Glens, hugsanalestur og mannfræði á Reiðhallarblóti

Staðlað

Hestamannafélagið Fákur slapp fyrir horn, naumlega. Sunnansvarfdælir höfðu bókað þorrablót sitt í þriðja sinn í Fáksheimilinu í Víðidal en sólarhring fyrir blót uppgötvaðist að umsjónarmaður hússins hafði tvíbókað salinn. Sjálf Reiðhöllin var hins vegar laus eða öllu heldur salur á efri hæð. Þar var blótað af krafti laugardagskvöldið 6. febrúar.

Margt og mikið var til skemmtunar og yndisauka, bæði úr væntum og óvæntum áttum, auk þess hefðbundna sem fylgir átsamkomu á þorra.

Þarna var til dæmis boðið upp málverk eftir Brimar á Jaðri, listmálara og lífskúnstner Dalvíkinga. Myndin var slegin Þórólfi Antonssyni, veitingahaldara á Kaffi Loka, eftir umtalsverðar sviptingar.

  • Þrettánda júní í sumar verða liðin 90 ár frá fæðingu Jóns Stefáns Brimars og af því tilefni ætla ættingjar hans að opna vefsíðu og gefa út valin myndverk á bók, listamanninum til heiðurs.
  • Aðstandendur verkefnisins vilja gjarnan fá vitneskju um málverk eftir Brimar til að skrá og ljósmynda. Ragnar Þ. Þóroddsson, sem mætti með málverkið til uppboðs á laugardagskvöldið, tekur glaður við slíkum upplýsingum í síma 663 7619 eða á tölvupóstfangið ragnthor@internet.is.

Í Víðidalnum veislan dýr

Hjálmar Bomma og Júlli Jónasar voru veislustjórar á Reiðhallarblóti. Hjalli varpaði fram fyrri parti vísu og bað menn að botna á blöð með blýöntum sem Haukur Sigvalda smiður hafði setið við að ydda svo tímum skipti.

Hanna Kristín Hallgrímsdóttir átti sigurbotninn og hlaut brennivínsflösku að launum.

Vísan er svona, þ.e. fyrri partur Hjalla og sigurbotn Hönnu:

Í Víðidalnum veislan dýr
vinir þorrann þreyja.
Svarfdælinga söngur hýr
sveina bæði og meyja.

Sessunautar Hönnu og gestir á næstu borðum nutu góðs af kveðskapnum því hún maríneraði fjölda manna í brennivíni og það svo mjög að verðlaunin gufuðu upp á staðnum.

Söngkona ársins og Svarfdælingur á ská

Ekki dugði minna en að kynna söngkonu ársins til leiks á blótinu, Sölku Sól Hjálmarsdóttur. Þau feðgin tróðu upp, hún söng en hann lék með á hljómborð. Það var magnað dæmi.

Þar á eftir steig á svið Gói, Guðjón Karlsson leikari – sem reyndar hefur skátengingu við Svarfaðardal því föðurbróðir hans er Einar Sigurbjörnsson, sem á Atlastaði ásamt Guðrúnu Eddu Gunnarsdóttur. Skemmst er frá að segja að Gói fór hamförum á sviðinu í söng og skopi og kom mörgum á óvart sem firnaflottur uppistandari.

Doktor Þórhalla – senuþjófur kvöldsins

Síðast en ekki síst skal nefnd til sögunnar dr. Þórhalla, mannfræðingur og miðill sem les hugsanir og ósjálfráða skrift. Hún varði doktorsritgerð um Svarfdælinga og Dalvíkinga og hlaut fádæma lof fyrir rannsóknir sínar í umsögnum andmælenda við doktorsvörnina við Háskóla Íslands.

Heldur ekki gestir á þorrablótinu máttu vart mæla af hrifningu yfir skarplegri mannfræðigreiningu hennar á Svarfdælingum og Dalvíkingum norðan heiða og sunnan.

Skapari og túlkandi Þórhöllu er Guðrún Marínósdóttir Þorsteinssonar og Láru Loftsdóttur frá Böggvistöðum. Marínó hóf leiklistarferil sinn á Dalvík og varð síðar atvinnuleikari á Akureyri. Leiklistargen Guðrúnar birtust ljóslifandi á blótinu þegar Þórhalla kom fram opinberlega í fyrsta en vonandi ekki í síðasta sinn, því mannfræðidoktorinn á erindi við svo marga. Hennar bíður til dæmis að greina Kára Stefánsson, Sigmund Davíð og marga, marga fleiri fyrst hún er komin út úr skápnum á annað borð.

Guðrún tók upphaflega að sér að flytja minni Svarfaðardals á blótinu og setti punkta á blað í hefðbundinn lofsöng um dalinn en þá fór Þórhalla að sækja að’enni að næturþeli og tók yfir minnið. Þórhalla mætti á tilsettum tíma til blóts og lét ljós sitt skína en Guðrún ekki fyrr en undir miðnætti.

  • Doktor Þórhalla er flókinn karakter. Hún er Svarfdælingur „að einhverju leyti“ en neitar að útskýra það frekar. Hún lætur sem Dalvíkingar og Svarfdælingar séu upp til hópa undarlegt fólk og sér á báti, virkar pínulítið afbrýðissöm en viðurkennir ábyggilega með sjálfri sér að þeir séu býsna flottir.

Þeir sem létu hjá líða að mæta til blóts um helgina geta sjálfum sér um kennt að ná ekki að kynnast doktor Þórhöllu. En það kemur dagur á eftir þessum blótsdegi. Þórhalla kemur aftur, vonandi. Hún staðfestir ekkert í þeim efnum en segist hafa fengið mikið kikk út úr því að hrauna yfir sveitunga sína í Reiðhöllinni.

Sveitungarnir höfðu sömuleiðis unun af því að fara þar undir hraun.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s