Sveitapiltsins draumur rættist í Kántrílandinu

Staðlað

Það leiddi nokkurn veginn af sjálfu sér að sonur Jóhanns Daníelssonar, stórsöngvara frá Syðra-Garðshorni, yrði tónlistarmaður þegar hann yrði stór en trúlega hefur móðir pjakksins plægt líka framtíðarakur hans svo um munaði. Sissa (Gíslína Hlíf Gísladóttir) hélt nefnilega mikið upp á helstu hetjur bandarískrar sveitatónlistar – kántrí, setti plöturnar þeirra á fóninn og söng með. Tónauppeldið og genin urðu vegarnesti Gísla Jóhannssonar út í heim. Sveitapilturinn býr í sveitasöngvaborginni Nashville.

„Við fluttum frá Akureyri til Dalvíkur og bjuggum fyrst í Arnarfelli, húsi sem stóð alveg við Brimnesá. Mamma spilaði Merle Haggard, Johnny Cash og fleiri góða kántrísöngvara. Uppáhaldslagið hennar var King of the Road með Roger Miller og hún söng það oft. Þetta er skýr og kær minning um tíma sem örugglega höfðu mikil áhrif á mig.“

Í stofu frístundahallarinnar á Bakka í vikunni eftir Fiskidaginn 2015.

Í stofu frístundahallarinnar á Bakka í vikunni eftir Fiskidaginn 2015.

Gísli Jóhannsson eða Gis Johannsson, eins og hann kynnir sig ytra, var í stuttu fríi á Íslandi í byrjun ágústmánaðar og slappaði af í frístundahúsinu á Bakka í Svarfaðardal – að svo miklu leyti sem unnt var. Hann er kominn á kaf í bissness í Bandaríkjunum og víðar og gat því ekki látið sig hverfa til fulls í fjallasalnum. Gísli hélt kúnnunum nægilega volgum með tölvupóstssendingum í farsímanum sínum. Þá varðaði út af fyrir sig ekkert um hvort hann var staddur þá stundina á Dalvík eða í Nashville, ef hann bara passaði upp á að svara erindum þeirra.

Norðlendingar kvarta eðlilega yfir veðurfarinu sumarið 2015 en Gísli var himinsæll með dagana sína á Bakka. Hann hyggst meira að segja gera ráðstafanir til að koma í sveitina aftur og aftur næstu sumur – helst með sjö ára dóttur sína Miu Líf. Hann sýndi stoltur myndir af dömunni. Móðirin er af mexíkósku bergi brotin, fædd og uppalin í Bandaríkjunum. Nákvæmlega ekkert í útliti Míu Lífar minnir hins vegar á upprunann móðurmegin. Hún er gegnheil afurð Syðra-Garðshorns á að líta.

Breyttir tímar tónlistarmanna

Gísli er tvöfaldur í roðinu í starfi, annars vegar tónlistarmaður í hefðbundnum skilningi en hins vegar eigandi fyrirtækis sem annast ráðstefnuþjónustu og leigu á tækjabúnaði til ráðstefnu- og tónleikahalds. Hann hefur um árabil verið atvinnumaður í tónlist í Bandaríkjunum og bjó framan af í Los Angeles en hin seinni ár í Nashville í Tennessee. Vagga bandarísku sveitatónlistarinnar er í Suðurríkjunum, ekki síst í Tennessee. Kántríið er meira að segja kennt á stundum við tónlistarborgina Nashville.

4 umslag_bmyHann semur lög og texta, gaf út plöturnar Bring Me You árið 2002 og Native Son árið 2003 og hefur síðan þá sent frá sér stöku lög til spilunar á útvarpsstöðvum og á Vefnum.

Tímarnir eru nefnilega mjög breyttir í tónlistarheimum. Fáir lifa lengur á diska- og plötusölu heldur á tónleikahaldi og sölu alls kyns dóts sem tengist viðkomandi tónlistarmanni eða hljómsveit: merktum skyrtubolum, lyklakippum, ölkönnum og slíku.

Gísli treður upp hér og þar einn með gítar eða með hljómsveitinni sinni, Big City. Hann ætlar að herða róðurinn að þessu leyti á næstunni en fela öðrum meiri ábyrgð á ráðstefnumálum.

Ráðstefnuþjónusta ýtti tónlist út að hliðarlínunni

„Ég var mikið á ferðinni í Bandaríkjunum vegna tónleikahalds og fannst alltaf blóðugt að borga allt að helming tekna í leigugjald fyrir hljóðkerfi, ljós og annað tilheyrandi á hverjum stað. Fyrir fimm árum datt mér því hug að stofna fyrirtæki og kaupa sjálfur græjur sem þarf til tónleikahaldsins, fara með þær á flutningabíl og nota á eigin tónleikum en leigja síðan öðrum úthaldið þar á milli.

Í banastuði á sviði Fiskidagsins mikla 2012 ...

Í banastuði á sviði Fiskidagsins mikla 2012 …

Þetta gekk strax vel og vatt fljótt upp á sig. Viðskiptin komust á í gegnum kunningjatengsl, maður þekkir mann … Gott orðspor er líka besta auglýsingin.

Svo komst ég í samband við konu sem býr í New York, Shari Godgart. Hún hafði sérhæft sig í ráðstefnuþjónustu og við ákváðum að rugla saman viðskiptareitum. Hún er forstjóri í fyrirtækinu Allstate Media á móti mér, er framkvæmdastjóri þess og ræður starfsmenn í einstök verkefni eins og þarf hverju sinni.

Bandaríkin eru heimamarkaður Allstate Media en við tökum að okkur verkefni hvar sem er í heiminum. Ég var til dæmis fyrir skömmu bæði í Skotlandi og í Ástralíu vegna ráðstefna þar sem við tókum að okkur tiltekna þætti í samkomuhaldinu: aðallega hljóðkerfi, skjái og lýsingu.

Utan Bandaríkjanna semjum við um leigu á tækjum frá öðrum fyrirtækjum og ráðum samstarfsmenn til að klára verkefnin. Við berum ábyrgð á framkvæmd mála og festum lausa enda.

Á stærstu ráðstefnunni, sem við höfum sinnt í Bandaríkjunum, voru um tíu þúsund þátttakendur í sætum í salnum. Þar settum við til dæmis upp risaskjá í í fundarsalnum, um 100 metra langan og 12 metra háan. Umfangið á dæminu var því ekkert smáræði.

Síðustu árin hef ég að miklu leyti verið á kafi í þessum rekstri og sett tónlistina að nokkru leyti til hliðar á meðan en aldrei alveg. Núna vil ég fá svigrúm til að slá í klárinn á nýjan leik, semja fleiri lög, ferðast meira og koma fram á tónleikum. Mér líður nefnilega afskaplega vel á sviði og tónlistin mín fær fínan hljómgrunn.“

Gömlu kántríbrýnin heilluðu

Góð heimsókn á Bakka! Hjörleifur Hjartarson frá Tjörn/Hundur í óskilum og Árni Daníel Júlíusson (þeir Gísli eru bræðrasynir og vinstra megin við þá á myndinni sést í Syðra-Garðshorn þar sem rætur þeirra eru í Dalnum.

Góð heimsókn á Bakka! Hjörleifur Hjartarson frá Tjörn & Hundur í óskilum og Árni Daníel Júlíusson. Gísli og Árni Daníel eru bræðrasynir. Vinstra megin við Gísla á myndinni sést í Syðra-Garðshorn, þar sem rætur þeirra frænda eru í Dalnum.

Gísli Jóhannsson er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1987. Hann fór eftir það til Frakklands, þaðan heim á Dalvík um stund – aðallega til að sækja sjóinn og safna peningum. Svo lá leiðin í nám í Los Angeles árið 1991. Hann var árum saman í Tónlistarskóla Dalvíkur en í LA tók við nám í tónsmíðum, hljómfræði og hljóðblöndun (mixi). Gísli útskrifaðist úr námi 1994 og hefur síðan þá verið starfandi í Bandaríkjunum með tvöfalt ríkisfang, íslenskt og bandarískt.

„Ég hef mjög gaman af því að föndra við hljóð og hljóðblöndun og reyndar enn frekar á tónleikum en í upptökusölum. Mixið er reyndar ekki síður skemmtilegt en að spila, syngja og pródúsera. Helst vil ég skapa mér aðstæður til að sinna þessum hlutum meira en hægt hefur verið undanfarið en verð samt að segja ég hef líka gaman af bissness. Það er virkilega gaman og gefandi að ná í viðskipti og þjóna viðskiptavinum sem mest og best!

Ég geri út frá Nashville og þannig verður það í fyrirsjáanlegri framtíð. Svo undarlegt sem það hljómar tók ég fyrstu skrefin í kántríinu í gegnum sænska stelpu, sem ég kynntist á sínum tíma í Los Angeles. Hún var alltaf í æðislega flottum kúrekastígvélum og tók mig með á stað þar sem var spilað og sungið hreinræktað kántrí og dansað af krafti. Af þessu hreifst ég og ákvað að stofna eigin hljómsveit.

Gömlu kántríbrýnin heilluðu mig mest á þessum tíma, Roger Miller, Johnny Cash, Merle Haggard, Willie Nelson og fleiri slíkir. Í kántrítónlistinni fann ég meira að segja sterka tengingu við uppruna og fortíð á Íslandi.“

Áhrif upprunans á Dalvík greinast í nýjustu lögunum

Gísli og hljómsveitin hans, Big City.

„Íslenska poppið var mikill kántríbræðingur, meiri en margir gera sér kannski grein fyrir. Það sá ég betur síðar. Ég var auðvitað ungur „wannabe-poppari“ á Dalvík og man til dæmis eftir hljómsveit sem hét Edda K og var vinsæl hér fyrir norðan. Hún æfði á efstu hæðinni í ráðhúsinu; Danni Hilmars spilaði á gítar, Einar Arngríms á bassa, Dammi á hljómborð og Albert Ágústs var syngjandi trommari. Ég fékk að spila aðeins með þeim, sem var mikill heiður.

Sveitatónlistin fylgir í seinni tíð duttlungum poppsins að miklu leyti og mörkin eru oft óljós. Tónlistin mín breytist líka, ég er komin meira á evrópskar slóðir en áður.

Núna sem ég mest á píanó og í nýjustu lögunum má greina áhrif frá bresku indípoppi og tímanum á Dalvík þegar við hlustuðum á David Bowie, Billy Joel og fleiri góða. Þegar betur er að gáð má jafnvel greina áhrif hins ekta svarfdælska uppruna sem birtist í söngvum gangnamanna í Tungurétt á haustin eða gleðisöng bræðranna í Syðra-Garðshorni og Ytra-Garðshorni á góðum stundum!

Þannig séð er ég greinilega kominn í hring í tónlistarsköpunni. Það er góð tilfinning.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s