Tæknifræðingur og smiður með rætur á Hreiðarsstöðum

Staðlað

Hann þekkist ekki nema sem Guðjón á vinnustaðnum sínum í Reykjavík en Svarfdælingar þekkja hann ekki nema sem Hreiðar. Guðjón Hreiðar Árnason var uppalinn á Hreiðarsstöðum en flutti úr dalnum þegar jörðin var seld um 1970 og býr og starfar í höfuðborginni.

Það var ekki einfalt að komast í samband við nefndan Svarfdæling gegnum skiptiborð fjarskiptafyrirtækisins Mílu. Fullyrt var að þar fyndist bara einn Hreiðar í starfsmannaskránni og sá sór af sér öll tengsl við Svarfaðardal. Sýslið hafði ekki hugmynd um að maðurinn héti líka Guðjón og á daginn kom að hann heitir bara ekki Hreiðar á vinnustaðnum. Botn fékkst í málið eftir krókaleiðum.

„Það er rétt að ég var yfirleitt kallaður Hreiðar í Svarfaðardal en vildi sjálfur nota bæði nöfnin og geri það. Þegar ég fór að vinna hjá Landsíma Íslands árið 2000 var ég skráður sem Guðjón Árnason í kerfið hjá fyrirtækinu og fékk þau svör að það væri ekki hægt að koma millinafninu (Hreiðar) þar fyrir líka. Frá Símanum fór ég til Mílu og þessi vitleysa fylgdi mér þangað.

Sonur Laufeyjar á Hreiðarsstöðum

3

Laufey Guðjónsdóttir, móðir Guðjóns Heiðars.

Guðjón Hreiðar ólst sem sagt upp á Hreiðarsstöðum. Þar bjó Sveinbjörn Guðjónsson, móðurbróðir hans, ókvæntur og barnlaus. Þar bjuggu einnig Anna Jónsdóttir, móðir hans, og tvær systur Sveinbjörns (Bjössa á Hreiðarsstöðum), Guðrún Laufey og Elísabet (Beta). Laufey var ógift en átti soninn Guðjón Hreiðar, Elísabet var ógift og barnlaus.

Svo rakið sé nánar ættartréð þá voru Hreiðarsstaðasystkin alls átta, tvö dóu í bernsku en sex komust á fullorðinsár. Elstir voru Jón Baldvin og Sveinbjörn. Þeir tóku við búrekstri af foreldrum sínum en Jón lést ungur, einungis 46 ára, og Bjössi bjó þá áfram einn á Hreiðarsstöðum ásamt systrum sínum og móður sinni sem lést 1970.

Þau brugðu búi og seldu jörðina og keyptu Ásgarð á Dalvík ári síðar. Sveinbjörn og Laufey fluttu síðan á Dalbæ, heimili aldraðra, og eru öll látin fyrir mörgum árum.

bjossi

Bjössi bóndi á Hreiðarsstöðum.

Þess má geta að eitt systkinanna frá Hreiðarsstöðum var Friðrika, Rikka, sem gift var Friðjóni Kristinssyni póstmanni á Dalvík. Þriðji bróðirinn er Daníel, en hann giftist heimasætunni á Þverá, Lovísu Guðrúnu Árnadóttur. Þau bjuggu á Þverá á árunum 1928-1930 og fluttu þá til Akureyrar.

Foreldar systkinanna, hjónin á Hreiðarsstöðum, voru Anna Jónsdóttir frá Þorsteinsstöðum og Guðjón Daníelsson frá Tjarnargarðshorni (nú Laugahlíð). Guðjón og Júlíus Daníelsson eldri í Syðra-Garðshorni voru bræður.

Úr húsasmíði í tæknifræði

Guðjón Hreiðar var í Húsabakkaskóla og kláraði skyldunámið þar. Hann fór þaðan í Gagnfræðaskólann á Akureyri og lauk landsprófi. Síðar var hann í Iðnskólanum í Reykjavík og aflaði sér réttinda sem húsasmiður. Enn síðar útskrifaðist hann sem tæknifræðingur frá Tækniskóla Íslands.

jon

Jón Baldvin (myndin) tók ástamt Bjössa bróður sínum við búi á Hreiðarsstöðum en lést einungis 46 ára.

„Þegar systkinin á Hreiðarsstöðum ákváðu að bregða búi og flytja til Dalvíkur skildu leiðir. Ég hafði verið í stopulu sambandi við föður minn, Árna Guðjónsson húsasmíðameistara í Reykjavík, og grennslaðist fyrir um hvort hann vildi taka mig á samning sem nema í húsasmíði. Það varð úr og ég vann á litlu trésmíðaverkstæði hjá honum í þrjú ár. Þá vantaði mig eitt ár við útivinnu til að ná sveinsprófi og vann í eitt ár við smíðar hjá Kjartani Sveinssyni svínabónda og eitt sumar á Keflavíkurflugvelli. Þar með var ég útskrifaður með með fagréttindi til húsasmíða. Um það leyti hóf ég nám í Tækniskóla Íslands og lauk þar námi í árslok 1979 en við smíðar vann ég á sumrin með tæknináminu.

Ég hef alla ævi verið með veikt bak. Bústörf í sveit hentuðu mér ekki og það sýndi sig að smíðavinnan hentaði ekki heldur. Því leitaði ég mér að líkamlega léttari vinnu og lærði tæknifræði.“

Hitti fyrir Björn frá Grund á Almennu

Guðjón Hreiðar réði sig sem tæknifræðingur til starfa á Almennu verkfræðistofunni í Hreyfilshúsinu við Grensásveg (hún sameinaðist síðar öðrum verkfræðistofum í VERKÍS). Fyrir á Almennu hitti hann meðal annars fyrir sveitunga sinn, Björn, son Stefáns og Dagbjartar á Grund í Svarfaðardal. Þeir Björn unnu saman á verkfræðistofunni í þónokkur ár eða þar til Björn réð sig til starfa á Landsvirkjun, þar sem hann er enn.

„Verkefnin á Almennu verkfræðistofunni voru krefjandi og skemmtileg. Ég vann til dæmis við eftirlit með mörgum stórum og smáum framkvæmdum. Stærsta verkefnið af því tagi var nýbygging Ríkisútvarpsins við Efstaleiti frá 1981 til 1988 eða frá því sökklar voru steyptir þar til báðar rásir útvarpsins voru komnar í þar í hús.

Ég get nefnd líka bóknámshús á Sauðárkróki þar sem ég var byggingarstjóri og tæknilegur ráðgjafi, hönnun flugvallar og flughlaðs á Egilsstöðum, hönnun og eftirlit með tilteknum framkvæmdaþáttum við stækkun Búrfellsvirkjunar og verkefni til undirbúnings framkvæmda við nýja Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.

Svo kom ég að verkefnum fyrir Landsíma Íslands og mér bauðst í framhaldinu fullt starf þar árið 2000. Þá fannst mér fannst reyndar tími kominn til að skipta um vinnustað og flutti mig til Landsímans, síðar Símans.

Þegar Síminn var seldur fór ég til Mílu, fyrirtækis sem stofnað var árið 2007. Míla á og rekur víðtækt fjarskiptakerfi ljósleiðara og koparstrengja í jörðu um allt land og örbylgjukerfi sem nær til nær allra heimila, fyrirtækja og stofnana landsins. Þetta fyrirtæki er í raun undirstaða fjarskiptaþjónustu landsmanna. Þar starfa ég mest að útboðsmálum með því að sjá um verklýsingar og fleira svo unnt sé að bjóða út verk á vegum Mílu.“

Rætur í dalnum en angar þeirra annars staðar

IMG_0269Við Guðjóni Hreiðari blasa vegamót á starfsævinni síðar á þessu ári. Hann verður 69 ára 2016 og býr sig undir að hætta að vinna hjá Mílu vegna aldurs. Það er ekki þar með sagt að hann setjist í helgan stein, hann finnur sér ábyggilega eitthvað til að dunda við í einbýlishúsinu sínu í Grafarvogi.

Guðjón Hreiðar er kvæntur Ingibjörgu Ottósdóttur myndlistarmanni. Hún er með vinnustofu í Kópavogi og tekur þátt í að reka Art Gallery 101 að Laugavegi 44 í Reykjavík. Áður var hún þátttakandi í rekstri ART67 gallerís að Laugavegi 67. Þau eiga þrjú börn og fjögur barnabörn.

„Ég kem sjaldan í Svarfaðardal, enda á ég enga nána ættingja þar lengur. Ef ég fer norður á annað borð er ferðinni gjarnan heitið til Akureyrar. Þrjú af sex Hreiðarsstaðasystkinum voru barnlaus og hin þrjú áttu sjö börn samanlagt. Ræturnar eru í dalnum en angar þeirra nú eru annars staðar.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s