Þorláksblót og fagurt fólk

Staðlað

Þórólfur Lokavert á hlaupum með skötubakkana fram og aftur …

Þorláksmessustemningin klikkar ekki. Sérkennilegur unaður fylgir þessum degi og þarf ekki skötu til. Jafnvel ekki snafs heldur.

Í Múlakaffi var mannmargt í hádeginu en samt ekki eins og búast hefði mátt við. Staðarhaldarinn þar á bæ kvaðst nefnilega í blaðaviðtali hafa selt þúsund manns skötu þar í fyrra og enn fleiri kæmu í ár. Óvíst er að það standist en hann fer samt hvorki í Þorláks- né jólaköttinn í ár. Harmóníkuleikari setti svip á samkomuna með ljúfum tónum.

Múlakaffi er ekki mikið meira en þokkalega stórt og þrifalegt mötuneyti. Skötumáltíðin í dag kostaði 3.500 krónur. Það fer langt í að jafngilda ráni um hábjartan dag.

Á efri hæð Kaffi Loka var Svarfdælingapartí, flestir í skötu en aðrir kusu frekar aðventuplatta vertanna, Hrannar & Þórólfs, og urðu ekki sviknir af honum frekar en skötunni. Plattarnir á Loka eru næg ástæða til að sækja í þá úr fjarlægum borgarhverfum, jafnvel úr öðrum landshlutum. Svo er hægt að fá sérmerktan Lokabjór frá Kalda og staðurinn fær prik fyrir það líka.

Bæjarrúntinum lauk í Seljahlíð, í stofu hjá Júlíusi J. Daníelssyni, höfðingjanum frá Syðra-Garðshorni. Sýslari lagði þar á borð með sér væna flís af margreyktum sauð af Grundarbúinu í Svarfaðardal, alveg unaðslega góða og vel heppnaða vöru. Öl fylgdi með og fingurbjörg af þýsku eðalbrennivíni.

Þarna var langlengsta stopp dagsins, skálað og sagðar sögur. Í fjögurfréttum RÚV á heimleið var getið um að Þorlákur helgi hefði verið svo heilagur að hann notaði ekki vatn til annars en að skola framan úr sér kvölds og morgna. Drakk aldrei vatn, bara vín og brúkaði vín til munnskolunar. Þar er vissulega býsna langt gengið en biskupar komast víst upp með flest.

Í Seljahlíð er drukkið vatn af og til en ekki í dag í tilefni Þorláksblóts.

Stundin með Júlíusi Dan var  afar ljúf sem fyrr. Hann bað fyrir góðar kveðjur í tilefni Þorláksmessu og jóla. Þeim er hér með komið á framfæri.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s