Marilyn Monroe kynni örugglega vel að meta bleikan málarahatt Jósavins frá Másstöðum, mætti hún mæla. Þau hittust af tilviljun í blokkaríbúð Þroskahjálpar í miðborg Reykjavíkur laust fyrir jól. Hún á vegg, hann á gólfi.
Monroe er samt ekki málið heldur líf á eftirlaunum, smíðar, hrossarækt, kvikkstepp og væntanlegur sumarbústaður sem rís af grunni í Grímsnesinu sumarið 2016.
Skíðdælingurinn Jósavin Helgason kom fyrir fínum GRAM ofni í eldhúsinnréttingu í íbúð í 101 Reykjavík korteri fyrir jól. Með honum var Dalvíkingurinn Gunnar Jónsson málarameistari – Gunni málari. Hann tjáði sig á Sýslinu í september 2014, þá starfandi sölumaður hjá Flügger litum í Hafnarfirði og stefndi að því að hætta fljótlega að vinna til að gerast eftirlaunamaður. Áform hans gengu eftir, svo langt sem þau ná. Allan septembermánuð í ár var Gunni heima á Dalvík að mála utanhúss með bróður sínum, Sigurgeiri (Góa) málarameistara. Í október hringdi Jósavin og fékk Gunna með sér í verkefni á höfuðborgarsvæðinu. Þeir hafa síðan þá sýslað fleira saman og sér auðheyrilega ekki fyrir enda samstarfsins.
Dagamunur með bleikju á borðum
Jósavin varð sjötugur núna 17. desember og hyggst draga sig í hlé frá starfi sínu í vor. Enginn trúir því annars sem sér manninn að hann eigi 70 ár að baki!
Marilyn Monroe hefði mátt þakka fyrir brot af æskuljóma Skíðdælingsins ef hún hefði náð sjötugsaldri en hún dó 36 ára, blessunin sú. Erfitt var samt að greina aldursmun þeirra við hittinginn í hundrað og einum Reykjavík, eins og meðfylgjandi mynd sýnir glöggt og sannar.
Sjötugsáfanganum var fagnað á hófstilltan hátt eins og hæfir hófstilltum iðnaðarmanni úr Skíðadal. Jósavin vann fullan vinnudag á afmælisdaginn og borðaði um kvöldið bleikju með Steinunni systur sinni, sem kom í tilefni dagsins í Mosfellsbæ heiman frá sér í Hveragerði.
Sumir fagna stórafmælum með margra daga veisluhöldum og tilstandi. Aðrir gera sér dagamun með steiktum vatnafiski á diski eina kvöldstund og lífið gengur annars sinn vanagang. Líklega er síðarnefnda fyrirkomulagið hollara fyrir líkama og sál þegar upp er staðið.
Gagnkvæm grannaaðstoð?
Gunni málari og Guðrún Ólafsdóttir eiga sumarbústað í Ásgarðslandi í Grímsnesi. Jósavin frá Másstöðum eignaðist lóð í Ásgarðslandi árið 2002 og hugðist hefjast handa fljótlega við að reisa þar sumarhús. Af því varð ekki af ýmsum ástæðum. Nú liggja framkvæmdir hins vegar í loftinu og meiri líkur en minni á að Gunnar hjálpi Jósavin við nýbygginguna og Jósavin hjálpi svo Gunnari að stækka sinn bústað.
Þetta gæti orðið gjöfull skiptibissness góðra granna í Grímsnesinu, granna sem þykjast ætla að setjast í helgan stein en sem vita fjandakornið ekkert um hvað rólegheit á eftirlaunum eru í raun og veru. Þeir kæra sig heldur ekkert um að kynnast slíkri tilveru fyrr en einhvern tíma seinna.
Lætur kauphækkun yfir sig ganga
Jósavin hefur starfað sem fjöliðnaðarmaður hjá landssamtökunum Þroskahjálp og Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra frá því árið 2000. Samtökin vantaði öflugan mann til að sinna fasteignum sínum og Dalvíkingurinn Atli Rafn Kristinsson, stjórnarmaður í Þroskahjálp, nefndi Jósavin á nafn í því sambandi á stjórnarfundi. Ákveðið var að láta reyna á samstarf sem varað hefur farsællega síðan þá.
Jósavin greindi framkvæmdastjóra Þroskahjálpar samviskusamlega frá því strax á fyrsta fundi að hann gæti gert eitt og annað en hefði ekki fagréttindi til neins. „Við leitum að manni en ekki réttindum,“ svaraði þá framkvæmdastjórinn.
Þar með fann Þroskahjálp í raun marga fagmenn í einum og sama kroppi því Jósavin vinnur jöfnum höndum sem sjálfstæður verktaki við smíðar, múrverk, pípulagnir, rafmagn og húsamálun hjá Þroskahjálp og Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, einn síns liðs eða með öðrum verktökum. Hann hugðist hætta störfum fyrir þremur árum en féllst á að vera áfram en ekki lengur en til sjötugs. Nú er sjötugsafmælið sem sagt að baki og breytingar í sjónmáli fyrir mitt ár 2016.
„Mér var boðin rífleg kauphækkun fyrir að halda áfram og ætla að láta kaupauka yfir mig ganga! Samtökin ráða eftirmann í vetur og mér er fyrst og fremst ætlað að koma honum inn í starfið fyrir vorið. Svo þakka ég fyrir mig.“
Verkefnin bara koma
Áður en Jósavin flutti suður vann hann í byggingarvörudeild KEA á Akureyri. Hann kom til Reykjavíkur vorið 1997 og hugðist taka það rólega um sumarið en skyggnast síðan um bekki eftir vinnu um haustið í BYKO eða Húsamiðjunni. Til þess kom aldrei. Um sumarið fékk dyttaði hann að þakrennum og fleiru utan á húsi vinar síns við Flókagötu. Annar húseigandi við sögu götu sá til Skíðdælingsins og vildi ólmur fá hann til að dytta að sinni fasteign líka.
Á skömmum tíma sópuðust að verkefnin og Jósavin hafði nóg við að vera án þess að biðja nokkurn mann um vinnu og hefur enn.
Stúderar dans og semur spor
Skíðdælingurinn stússaði í hestum og við hesta frá 1963 þar til haustið 2015. Það þurfti að rifa seglin í tilverunni. Hann stóð frammi fyrir því að draga úr vinnu til að halda áfram í hrossum eða hætta í hrossum til að halda áfram að smíða af krafti. Síðari kosturinn varð ofan á. Þetta var stórt skref og ekki auðvelt að taka því hann hafði til dæmis stundað hrossaræktun áratugum saman út frá meri frá Auðnum í Öxnadal sem amma hans gaf honum að loknu námi í bændaskólanum að Hvanneyri.
Svo er maðurinn mikill áhugamaður um dans og dansar einu sinni til tvisvar í viku.
„Ég dansaði bara eins og hver annar á Slægjunum á Þinghúsinu, réttarballinu á Höfða og öðrum samkomum í Svarfaðardal. Ætli áhuginn hafi ekki kviknað í Húsabakkaskóla forðum daga þegar Þuríður Árnadóttir, eiginkona Júlíusar J. Daníelssonar í Syðra-Garðshorni, fór að kenna okkur dans. Ég komst meira að segja svo langt að sýna þjóðdansa á þorrablóti í Svarfaðardal með Grétu Arngrímsdóttur á Sandá.
Hér syðra ákvað ég að fara lengra með þetta og var um skeið í Dansskóla Heiðars Ástvaldssonar og hjá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur til þess annars vegar að læra samkvæmisdansa og hins vegar gömlu dansana. Það atvikaðist svo að ég dansaði mest við aðstoðardanskennarana í skóla Heiðars og þá fór mér eðlilega meira fram en ýmsum öðrum!“
Fastur dansfélagi Jósavins hin síðari ár er Rakel Káradóttir, uppalin á Nípá í Köldukinn. Hún hafði áður dansað við smið sem forðaði sér í atvinnuleit til Noregs eftir efnahagshrunið og skildi hana eftir herralausa. Jósavin hafði hins vegar meira en nóg að gera í smíðunum eftir hrun og þurfti hreint ekki á því að halda að flýja land. Þau Rakel urðu fljótlega dansfélagar og eru enn.
Áhugi Jósavins á danslistinni er reyndar slíkur að hann hefur samið ný dansspor, svo eftir er tekið. Þau Rakel voru til dæmis spurð um það hvar þau hefðu lært ákveðin spor í dansinum kvikkstepp sem reyndir kvikksteppdansarar könnuðust alls ekki við úr fræðunum. Þetta reyndust þá vera frumsamin dansspor af Másstaðakyni.
Sporin tekin í Grímsnesi?
Sýslinu er ókunnugt um hvað Gunni málari kann fyrir sér á dansgólfi en þeir félagar hafa örugglega burði til að bæta einhverju nýju við í kvikksteppið í smíðapásum í Grímsnesinu í sumar, Gunni með derhúfuna og Jósavin pottlokið sem hann keypti forðum í Kanada með það í huga að hann yrði fyrsti og eini iðnaðarmaður íslenska lýðveldisins sem gengi með bleikt höfuðfat.
Jósavin er trúlega einn um að bera bleikan koll við störf sín í iðnaðarsamfélaginu en alveg örugglega eini iðnaðarmaðurinn á ízl Íslandi sem notar frístundir sínar meðal annars til að semja ný spor í samkvæmisdönsum.