Ljúfmennisins frá Syðra-Garðshorni, Jóhanns Daníelssonar, var minnst við hátíðlega athöfn í Seljahlíð, heimili aldraðra í Reykjavík, í dag. Það var þriggja klukkustunda verkefni og hver mínúta minningarþrungin og eftirminnileg.
Jarðbrúarbræðurnir Atli Rúnar og Jón Baldvin Halldórssynir tóku hús á Júlíusi Jóni Daníelssyni til að minnast Jóhanns og eiga saman notalega minningarstund.
Upphaflega átti að bera Jóhann, bróður Júlíusar, til grafar á Dalvík dag en útförinni var frestað vegna veðurs og ófærðar. Ákveðið var hins vegar að hreyfa ekkert við minningarstundinni. Hún verður í minnum höfð lengi lengi.
Þremenningarnir voru reyndar sannfærðir um það frá fyrstu mínútu að fjórði maður væri í samkvæminu þótt sýndi sig ekki nema sem ljúfamannleg nálægð, nefnilega Jóhann heitinn stórsöngvari sjálfur. Blessuð sé minning hans um aldir alda.
Fyrsta klukkustund samkomunnar var í raun hápunkturinn. Atli Rúnar sýndi þá brot úr myndbandsupptökum Jóhanns Daníelssonar úr Svarfaðardal, af Dalvík, Akureyri, frá Osló og Kaupmannahöfn frá því á árabilinu 1958-1960 eða nálægt því. Þessar perlur hafði Júlíus aldrei séð.
Dalvíkingurinn Haukur Sigvaldason hefur undanfarin ár verið á vappi að safna að sér myndefni frá Dalvík vegna heimildarmyndar um sjóslysin miklu 1963. Jóhann Daníelsson heyrði af þessu brölti Hauks, hafði samband við hann og kvaðst eiga eitthvað af upptökum frá Dalvík sem hann mætti skoða og nota eins og hann vildi í verkefnið.
Haukur afritaði myndbönd Jóhanns og fann þar áhugavert efni fyrir sig en líka ýmislegt fleira sem hann vissi minna um en taldi að Atli Rúnar hefði frekar áhuga á. Það voru einkum upptökur úr Svarfaðardal.
Fyrir fáeinum dögum fékk Atli Rúnar afrit af hluta þessa efnis Jóhanns Daníelssonar til að sýna bróður Júlíusi í dag. Skemmst er frá að segja að sú sýning sló í gegn enda sjaldgæft eða einstakt myndefni! Júlíus dáðist ekki síst að því hve myndarlegur og góður dansherra hann hefði verið á yngri árum. Sönnunargögn um hvoru tveggja varðveitast til eilífðar í upptökum Jóhanns.
Að því búnu rifjaði Júlíus upp nokkur minningarbrot um bróður sinn til að Svarfdælasýsl gæti birt og kvatt þennan merka sveitunga sinn eins og hann á skilið.
Jóhann Daníelsson var einstakur maður og því varð að minnast hans á sérstakan hátt í mat og drykk við minningarstundina.
- Réttur I
- reyktur áll, veiddur í tjörn við Þórkötlustaði í Grindavík, verkaður og reyktur af Kjartani heitnum Sægreifa. Hann arfleiddi Svarfdælasýsl. Í erfðaskrá er tekið fram að álinn megi einungis bjóða sérvöldum höfðingjum eða borða í minningu sérstakra höfðingja. Það átti tvöfalt við í dag.
- Réttur II
- kryddpylsur og lifrarkæfa, framleitt af pólskum innflytjendum á Íslandi.
- Sænskt ákavíti.
- Kaldi jólaöl.
Megi minningin um Jóhann Dan lengi lifa lengi lengi. Skál í minningu hans og anda.
Júlíus kveðst viss um að Ríkharður Gestsson – Íddi í Bakkagerði og Villi Þórs á Bakka hafi tekið á móti Jóhanni bróður sínum í Gullna hliðinu og boðið honum umsvifalaust í brússpil með Hjalta og Jóhannesi í Ytra-Garðshorni og fleiri góðum mönnum.
Júlíus samdi sjálfur við Ríkharð um að taka á móti sér í hliðinu þegar þar að kæmi og veit að Íddi stendur við sinn hluta samningsins. Það gerði hann alltaf.
Svarfdælingar halda sem sagt uppi fjöri með brússpilamennsku, dansi, dufli og söng í himnaríki. Gott að fá það staðfest hjá þeim sem sambönd hafa. Hver kvíðir vistaskipum þegar þetta liggur ljóst fyrir?