Þúsundir fara á skeljarnar frammi fyrir Gesti Árskóg

Staðlað

Menn fara á skeljarnar fyrir framan Gest Jóhannes Árskóg oft á dag og hann lætur sér vel líka, enda er það lifibrauðið hans að koma sem flestum á skeljar. Það hefur nákvæmlega ekkert með bónorð og hjónaband að gera heldur hálku og ófærð.

Þekkt er að vísu að þungfært geti verið í hjónaböndum en þá dugar tæplega að skipta um dekk undir heimilisbílnum og láta við svo búið standa að öðru leyti.

Dalvíkingurinn Gestur Árskóg er stöðvarstjóri hjá Nesdekkjum, dekkjaverkstæði Bílabúðar Benna við Tangarhöfða í Reykjavík. Sveitungum hans líður því eins og heima hjá sér þar á bæ þegar springur undir bílnum eða þarf að skipta um túttur að vori eða hausti svo þær hæfi árstíðum.

„Ég vann hjá Gúmmívinnslunni á Akureyri og skrapp suður árið 2007 til að leysa hér af í hálfan mánuð.

Gúmmívinnslan átti þá þetta rótgróna dekkjaverkstæði til áratuga. Það hét Höfðadekk þá, síðar Nesdekk.

Afleysingavinnan lengdist stöðugt í annan endann en ég hugsaði mér til hreyfings norður aftur í febrúar 2012 þegar Bílabúð Benna tók við rekstrinum. Benni (Benedikt Eyjólfsson) setti hins vegar inn í smáaletur samninganna að ég ætti að fylgja með í kaupunum. Hann tók ekki annað í mál og hér er ég enn.

Það er alls ekki sjálfgefið að vinna á sama staðnum ár eftir ár en hjá þessu fyrirtæki er einstaklega gott að vera. Hér eru úrvals starfsmenn og viðskiptavinirnir kunna greinilega að meta það sem við seljum og gerum, annars myndi þeim ekki fjölga svona statt og stöðugt!“

Byrjaði að sýsla í dekkjum strákpolli á Dalvík

Jóhannes Árskóg, faðir Gests, rak bílaverkstæði á Dalvík um árabil og Gestur fór strax sem strákpolli að sýsla þar við vélar, bíla og hjólbarða. Síðar eignaðist hann verkstæðið og rak um hríð en gerði jafnframt út vörubíl í þjónustu á vegum Samskipa. Að því kom að hann flutti til Akureyrar og gerðist starfsmaður Gúmmívinnslunnar. Vélvirki ehf. á og rekur núna verkstæðið á Dalvík sem áður var kennt við feðgana Árskóg.

Bílabúð Benna er engin smásjoppa í bransanum heldur stórveldi með rekstur í mörgum húsum á Árstúnshöfða í Reykjavík, í Garðabæ og víðar. Þar eru seldir nýir bílar og notaðir, rekið bílaverkstæði og dekkjaverkstæði með tilheyrandi þjónustu. Fyrirtækið er að reisa hús yfir höfuðstöðvar sínar við Krókháls í Reykjavík en svo mikil eru umsvifin að nýja húsið er eiginlega orðið of lítið áður en það er tekið í gagnið!

Gestur er kóngur í sínu dekkjaríki og kann sitt fag upp á tíu fingur. Þjónusta hans og annarra starfsmanna Nesdekkja er líka rómuð og jafngildir miklum bissness. Þegar Sýslið var á vettvangi sigldi til dæmis stærðarinnar MAN vörubíll með krana drynjandi upp að dekkjaverkstæðinu og út snaraðist Hallur K. Illugason, eigandi og bílstjóri. Hann hafði fengið nagla í dekk.

Ekki þurfti að þrefa um það. Gestur setti tvo menn í verkefnið í hvelli og Hallur beið. Hvers vegna kom hann þangað? Hallur leit næstum því með meðaumkun á spyrilinn og svaraði því sem átti að liggja í augum uppi: „Hér er besta þjónustan í dekkjum! Ef ég þarf eitthvað fyrir dekk að gera kem ég hingað, sama hvar ég er staddur á höfuðborgarsvæðinu.“

Greinilega óþarft að ræða málið frekar og undrafljótir voru drengirnir hans Gests að koma dekkinu undan MANinum hans Hall í lag.

Förum á skeljar og treystum vor heit

IMG_2467Svo fór Gestur að sýna Sýslara dekk af ýmsu tagi og staldraði hvað lengst við þau sem hann selur mest af, Toyo frá Japan. Hann hefur þau undir eigin bíl og það eitt telst til meðmæla. Bílabúð Benna er með umboð fyrir Toyo og flytur dekkin inn. Þeir sem vilja gott grip að vetrarlagi en kæra sig ekki um nagladekk staldra til dæmis við harðskeljadekkin frá Toyo. Árskóg er sölumaður góður og sannfærandi í betra lagi.

„Þetta er vara sem mælir með sér sjálf, ég hef þar engu við að bæta. Í gúmmíinu eru brot úr valhnotuskel, næstharðasta efni náttúrunnar á eftir demanti. Sjálft gúmmíið er með íblönduðu efni til að halda dekkjunum stöðugt mjúkum, sama hve frost er mikið og bítandi.

Þessi dekk svíkja hvorki Svarfdælinga né aðra. Farðu á skeljarnar og vertu sæll að sinni.“

Kátir sveinar í afgreiðslu Nesdekkja: Gestur Jóhannes Árskóg stöðvarstóri og Daníel Terrazas sölufulltrúi handan borðsins en Hallur, MAN-eigandi og fastur kúnni, framan borðs.

Kátir sveinar í afgreiðslu Nesdekkja: Gestur Jóhannes Árskóg stöðvarstóri og Daníel Terrazas sölufulltrúi handan borðsins en Hallur, MAN-eigandi og fastur kúnni, framan borðs.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s