Dekurtré Dalvíkinga afskrýtt jóladressi

Staðlað

IMG_2657Jólahátíð á Íslandi var formlega slitið í morgun þegar Dalvíkurtréð í Heiðmörk var fært úr skrúðanum. Nú er það aftur orðið hvunndagstré í skóginum. Íslendingar hafa nú vanist því að jólin komi og fari með skrautinu á dekurtré Heiðmerkur. Huggun harmi gegn er að jólin koma aftur, oftast nær.

Gönguklúbburinn Sporið er verndari trésins og sá um að pakka saman jólunum. Praktískt væri reyndar að hafa þar innanborðs að minnta kosti einn úr söfnuði rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi því jólin þar á bæ hefjast ekki fyrr en 6. janúar. Pistilskrifari kom einu sinni til Þingeyrar seint í janúar og þorpið var baðið í jólaljósum eins og aðfangadagur væri. Þingeyringar svöruðu því til að í fiskvinnsluhúsum þeirra störfuðu Rússar og þeim til heiðurs væru jólin framlengd út janúar. Það þótti Íslendingunum hreint ekki leiðinleg tilbreyting.

Ef leiðir Sporsins og rétttrúnaðarkirkjunnar lægju saman yrði skrautið hangandi á Dalvíkurtrénu þeim mun lengur en því er bara ekki að heilsa. Dalvíkingar eru enda ekki þekktir fyrir að vera sérlega rétttrúaðir, alla vega ekki Böggvistaðaættin, hryggjarstykki Sporsins.

Göngufærið í Heiðmörk var ekki með besta móti í morgun en heldur ekki með versta móti. Mannbroddar eru staðalbúnaður á tímum þegar stígarnir eru lagðir hjarni og svelli.

Veðrið var eins og best getur verið til útivistar að vetrarlagi, kyrrt, milt og stjörnubjart. Máninn hátt á himni skein – ekki. Það sást ekki svo mikið sem tíra ljóss á himni þar sem tunglið hékk í alheimshvelfingunni. Við gáfum okkur að minnsta kosti að tunglið væri á sínum stað. Enginn stelur því sporlaust og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur auk heldur í öðru að snúast nú um stundir en að rannsaka sakamál með himinskautum.

Hópurinn í brauðhúsinu Grafarholtshæða að loknu dagsverki í Heiðmörk: Atli Rúnar, Kristín, Sigurlína, Jón, Guðrún Marínós, Þorsteinn, Guðrún Valtýs, Valgerður, Haukur og Markús. Myndina tók kona sem snaraðist inn í brauðhúsið og bauð sig fram sem ljósmyndara. Hún skilaði verki fagmannlega enda kom í ljós að hún er sonardóttir Óskars Gíslasonar, ljósmyndara og frumkvöðuls i kvikmyndagerð á Íslandi. Óskar gerði til dæmis kvikmynina Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra og það átti því vel við að afabarnið hans festi afkomendur bræðranna á Bakka á mynd. Ævintýrin gerast enn.

Hópurinn í brauðhúsinu Grafarholtshæða að loknu dagsverki í Heiðmörk: Atli Rúnar, Kristín, Sigurlína, Jón, Guðrún Marínós, Þorsteinn, Guðrún Valtýs, Valgerður, Haukur og Markús. Á myndina vantar Orra og Geisla hund. Sá fyrrnefndi var horfinn út í bæ að leita að jólahlaðborði, sá síðarnefndi fór í  meðferð (altsvo sálfræðilega aðhlynningu en ekki samt á Vogi). Myndina tók kona sem snaraðist inn í brauðhúsið og bauð sig fram sem ljósmyndara. Hún skilaði verki fagmannlega enda kom í ljós að hún er sonardóttir Óskars Gíslasonar, ljósmyndara og frumkvöðuls i kvikmyndagerð á Íslandi. Óskar gerði til dæmis kvikmyndina Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra og það átti vel við að afabarnið hans festi afkomendur bræðranna á Bakka á mynd. Ævintýrin gerast enn.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s