María Arngrímsdóttir frá Hjaltastöðum/Hreiðarsstaðakoti var fædd og uppalinn í Skarði, torfbæ í Glerárþorpi sem rifinn var á árinu 1959. Við bæinn er gatan Skarðshlíð kennd.
Rósa Guðjónsdóttir fylgdi Sýslinu um Þorpið og vitjaði róta sinna.
Brot úr skorsteininum á Skarði og grónar rústir er hið eina sem eftir er og sjáanlegt af bænum. Bæjarstæðið er fagurt og gott útsýni yfir innanverðan Eyjafjörð og Glerárþorp en þar hefur ekki verið byggt, klappirnar fá að njóta sín óhreyfðar.
Rósa frá Hreiðarsstöðum/Hjaltastöðum segir að Skarð hljóti að hafa verið einn síðasti torfbærinn í Þorpinu þegar hann var rifinn 1959. Þarna bjuggu sem sagt Arngrímur Sigurjónsson og Elín Gissurardóttir, foreldrar Maríu Sigurlínu Arngrímsdóttur, sem flutti úr Skarði í Skíðadal og giftist Guðjóni Steingrímssyni á Hjaltastöðum 1947.
Í öðrum bæ í Glerárþorpi, Sandgerði, bjó föðursystir Guðjóns, Jónína Sigurðardóttir – Jonna, og þar dvaldi Guðjón á Hjaltastöðum þegar hann var um hríð á Akureyri og vann á Sambandsverksmiðjunum við Glerá. Þar kynntust María og Guðjón. Þau áttu bæði fjölda skyldmenna víða í Glerárþorpi.
Sandgerði er einlyft steinhús, byggt árið 1923. Það stendur á öndvegisstað skammt frá Krossanesbraut með útsýni yfir Sandgerðisbótina, sem við húsið er kennd.
Núna búa í Sandgerði Sigrún Arnþórsdóttir – Rúna, dóttir Jonnu, og Aðalgeir Guðmundsson fyrrum sjómaður og síðar næturvörður í Slippnum. Hann er dverghagur og smíðaði meðal annars stórt líkan af Kaldbaki EA-1, síðutogara sem gerður var út frá Akureyri um árabil.
- Fjögurra fórnarlamba snjóflóða í Skíðadal og Svarfaðardal verður minnst í Dalvíkurkirkju á laugardaginn kemur, 14. nóvember kl. 11, þar á meðal Guðjóns á Hjaltastöðum.