
Haukur Már Hergeirsson í BYKO seldi Sýslara jólastjörnu svo hann yrði maður með mönnum í blokkinni við Hrísalund.
(Forystugrein blaðs Kaupmannafélags Akureyrar og Athygli í desember 2015)
Gott er að dvelja um hríð á Akureyri í nóvembermánuði. Akureyringar eru jólafyrirburar og ræsa aðventuhreyflana þremur vikum fyrr en höfuðborgarbúar. Það er notalegt. Þegar ég kom í blokkaríbúðina blasti við ljósaskreyting í öllum gluggum í stigauppgangi og lýsandi gervitré í forstofu.
Ég fór beint í BYKO og keypti jólastjörnu til að hafa í eldhúsglugganum. Þá varð ég maður með mönnum við Hrísalund. Í hverfinu mínu fyrir sunnan bólaði hvergi á aðventu á sama tíma.
Notalegt var líka að hafa fólk með verksvit á gatnamáladeild Akureyrarbæjar þegar frysti og götur urðu flughálar. Þá dreifðu bæjarstarfsmenn sandi í hvelli á ökuleiðir í brekkum og beygjum en létu beina hallalausa kafla eiga sig í bili. Borgarstarfsmenn Reykjavíkur virðast fátt annað gatnakrydd þekkja en salt og ausa því ótæpilega á strætin í öllum veðrum, meira að segja í rigningu og snjókomu.
Í Svarfaðardal var talað um fæðingarhálfvita við ákveðin tækifæri. Reyndar áttaði ég aldrei almennilega á því hvað þyrfti að gera eða afreka til að komast í þann hóp en þessi nafnbót kemur stundum upp í hugann þegar ég sé borgarstarfsmenn salta snjó.
Manni á Tungufelli hafði sérstakt tungutak við að lýsa sveitungum sínum sem ekki voru eins og fólk flest. Hann sagði að þeir hefðu fæðst fyrir tímann og aldrei komist inn á réttan tíma aftur. Saltendur í borgarkerfinu eru ekki á réttum tíma lífsklukkunnar. Akureyringar krydda hins vegar sitt malbik með sandi. Þeir eru með rétta klukku.
Morgunumræður í Sundlaug Akureyrar eru fjölbreyttari en gerist í Salalaug í Kópavogi. Syðra gengur þetta mikið út á fyrirsjáanlegt nudd um pólitík. Í Akureyrarlauginni veltu menn því til dæmis fyrir sér á föstudaginn var hvenær bændur tækju hrúta í hús til að dekra við þá og efla í þeim gredduna fyrir tilhleypingar. Gamall bóndi í heita pottinum sagði að miðað hefði verið við 5. nóvember í sinni sveit. Ég kom af fjöllum og sagði að hrútar í Svarfaðardal væru alltaf reiðubúnir til góðra verka. Þeir hefðu ekki fæðst fyrir tímann og yrðu ekki graðir eftir dagatali.
Herðatré er ekki finnanlegt í neinum skáp í Salalaug. Ég nota skáp númer 157 í Akureyrarlaug. Þar er herðatré.
Jólafyrirburar, sandkryddað malbik og herðatré í sundlaug nægir mér til að hlakka til næstu Akureyrarferðar.