Útför Jóhanns Daníelssonar var jafnframt söngveisla og átti vel við hinn eina og sanna bóhem frá Syðra-Garðshorni, eins og séra Magnús G. Gunnarsson réttilega kallaði hann í minningarorðum sínum.
Erfidrykkjan að Rimum í Svarfaðardal var engu lík af því taginu. Gleðimannsins var minnst með því að skála í vodka og Kalda. Svo var auðvitað sungið og sungið.
Kristjana Arngríms á Tjörn söng einsöng við athöfnina, sama gerðu líka Kór Dalvíkurkirkju, Karlakór Dalvíkur og karlaraddir úr Dalvíkurbyggð. Heiðursfélagi Karlakórs Dalvíkur var kvaddur með veisluhöldum í miklum og góðum söng.
Sérlega áhrifaríkt var að hlýða á Við fjallavötnin fagurblá og rifja upp í leiðinni magnað atriði í Landi og sonum þegar söngur Jóhanns Dan við Skeiðsvatn bergmálaði um allan fjallasalinn.
Séra Magnúsi mæltist afar vel í minningarorðunum. Hann sagði meðal annars sögu af Jóhanni þegar hann kom í hús og húsráðandi vildi færa honum eitthvað að drekka. Hann bauð gestinum að velja um kaffi, kók eða bjór. „Nú seturðu mig í vanda,“ svaraði Daníelsson. „Kaffi er ég nýbúinn að drekka og kók drekk ég aldrei. Ætl’ég neyðist ekki til að þiggja bjórinn!“
Frostið beit í kinnar þegar komið var í kirkjugarðinn. Svarfaðardalur blasti við í fínasta vetrarskrúða og kvaddi einn af bestu sonum sínum með sólstöfum á himni handan Stólsins.
Fallegra gat kveðjustundin ekki orðið og kór karla, söngfélagar Jóhanns til áratuga, sungu að skilnaði óð Hjalta Haraldssonar í Ytra-Garðshorni, til sveitarinnar, „Svarfaðardalur kæri ég kveðju sendi þér …“
Á Rimum komu kirkjugestir síðan saman að athöfn lokinni til að gleðjast, já einmitt, gleðjast! Sorg og sút var ekki á dagskrá heldur var stórsöngvarans minnst á þann eina hátt sem hann hefði kosið sjálfur. Þar var borðað, skálað, sungið og spjallað.
Nokkrir kvöddu sér hljóðs og verður ekki á neinn hallað þótt nefndur sé sérstaklega til sögu Björn Daníelsson frá Syðra-Garðshorni, bróðir Jóhanns. Hann fór gjörsamlega á kostum í lýsingum á ferðalagi með bróður sínum til Moskvu.
- Þetta var gaman og rúmlega það. Far vel, Jóhann Daníelsson.
Við fjallavötnin fagurblá
er friður, tign og ró;
í flötinn mæta fjöllin há
með fannir, klappir, skóg.
Þar líða álftir langt í geim
með ljúfum söngvaklið
og lindir ótal ljóða glatt
í ljósrar nætur frið.