Bjór og rafmagn á jólanótt

Staðlað
Rannveig og Jón á Jarðbrú í stofu sinni á jólum.

Rannveig og Jón á Jarðbrú í stofu sinni á jólum. Ingibjörg til hægri og Atli Rúnar til vinstri.

(Minningarbrot frá Jarðbrú – birtust í DB blaðinu á Dalvík í desember 2015)

Rafmagn kom fyrst upp í hugann þegar Halldór Ingi ritstjóri bað mig að rifja eitthvað upp frá aðfangadagskvöldi á Jarðbrú.

Rafmagn! Við fengum það heimsent frá Laxárvirkjun árið um kring en hún var svo viðkvæm og veikburða í minningunni að á henni slokknaði jafnan þegar mest lá við í heimilishaldi eða við bústörfin. Þá þurfti að handmjólka kýr, virkja prímusa til matargerðar og kerti til lýsingar.

Prímusamatur gaf hinum rafeldaða ekkert eftir en handmjaltatími jafngilti martröð, ekki síst á jólum. Það mátti næstum því fyrirgefa Laxárvirkjun í illviðri að vetrarlagi. Minnsti íshraglandi á yfirborði lónsins stóð í vélum hennar eins og illa tugginn munnbiti í koki manns. Við því var ekkert að gera annað en handmjólka í rökkrinu þar til vaskir menn fengu virkjunina til að draga anda á ný. Alltaf tókst það á endanum en gat tekið langan tíma, skelfilega langan og jafnvel fjóstíma eftir fjóstíma.

Þegar jólin flæddu yfir dalinn klukkan sex stundi Laxárvirkjun nær undantekningarlaust og hikstaði ár eftir ár vegna álags. Árviss viðburður í hádegisfréttum aðfangadagsins var að hvetja landsmenn til að dreifa orkuálaginu og elda jólamatinn með fyrra fallinu. Það gerðist bara ekki. Við höfðum til dæmis Dalvíkinga grunaða um að stuðla að rafmagnsleysi með því að drattast ekki að eldavélunum fyrr en eftir að allt var orðið heilagt og stíft.

Jólaspenningurinn á Jarðbrú fólst aðallega í biðinni eftir því að sjá hvar við stæðum í fjósbæninni þegar jólin brystu á og Laxárvirkjun færi yfir um af yfirspennu. Fyrir kom að mjöltum var lokið eða þær langt komnar. Fyrir kom líka að við vorum í miðju kafi. Laxárvirkjun tók aldrei tillit til þess hvernig stóð á fjósverkum á Jarðbrú.

Svo kom fyrir að rafmagnslaust varð á Jarðbrú á aðfangadagskvöld án þess að hægt væri að kenna Laxárvirkjun um að neinu leyti. Eitt sinn brann eitthvað yfir í rafmagnstöflu í kjallaranum og pabbi hringdi í Helga Indriða, rafvirkjann tónvísa sem alltaf var skemmtilegur og góður gestur heimafólks. Þetta var löngu fyrir tíma jólabjórs Kalda en á Jarðbrú var til nóg af bjór fyrir jól, eftir jól og allt þar á milli. Það vissi rafvirkinn en spurði samt til öryggis hvort nokkur þurrð væri í brugghúsinu. Pabbi hélt nú ekki og Helgi kvaðst þá koma fyrr en síðar. Aðfangadagskvöld væru hvort eð er ekki sérlega skemmtilegur tími. Svo renndi hann í hlað, kom rafmagnsmálum heimilisins í lag og fékk hann verkalaunin sín fljótandi, bæði á vettvangi og í nestið.

Helgi rafvirki sat lengi, lengi og sagðist vilja vera alveg öruggur um að viðgerðin hefði heppnast. Það gekk á drykkjarlagerinn. Loks sýndi hann á sér fararsnið en tók fram að í sig ætti endilega hringja aftur ef eitthvað klikkaði í rafkerfinu á jólanótt eða jóladag. Tók fram að skilnaði að notalegra aðfangadagskvöld hefði hann nú bara ekki upplifað um árabil. „Segjum þrír,“ sögðum við pabbi. Ingibjörg ættmóðir tók ekki undir þá umsögn og því síður yngstu systkinin. Rafmagnsleysi og ölsmakkið hafði sett hefðbundið jólahald úr skorðum meira en börnum fannst heppilegt.

Betri umsögn fékk bjórbruggun frumburðar Jarðbrúarhjóna ekki, hvorki fyrr né síðar. Ólíklegt er að Jólakaldi myndi hreyfa við nokkrum rafvirkja á Íslandi aðfangadagskvöldi nú um stundir þótt góður sé og áhrifaríkur. Heimabruggað Jarðbrúaröl flutti hins vegar bæði fjöll og rafvirkja.

Ég bruggaði í eldhúsi Rannveigar ömmu í gamla húshlutanum. Einhver bræðra minna laug í hana að þessi iðja væri kolólög. Hjörtur hreppsstjóri á Tjörn myndi kalla hana til yfirheyrslu og jafnvel hneppa í varðhald ef upp kæmist. Hún ætti augljósan hlut að brotastarfsemi og væri meðsek sem eigandi eldhússins.

Amma var veðurhrædd, það vissi ég. Nú varð hún brugghrædd líka. Eftir því tók ég og skildi ekki. Áður hafði hún jafnan verið vinsamleg brugguninni en viðmótið breyttist greinilega. Ég vissi ekki hvers kyns var fyrr en síðar. Þá leit ég inn í eldhúsið hennar til að fylgjast með gangi framleiðslunnar. Bruggkútarnir voru horfnir undir þykkt rúmteppi og átöppunargræjur komnar niður í kjallara, á bak við stóru sláturtunnuna.

Hjörtur hreppstjóri hafði komið í heimsókn og mætti beint í hitt eldhúsið til að fá sér kaffi og spjalla. Sjónarvottar sögðu að Rannveig amma hefði þá sprottið upp og rokið sem píla á flugi inn í eldhúsið sitt í gamla húsinu. Hún vildi hylja bruggslóðina ef Tjarnarbóndinn tæki upp á því að fara víðar um húsið óboðinn. Amma slapp fyrir horn.

Steikarsósa með rauðvíni sem íblöndunarefni var óþekkt fyrirbæri á Jarðbrú árið um kring og allra síst á jólum. Ingibjörg ættmóðir ólst enda upp á kristilegu heimili í Ólafsfirði og ég efast um að Rannveig og Jón á Jarðbrú hafi vitað meira um rauðvín en það sem þau lásu í bókum og blöðum um góss úr frönskum duggum eftir strand á söndunum fyrir sunnan.

Stína á Bakka brúkaði hins vegar rauðvín í sósu á aðfangadagskvöld. Það man ég eins og gerst hafi í gær. Fyrir mér átti eitt sinn að liggja að ganga til innkaupa í Ríkinu á Akureyri skömmu fyrir jól á samt Hirti á Bakka. Hann keypti þrjár bokkur af vodka handa sér og hálfa Torres Spánarrauðvín handa mömmu til sósugerðar. Þar með gátu jólin komið frænku minnar vegna.

Sjálfur keypti ég Torres í Vínbúðinni í Skeifunni á dögunum, reyndar heila flösku en ekki hálfa eins og Hjörtur hefði gert. Merkimiðinn minnti mig á jól, steikarsósu og Stínu á Bakka, matgæðinginn ljúfa og brosmilda.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s