Sunnudagskaffi með Sigurlaugu á Húsabakka

Staðlað

Hún fæddist á Ísafirði, ólst upp á Siglufirði og Akureyri, bjó eftir það í Hafnarfirði, á Flúðum, í Svarfaðardal, Þorlákshöfn og á Blönduósi.

Nú býr Sigurlaug Arndal Stefánsdóttir í Kópavogi og hefur úr nógu að velja þegar spurt er á förnum vegi: Hvaðan ertu?

Svar: Akureyringur.

Sigurlaug var kennari og skólastjórafrú á Húsabakka í Svarfaðardal frá því skólinn var tekinn nýr í gagnið 1955 þar til þau Gunnar Markússon fluttu aftur suður 1962. Sýslið tók hús á henni síðdegis á sunnudegi í upphafi nýs árs og fékk hana til að líta um stund í baksýnisspegil yfir kaffibolla í notalegri heimsókn í notalegri íbúð hennar í Boðaþingi í Kópavogi.

„Ég fæddist á Ísafirði árið 1922 en ólst upp á Siglufirði til tíu ára aldurs. Þá fluttum við til Akureyrar og þvílíkur munur að koma þangað! Á Siglufirði var mikið atvinnuleysi og margir höfðu varla í sig eða á. Tré í görðum voru sjaldgæf sjón en Akureyri var hins vegar gróðursæll staður, draumabærinn minn.

Pabbi var úr Fljótum en mamma vestfirsk, af Arnardalsætt. Ég tengi mig alltaf sérstaklega við Akureyri og tel mig til Akureyringa.“

Gunnar á Húsabakka fæddist í samkomuhúsinu á Eyrarbakka og það gerðu fleiri, að minnsta kosti Auður Laxness, síðar húsfreyja og eiginkona Nóbelskáldsins í Gljúfrasteini. Þau Gunnar fæddust meira að segja á sama árinu, 1918. Hann fluttist með foreldrum sínum til Vestmannaeyja fjögurra ára gamall og var þar í tólf ár.

Gifti sig og hætti í kennaranámi – í bili

Sigurlaug nýtur útsýnis úr stofuglugganum í Boðaþingi.

Gunnar missti föður sinn á meðan á Eyjadvölinni stóð og móðir hans fluttist þá með börn sín til Hafnarfjarðar. Gunnar lauk kennaraprófi og fór til framhaldsnáms í Danmörku. Hann hóf skólaferilinn sem farkennari í Þingvallasveit og Grafningi en tók síðan við starfi skólastjóra á Flúðum 1951. Tveir fyrstu heimavistarskólar landsins voru á Suðurlandi, Flúðaskóli var annar þeirra.

Sigurlaug var líka í Kennaraskólanum en útskrifaðist ekki fyrr en síðar. Gifting og barneignir settu strik í þann reikning en hún fór engu að síður að kenna yngstu árgöngunum á Flúðum lestur, skrift, reikning og handavinnu. Sama gerði hún á Húsabakka. Síðar lauk hún kennaranámi og aflaði sér réttinda til kennslu.

Bréf frá Dagbjörtu frænku hratt atburðarás af stað

Kaflaskil í lífi skólastjórahjónanna á Flúðum urðu snögg þegar þau fluttu norður í Svarfaðardal haustið 1955. Þegar þau komu að Flúðum voru eldri börnin fædd, Þór Jens og Hildur. Á Flúðum fæddust þeim Stefán og Ágústa.

Skólastjóraíbúðin var alltof lítil fyrir sex manna fjölskyldu en samt stóð ekki annað til en að búa þröngt og bíða eftir að Hrunamenn byggðu nýjan skóla. Sú framkvæmd var einhvers staðar út við ystu sjónarrönd og við blasti að bíða þyrfti í nokkur ár eftir að nýr skóli risi.

Þá barst bréf að norðan. Dagbjört Ásgrímsdóttir á Grund í Svarfaðardal, föðursystir Sigurlaugar, skrifaði frænku sinni á Flúðum og greindi svo frá að Svarfdælingar væru að ljúka við að byggja heimavistarskóla en enginn kennaramenntaður maður hefði sýnt starfi þar áhuga. Hún spurði hvort Gunnar og Sigurlaug þekktu kennara sem fáanlegur væri til að sækja um skólastjórastarf á Húsabakka.

Skólastjórinn renndi í hlað kvöldið fyrir skólavígsluna

Skemmst er frá að segja að bréfið frá Grund hreyfði við skólastjóranum á Flúðum, sem aldrei hafði í Svarfaðardal komið og þekkti engan Svarfdæling, að einum undanskildum. Gunnar hafði kynnst Kristjáni Eldjárn við uppgröft fornminja í Þjórsárdal.

Gunnar skrapp norður til að kynna sér málið og fékk leiðsögn á Húsabakka og í sveitinni frá séra Stefáni Snævarr á Völlum, formanni skólanefndar. Niðurstaðan varð sú að ganga á staðnum frá umsókn um stöðu skólastjóra í nýjum barnaskóla Svarfdælinga.

Heimamenn höfðu ákveðið að skólinn yrði tekinn í gagnið við athöfn á tilteknum degi snemma í september 1955 og það stóð. Nýi skólastjórinn renndi í hlað á Húsabakka í flutningabíl að sunnan með búslóðina kvöldið fyrir vígsludaginn og með honum Stefán sonur hans. Þór Jens var í sveit á Suðurlandi og kom norður síðar um haustið.

Sigurlaug og dæturnar tvær, Hildur og Ágústa, komu að sunnan til Akureyrar með næturrútu sama dag. Þær gistu á Akureyri og voru því ekki viðstaddar vígsluhátíðina í Svarfaðardal.

Skemmtun við Sundskálann, tjaldað á Grundartúni

Gunnar Markússon í ræðustóli í Þorlákskirkju í síðasta sinn. Hann dó úr krabbameini 1997. Hann var lengi formaður sóknarnefndar í Þorlákshöfn.

„Ferðin norður var afar erfið og reyndi mikið á okkur. Aftan við okkur í næturrútunni var fylliraftur sem söng og röflaði alla leiðina. Ágústa var bílveik og engri okkar kom dúr á auga. Bílstjórinn skipti sér ekkert af því sem áfram fór aftur í og ferðin til Akureyrar tók eina tíu tíma. Við þurftum að jafna okkur og hvílast. Þess vegna vorum við á Akureyri þegar Húsabakkaskóli var vígður og nýr skólastjóri að sunnan kynntur til sögunnar í dalnum.

Ég hafði oft komið í Svarfaðardal og meira að segja hjólað þangað einu sinni frá Akureyri með vinkonu minni. Erindið var að vera á þjóðhátíðarsamkomu við Sundskála Svarfdæla. Við sváfum í tjaldi á túninu á Grund, hjá Dagbjörtu frænku og Stefáni Björnssyni, sem reyndar var formaður byggingarnefndar Húsabakkaskóla og kom talsvert við sögu sem slíkur í upphafi dvalar okkar nyrðra.

Heimferðin okkar er sérstaklega minnisstæð. Við hjóluðum á móti sunnanroki og gáfumst hreinlega upp við Möðruvelli í Arnarneshreppi, þyrstar og svangar. Við fórum þá heim að bæ og vildum kaupa nesti en Ásrún Þórhallsdóttir, húsfreyja og eiginkona Eggerts bónda Davíðssonar á Möðruvöllum, bauð okkur í stofu og bar fram kökur, brauð, mjólk og kaffi. Við fengum veisluborð og næga orku til að komast til Akureyrar.“

Slysfarir og hörmungar fyrsta veturinn

Sigurlaug og Gunnar voru fljót að kynnast Svarfdælingum og verða hluti af samfélagi þeirra. Strax á fyrsta degi kom Sigríður Hafstað á Tjörn að Húsabakka með köku og bauð þau þannig velkomin. Það kunnu nýju skólastjórahjónin vel að meta.

Sú minning var góð en ýmsar aðrar minningar frá fyrstu mánuðunum í dalnum eru hins vegar dapurlegar. Áður en árið 1955 rann skeið sitt á enda höfðu tveir bændur í Skíðadal farist í snjóflóðum, báðir áttu börn á Húsabakka. Þegar einn mánuður var liðinn af árinu 1956 ári brann íbúðarhúsið á Sökku til kaldra kola og mildi var að ekki varð manntjón þar líka.

„Þetta var skelfilegur tími og ég man vel eftir Þorláksmessudeginum þegar rafmagnið var alltaf að fara af og á endanum brugðum við á það ráð að sjóða hangikjötið á kolaeldavél á heimavistinni. Veður var með allra versta móti, stórhríð og fannfergi. Um kvöldið var sagt frá því í útvarpsfréttum að bóndinn á Hjaltastöðum hefði farist fyrr um daginn, aðeins fáeinum vikum eftir að bóndinn á Másstöðum fórst.

Þorláksmessuóveðrið situr í mér og sömuleiðis man ég vel eftir miklu hreti um miðjan júní 1959. Þá var ráðgert að fagna 15 ára afmæli íslenska lýðveldisins á samkomu á Húsabakka 17. júní og reistar voru flaggstangir og fleira til undirbúnings því. Allt brotnaði þetta og fauk út í veður og vind. Bændur höfðu sleppt fé sínu í sumarhaga og reyndu að ná því til byggða og bjarga í hús.

Ég minnist þess að hafa hitt hjónin í Syðra-Holti, Ástdísi og Sigurð. Þau voru sködduð í framan eftir að hafa barist um í stórviðri á Holtsdal til að ná í ærnar sínar og lömb.

Veðrabrigðin voru ótrúleg í báðar áttir. Þetta skall á með látum en svo stytti  snögglega upp og hlýnaði. Næsta sunnudag var þjóðhátíðarsamkoman haldin, snjórinn horfinn og tún orðin græn.“

Ekki sátt við að flytja suður

„Við tengdumst Svarfdælingum vel og okkur var tekið afskaplega innilega, alltaf og alls staðar. Ég starfaði í kvenfélaginu og söng með kórum. Við kynntumst fjölda manna sem margir urðu vinir fyrir lífstíð.

Eftirtektarvert var hve duglegir Svarfdælingar voru að dansa. Svo voru þeir góðir sögumenn og afskaplega skemmtilegt fólk!

Árið 1962 fluttum við suður, til Þorlákshafnar. Þar bauðst Gunnari skólastjórastaða en aðalástæða vistaskiptanna var skólaganga barnanna okkar. Við hefðum lítið séð til þeirra ef við hefðum verið áfram fyrir norðan en þau farið suður til framhaldsnáms.

Gunnar langaði reyndar suður. Honum leið vel í Svarfaðardal en fannst fjöllin þrengja að sér. Ég skal játa að ég var ekki fyllilega sátt við að flytja, mér leið afar vel í dalnum.

Við komum ekki í Svarfaðardal aftur fyrr en sex árum síðar og oft eftir það. Tilfinningin var alltaf sú sama þegar við renndum yfir Hámundarstaðahálsinn, ókum fram hjá Hálsi og Hrísum og dalurinn blasti við. Við vorum komin heim. “

Skóli, guðshús og dansstaður

Fjölskyldan á Húsabakka komin suður í Þorlákshöfn: Sigurlaug, Hildur, Stefán, Ágústa, Þór Jens og Gunnar.

„Fyrstu misserin í Þorlákshöfn voru afar erfiður tími. Ég kom fyrst til Þorlákshafnar í mjólkurbíl. Umhverfið var gróðursnautt, varla sást stingandi strá, bara sandur og auðn. Ömurlegt.

Ekkert hús var fyrir skólastjórann, bara tvær skólastofur til að kenna í og svo kennarastofan sem varð íbúðin okkar til að byrja með.

Sjálft skólastarfið var hrikalega erfitt, börnin voru eins og ljón og tígrísdýr í samanburði við þægu, hlýðnu og góðu svarfdælsku ljósin á Húsabakka!

Fastráðni kennarinn í Þorlákshöfn var veikur veturna áður og leystur þannig af að nýir og nýir kennarar komu og kenndu í mánuð í senn. Slíkt bauð upp á stjórnleysi og upplausn.

Gunnar var sterkur stjórnandi og þarna reyndi heldur betur á hann. Honum tókst smám saman að koma á stjórn og aga í skólanum.

Í skólastofunum var líka messað og þar voru meira að segja almennir dansleikir! Engin kirkja var í Þorlákshöfn og ekkert félagsheimili heldur. Þorlákshafnarbúar áttu kirkjusókn að Hjalla í Ölfusi en eftir að nýtt skólahús kom til sögunnar voru þar guðsþjónustur. Gunnar fékk smið í lið með sér til að búa til altari og trékross, ég saumaði altarisklæði.

Menn vildu slá upp böllum þarna líka og Gunnar fékk ráðuneytisleyfi til dansleikjahalds í skólahúsinu. Skýrt var tekið fram að hvorki mætti reykja né drekka innan veggja skólans og það var virt. Menn reyktu úti undir vegg og staupuðu sig þar líka. Umgangurinn var ótrúlega góður, ég man ekki eftir að nokkrir húsmunir skemmdust eða eitthvað annað gerðist sem gjarnan fylgir dansleikjahaldi.

Það verður að segjast að við áttum í fyrstu litla samleið með Þorlákshafnarbúum, þeir bara unnu í fiski, sváfu og skemmtu sér um helgar! Svo breyttist þetta smám saman í gegnum félagsstarfið og fleira, ég var í kór og kvenfélaginu líkt og fyrir norðan.“

  • Gunnar var skólastjóri í 18 ár og bókavörður til dauðadags 1997. Hann var í sóknarnefnd, hafnarstjórn og í stjórn Sögufélags Árnesinga. Hann skrifaði líka mikið, meðal annars um sögu Þorlákshafnar.

Ástin kviknaði á landsfundi eldri borgara

„Mér líður vel og er jákvæð og glaðleg, sem hefur mikið að segja upp á útlit og heilsu!“ Þessi kenning Sigurlaugar sannast best á henni sjálfri. Hver trúir því að hún sé orðin 94 ára? Ekki nokkur maður!

Eftir að Gunnar féll frá bjó Sigurlaug áfram í Þorlákshöfn í þrjú ár og varð virk í félagi eldri borgara á staðnum. Á aldamótaárinu 2000 sótti hún landsfund eldri borgara í Reykjavík og þar gripu örlögin óvænt í taumana. Á fundinum var líka Húnvetningurinn Torfi Jónsson frá Torfalæk, búsettur á Blönduósi og fyrsti formaður félags eldri borgara í Austur-Húnavatnssýslu.

Þau Sigurlaug tóku tal saman og ekki leið á löngu þar til hún ákvað að aka norður á Blönduós í eigin bíl með nýútgefið ökuskírteini. Þar bjó hún næstu tíu árin, fyrst með Torfa í íbúðum aldraðra á Flúðabakka en síðar ein eftir að hann lagðist inn á sjúkradeild Héraðshælisins á Blönduósi þar sem hann lést fjórum árum síðar.

„Það bara kviknaði svona hressilega í okkur þarna á landsfundinum í Reykjavík!“ segir Sigurlaug. „Við fórum í kjölfarið að tala saman í síma og hann stakk upp á að ég kæmi norður og yrði hjá sér um sumarið. Sú dvöl varð áratugur.

Satt að segja bjóst ég við að mér yrði tekið fálega fyrir norðan en annað kom á daginn. Ég held góðu sambandi við fjölskyldu Torfa og við marga fleiri á Blönduósi. Satt að segja ætlaði ég að vera þar áfram eftir að hann féll frá en þá hitti ég Magðalenu systur mína hér fyrir sunnan. Hún hafði fest sér íbúð í nýju fjölbýlishúsi sem var í byggingu í Kópavogi og sýndi mér teikningu af henni. Ég varð strax hrifin og ákvað að gera slíkt hið saman. Við systur urðum fyrstu íbúarnir hér, drottningar hússins.“

Langalangamma fjögurra barna

agusta

Ágústa

„Mér líður vel og er jákvæð og glaðleg, sem hefur mikið að segja upp á útlit og heilsu! Langalangömmubörnin eru orðin fjögur og langömmubörnin tuttugu og tvö. Ég er því afskaplega rík.

Hildur dóttir mín býr á Akureyri, Stefán er Hafnarfirði, Ágústa í Michigan í Bandaríkjunum en Þór Jens missti ég árið 2012. Hann varð bráðkvaddur heima hjá sér á Kjalarnesi. Það var gríðarþungt og mikið högg en lífið heldur áfram.

Skilaðu góðri kveðju heim í Svarfaðardal.“

IMG_0008

Gunnar og Sigurlaug á Húsabakkaárunum. Myndin birtist í Norðurslóð.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s