandi úrgangi en ekki föstum, sum sé hlandi en ekki skít frá hrossum. Það vantaði geymi til að setja í hrossaskít þannig að hlandið síaðist frá og rynni út í kerfið en þurr skíturinn yrði eftir.

Til að gera langa sögu stutta hannaði Sæplast taðfellingartank og smíðaði líka fyrir þennan viðskiptavin sinn. Græjan reyndist vel og varð umræðuefni manna á meðal í hrossaborgum Kópavogs. Yfir Sæplast rigndi pöntunum úr Kópavogi og Dalvíkingar hafa fjöldaframleitt taðfellingartanka fyrir hrossafólk þar í bæ. Enginn er raunar maður með mönnum í Kópavogi nema eiga taðfellingartank.

Græjan er tækniundur og listaverk og hönnuður hennar ætti að auðvitað að hljóta útnefningu sem bæjarlistamaður Kópavogs í eitt ár, lágmark. Bæjarstjórninni hugnast Leoncie betur. Hún um það.

teik.web.jpg

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s