Lögga, grúskari, söngfugl og spaugari frá Völlum

Staðlað

IMG_1812Hann heillaðist af söngnum og stúderaði sveitunga sína við messur í Vallakirkju, gerðist kennari unglinga og verðandi lögregluþjóna, grúskar, skrifar og smíðar.

Umræðuefni skortir ekki þegar tekið er hús á Gunnlaugi V. Snævarr – Gulla Valda, prestsyni frá Völlum í Svarfaðardal.

Gunnlaugur er „hættur að vinna“, kominn með öðrum orðum á hið virðulega eftirlaunaskeið ævinnar en er samt á kafi í vinnu. Hann sér varla út úr verkefnahaugnum og kann því bara ljómandi vel.

Dagana langa situr hann við tölvu í grúskherberginu sínu heima í Kópavogi og skráir upplýsingar um presta og kirkjur í gagnagrunn vefsins ismus.is, sem Árnastofnun og Íslenska tónlistarsafnið halda úti. Þann vef kallar hann „best varðveitta leyndarmál íslenskrar fræðimennsku“.

Á árinu 2016 kemur út bók eftir Gunnlaug um Jón Stefánsson kórstjóra og listalífið í Langholtskirkju, mikið verk sem hann hefur unnið að um árabil í tilefni sjötugsafmælis Jóns.

Svo er Gulli Valdi alltaf með hugann að einhverju leyti á slóðum uppruna síns, í Dalnum eina. Hann sankar að sér sögum um Svarfdælinga, upplýsingum og myndum til að halda til haga og birta eftir atvikum. Norðurslóð og lesendur hennar njóta góðs af, sagnaþáttur hans um Beggu gömlu hefur til dæmis birst þar í áföngum frá því í jólablaðinu 2014. Fleira í svipuðum dúr er auðheyrilega í pípunum, enda af nógu að taka.

Leiðin liggur svo út í bílskúr þegar litið er upp úr skrifum og grúski. Þar verða til ýmsir gripir úr tré í rennibekknum og þegar skammdegið nær völdum í vetur ætlar Gulli Valdi að taka fram gamalt langspil úr búi föður síns, séra Stefáns V. Snævarr, prófasts á Völlum, og flikka upp á það.

Þegar séra Stefán vígðist til Vallaprestakalls í júní 1941 var Jón Stefánsson, í Hjarðarholti við Dalvík, fyrsti organisti Vallakirkju. Hann smíðaði langspilið og gaf nýja prestinum sínum. Það fylgdi presti alla tíð og Gulla Valda eftir það.

Í vetur fær langspilið „andlitslyftingu“ í bílskúr í Kópavogi.

Munstraður í kór í náðhúsi Þjóðleikhússins

Nytjahlutir verða til á smíðaverkstæðinu í bílskúrnum!

Nytjahlutir verða til á smíðaverkstæðinu í bílskúrnum!

 „Ég ætla að skila handritinu um Jón Stefánsson nú fyrir lok árs. Textinn er í lokavinnslu og ég hef skannað um 900 myndir til að velja úr og nota í bókina. Jón er auðvitað tilefni skrifanna en bókin verður í raun byggða-, kirkju- og menningarsaga.

Þegar Jón var sex ára snáði í Mývatnssveit sátu menn á rökstólum á Hálogalandshæðinni í Reykjavík og spáðu í kirkjubyggingu. Þarna var þá eitt einasta hús en annars bara möl og mold sem varð að drullusvaði í rigningu!

Jón flutti úr gróinni, þingeyskri sveit á mölina syðra og hefur varið ævinni í tónlistar- og menningarstarf í Langholtskirkju. Saga hans er merkileg og ævistarfið allt, ég set hann hiklaust á stall með Páli Ísólfssyni og jafnvel skör ofar í ljósi ungmennaþjálfunar og áhrifa hans í kirkjulegu starfi.

Mér þótti athyglisvert að Jón vildi ekki draga neitt undan í bókinni, til dæmis er þar fjallað um Flókadeiluna miklu þegar þeir tókust harkalega á um starfs- og valdsvið sóknarprestsins, séra Flóki Kristinsson og Jón Stefánsson. Þarna varð mikill fjölmiðlahasar og við sögu komu líka sóknarnefndin, starfsmenn Langholtskirkju, biskupar og Prestafélag Íslands. Bolli Gústavsson vígslubiskup var skipaður sáttasemjari og birti í mars 1996 úrskurð sem Jón vildi una en prestur ekki. Geir Waage, formaður Prestafélagsins, studdi séra Flóka og var afar stóryrtur í viðtölum um Jón Stefánsson og úrskurð séra Bolla.

Leiðir okkar Jóns Stefánssonar lágu saman fljótlega eftir að Kór Langholtskirkju varð til. Ég söng fyrst við messu í Langholtskirkju vorið 1972 og var í kórnum í 28 ár, þar af nokkur ár sem formaður stjórnar kórsins. Fyrst þú spyrð hvernig það hafi atvikast að ég lenti í kórnum þá skal ég einfaldlega svara sannleikanum samkvæmt!

Ég kenndi á Sauðárkróki í einn vetur eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri. Haustið 1971 flutti ég suður og fór fljótlega í Þjóðleikhúskjallarann með góðum félögum. Við tókum lagið á karlaklósettunum, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þá bankaði í mig maður, sem ég ekki þekkti. Hann vildi leyfa kórstjóra sínum að heyra í mér hljóðin, sem sjálfsagt var. Sá reyndist vera sjálfur Garðar Cortes.

Á þessum stað og á þessari stundu var ég tekinn í karlakórinn Fóstbræður, fyrsti tenór, og boðaður á fyrstu æfingu næstkomandi mánudagskvöld.

Mál æxluðust þannig að ég ákvað að byrja á þarnæstu æfingu og fór þangað í strætó. Ég komst aldrei á leiðarenda af því mér tókst ekki að finna Fóstbræðraheimilið.

Á rangli um hverfið þarna um kvöldið lá leiðin fram hjá Langholtskirkju og þar rakst ég á Kristján Val Ingólfsson, núverandi vígslubiskup í Skálholti. Hann kvaðst vera á leið á kóræfingu hjá Jóni Stefánssyni. Ég ákvað bara að slást í för með honum og var í þeim félagsskap í nær þrjá áratugi!

Þegar komið var fram á 21. öldina hætti ég í Kór Langholtskirkju og lét þá verða af því að leita uppi Fóstbræðraheimilið. Ég gekk í Fóstbræður og hef sungið þar í 10 ár, frá 2005. Þar var ég kjörinn formaður kórsins og gengdi því í þrjú ár. Merkilegt að kórarnir sem ég geng í telja að ég sé best kominn í stjórnum þeirra!

Þarna dundaði ég mér meðal annars við að skrá eigur kórsins og færa allar upptökur, sem til voru á segulböndum, í stafrænt form til varðveislu. Kórinn verður aldargamall á næsta ári og þá verður mikið um dýrðir.“

Prestur með viðbjóð á konum

Gulli Valdi ræðumaður á árshátíð Samtaka Svarfdælinga í Reykjavík 1983.

Gulli Valdi ræðumaður á árshátíð Samtaka Svarfdælinga í Reykjavík 1983.

„Hitt stóra verkefnið sem ég fæst við snýst um gagnagrunn fyrir vefinn ismus.is. Þar skrái ég alla presta Íslandssögunnar frá upphafi, á að giska tíu þúsund manns, og tengi þá kirkjum. Teknar hafa verið myndir af öllum kirkjum landsins og tekin upp tóndæmi með öllum kirkjuorgelum landsins til að setja þarna inn.

Ég hef unnið að þessu verki undanfarin þrjú ár, bæði hér heima og mánuðum saman á Þjóðskjalasafninu með öðru grúski. Gæti trúað að eftir sé þriggja til fjögurra ára vinna. Ég byrjaði á Vopnafirði, fór suður og vestur um og var í gær staddur á Kirkjubóli í Langadal við Ísafjarðardjúp. Eftir eru Strandir og Norðurland.

Þegar hringurinn lokast fer ég annan hring til að bæta við gögnum og myndum í ljósi þess sem ég hef orðið áskynja og lært í aðferðafræðinni eftir að verkið komst vel á skrið.

Sitthvað er nú sérstakt við presta! Ætli níu af hverjum tíu hafi ekki verið hagmæltir og ýmis sérkenni höfðu þeir, margir hverjir. Til dæmis skrifaði ég um einn í gær sem hafði „óvenjulegan viðbjóð á konum“. Ég færði það samviskusamlega inn og sömuleiðis söguna um Snæfjalladrauginn, Bjarna Jónsson Bjarnasonar, prests á Snæfjöllum í Norður-Ísafjarðarsýslu á sextándu öld.

Bjarni varð úti í kafaldsbyl innan tvítugs, gekk aftur og skapaði usla á prestssetrinu afturgenginn, spillti húsgögnum og drap fénað föður síns en ekki fólk. Eitt sinn stal draugurinn harðfiski úr hjalli prests og sýslaði við ránsfeng sinn þegar bar að vinnumann á prestssetrinu. Sá spurði hvort draugsi vildi fá lánaðan hníf til að vinna á stolna fiskinum en draugur kvað nei við: „Dauður maður þarf ekki kníf, heldur stendur hann á og rífur!“

Barneignamál prestanna eru kapítuli út af fyrir sig. Þeir voru í algjöru bulli í þeim efnum og eignuðust börn út um allt. Þeirri hlið er gerð skil eins og unnt er og heimildir eru um.“

Gæslumaður á forsetaballi á Grundinni

Langspilið sem Jón í Hjarðarholti við Dalvík, fyrsti organisti Vallakirkju, gaf séra Stefáni Snævarr nývígðum presti á Völlum.

Langspilið sem Jón í Hjarðarholti við Dalvík, fyrsti organisti Vallakirkju, gaf séra Stefáni Snævarr nývígðum presti á Völlum.

Gulli Valdi lét af störfum sem yfirlögregluþjónn við Lögregluskóla ríkisins í mars 2014. Hann hafði þá starfað í lögreglunni samfellt frá 1971, fyrstu árin í sumarafleysingum á Dalvík og í rannsóknadeildinni á Akureyri en kenndi í Hagaskóla í Reykjavík á sumrin, til 1987 þegar hann gerðist lögreglumaður í fullu starfi árið um kring.

Hann lauk prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1974 og var í fyrsta árganginum sem útskrifaðist þaðan. Þrettán hófu námið en sjö fóru alla leið og Gulli Valdi var fremstur þeirra í stafrófinu. Hann hampar því prófskírteini nr. 1 frá Kennaraháskólanum.

Eitt af fyrstu löggæslustörfunum er auðvelt að tímasetja. Það var á Þinghúsinu að Grund í Svarfaðardal að kvöldi 30. júní 1968, á sigurhátíð sem Svarfdælingar stofnuðu fyrirvaralaust til þegar ljóst var að sveitungi þeirra, Kristján Eldjárn, hefði verið kjörinn forseti Íslands með yfirburðum.

„Leyfi var fengið hjá sýslumanninum á Akureyri fyrir samkomunni, eins og lög gera ráð fyrir, og hann gerði að skilyrði að þar yrði löggæsla. Þá var ég dubbaður upp og hafður með í löggæsluliði heimamanna. Þarna stóðum við um kvöldið og fram á nótt verkefnalausir með öllu. Gleðin var taumlaus en ekkert gerðist sem kallaði á afskipti lögreglu.

Ári síðar kom Halldór Gunnlaugsson, lögreglumaður á Dalvík – Dóri á Melum, að máli við mig og vildi að ég leysti af í löggunni um sumarið. Mér geðjaðist ekki að hugmyndinni, enda undi ég vel hag mínum sem smiður í flokki Jonna í Hvoli. Dóri lét sig ekki og bauð mér í bíltúr í löggubílnum. Hann ók niður á hafnarsvæði Dalvíkinga, svigaði á milli línubala og annars dóts og staðnæmdist ekki fyrr en sporði litlu bryggjunnar. Þá snaraðist hann út úr bílnum, henti lyklunum í mig og sagði mér að keyra upp á lögreglustöðina. Ég þurfti að sikksakka bakkandi upp bryggjuna og líklega hefur Dóri lagt þarna fyrir mig ökupróf án þess að ég gerði mér grein fyrir því þá.

Ég komst klakklaust upp á stöð og þar var gengið frá að ég myndi leysa af í næsta skólafríi um jól og áramót. Síðan var ég í afleysingum næstu sumur og tók ekki fyrsta sumarfríið á ævinni fyrr en 41 árs gamall.

Þegar ég byrjaði í afleysingum 1971 var fyrsti lögreglubúningurinn notaðar buxur af lögreglumanni á Akureyri og notaður jakki af öðrum. Flíkurnar voru ekki einu sinni í sama lit!“

Ræður Vallaprests komnar á skjalasafnið

Enn eitt verkefni Gulla Valda skal nefnt hér til sögu. Hann tók sig til og flokkaði og skráði hátt í 600 ræður sem faðir hans, séra Stefán á Völlum, flutti við kirkjulegar athafnir á ferlinum. Þetta reyndust ófá handtök og verkefnið tók hátt í eitt ár. Því lauk í fyrra. Gulli Valdi bankaði þá upp á í Héraðsskjalasafni Svarfdæla á Dalvík og afhenti ræðusafnið. Hann hlýddi auðvitað sjálfur á föður sinn flytja sumar af ræðunum í kirkjunni heima á Völlum en var annars ekki endilega með hugann við ræðuhöld og guðspjöll heldur við kirkjugestina, sveitunga sína.

„Ég er af spéfuglaætt og tók snemma eftir því kynduga við náungann á förnum vegi. Bændur slöppuðu vel af í kirkjunni og Bjössi í Ölduhryggi lifði sig svo inn í messuna að hann tónaði jafnan með pabba.

Ég stúderaði líka Brautarhólssystur og spáði í hver þeirra gapti mest í söngnum! Er annars við hæfi að nefna svona nokkuð á opinberum vettvangi?

Mest man ég eftir söngnum í Vallakirkju og hvernig hann breyttist þegar barst liðsstyrkur í kórinn af Vesturkjálka Svarfaðardals. Söngfólkið í Syðra-Garðshorni breytti miklu, Ingibjörg á Jarðbrú bar fallega upp sópraninn og svo nefni ég Tjarnarfólk, ekki síst hreppsstjórann, Þórarinn Kr. Eldjárn, þann góða söngmann.

Ég heyri enn fyrir mér kórinn á Völlum syngja Í dag er glatt í döprum hjörtum, dásamlega vel og hátíðlega.“

Sagan um sjómannalagið munaðarlausa

Við störf í fræða- og grúskherberginu heima í Kópavogi. Hér er hver fersentímetri nýttur til fulls og ríflega það!

Við störf í fræða- og grúskherberginu heima í Kópavogi. Hér er hver fersentímetri nýttur til fulls og ríflega það!

„Alla tíð átti ég auðvelt með að læra lög og texta. Pabbi söng mikið og afi spilaði á orgel. Pabbi var í Karlakór Dalvíkur og ég fór oft á æfingar með honum. Við Kiddi sund sátum stundum saman á bekk og hlustuðum á karlana æfa sig. Ég kann enn sumar raddir í lögum kórsins og lærði meðal annars sjómannalag sem kórinn söng 1960. Löngu síðar leitaði ég að nótum eða upplýsingum um þetta lag fyrir norðan en fann ekkert. Kórmenn könnuðust heldur ekki við neitt þegar ég fór að raula fyrir þá og efuðust mjög um að ég hefði hreinlega á réttu að standa.

Svo komu í leitir kassettur í fórum Jóhanns Daníelssonar og þar var að finna upptöku á þessu tiltekna lagi í flutningi kórsins. Enginn veit hvaðan lagið er komið og hver samdi það og ljóðið. Una Margrét Jónsdóttir, tónlistarfræðingur á Ríkisútvarpinu, er komin með málið í sínar hendur og leyfir landsmönnum vonandi að heyra upptökuna þegar Hreini Valdimarssyni tæknimanni tekst að hreinsa hana eins kostur er.

Lagið er mjög skemmtilegt og nú verður að festa það varanlega í sessi. Ég vil til dæmis gjarnan að Fóstbræður æfi það og flytji til að tryggja tilvist þess í eitt skipti fyrir öll.“

Þiggur sögur og vísur úr Svarfaðardal

Gulli Valdi frá Völlum er hagmæltur vel og ljóðaunnandi. Hann hefur samið og þýtt á sjöunda tug ljóðatexta sem út eru gefnir.

Hann gætir þess samviskusamlega að kórar, sem hann syngur með, fari rétt með texta og það varð til þess að hann fór að safna ljóðabókum. Safnið er orðið býsna stórt, aðallega bækur sem gefnar voru út fyrir 1960.

Í beinu framhaldi af þessu á prestssonurinn frá Völlum eftirfarandi erindi við lesendur Sýslsins og það skulu vera lokaorðin:

„Ætli sér einhverjir að henda ljóðabókum býðst ég til að gera það fyrir þá! Sama á við um sögur og vísur úr Svarfaðardal. Ég þigg allt sem menn eiga, kunna og vita í þeim efnum.

Ungt fólk heima í dalnum hefði gaman af að ræða við afa og ömmu eða þaðan af eldra fólk og skrá niður eftir viðmælendum sínum og senda mér svo.“

Sendi Gulla Valda tölvupóst eða hringið í kappann!

gsnaevarr@simnet.is – 567 9440

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s