Samtök Svarfdælinga í baksýnisspegli – I

Staðlað
Árshátíðin 1982

Árshátíðin 1982

Svarfdælingasamtökin í Reykjavík samþykktu á aðalfundi sínum 6. febrúar 1986 að gefa safnahúsinu Hvoli á Dalvík 100 þúsund krónur til minningar um stofnendur sína, Gísla Kristjánsson, Kristján Eldjárn og Snorra Sigfússon. Þetta var skráð í fyrstu færslu einu fundargerðarbókar félagsins sem varðveist hefur.

Svarfdælingasamtökin voru stofnuð 26. nóvember 1957 og eignuðust að sjálfsögðu fundargerðarbók til að halda til haga upplýsingum um félagsstarfið. Sú góða bók glataðist hins vegar löngu síðar og mikil saga þar með.

Eina fundargerðarbókin sem til er var tekin í gagnið á stjórnarfundi í febrúar 1986. Síðasta færslan þar er frá stjórnarfundi í maí árið 2000.

 ∗

Á aðalfundi samtakanna í febrúar 1986 var kjörin ný stjórn:

 • Kristján Jónsson formaður
 • Sólveig Jónsdóttir gjaldkeri
 • Hrönn Haraldsdóttir ritari
 • Sigurlína (Stella) Árnadóttir meðstjórnandi
 • Júlíus Daníelsson meðstjórnandi

Nýja stjórnin byrjaði sem sagt starf sitt á því að útbúa gjafabréf handa safnahúsinu á Hvoli. Hún sendi líka frú Ingrid Björnsson heillaskeyti í tilefni af sjötugsafmæli sínu og tímasetti kökubasar og fjölskyldudag félagsins.

   ∗

Stjórnin var endurkjörin 1987 og á aðalfundi var varpað fram hugmyndum um sumarferð samtakanna, annars vegar að sigla til Vestmannaeyja og hins vegar að aka norður Sprengisand og suður Kjöl. Eyjaferðin varð fyrir valinu.

Árshátíðin 1987 var í nóvember í Félagsheimili Seltjarnarness. Þar var jafnframt minnst þrítugsafmæli samtakanna. Gunnlaugur Snævarr stjórnaði veislunni, Bjarki Elíasson flutti aðalræðuna og Svarfdælingakórinn söng undir stjórn Kára Gestssonar.

   ∗

Breytingar urðu í forystunni á aðalfundi í febrúar 1988. Ný stjórn var þannig skipuð:

 • Hrönn Haraldsdóttir formaður
 • Sólveig Jónsdóttir gjaldkeri
 • Árni Helgason ritari
 • Sigurlína (Stella) Árnadóttir meðstjórnandi
 • Sindri Heimisson meðstjórnandi

Árshátíðin 1988 var í Félagsheimili Seltjarnarness. Sigvaldi Júlíusson var ræðumaður kvöldsins og Júlíus Kristjánsson á Dalvík lagði til skemmtiefni.

Stjórn var endurkjörin á aðalfundi í febrúar 1989. Fundarsókn var „með fádæmum léleg“ og í fundargerð kemur auk heldur fram að aðsókn á árshátíðinni í nóvember 1988 hafi verið „heldur dræm“.

Þarna er getið í fyrsta sinn í fundargerð um að þaðað gangi svona upp og niður að virkja félagsmenn til starfa í samtökunum en athugasemdir þar að lútandi áttu eftir að birtast oft í fundargerðabókinni, með ýmsum formerkjum.

Samfélagið var að breytast, þar með talin félagsstarfsemi ýmiss konar. Svarfdælingasamtökin voru ekki undanskilin þeim hræringum í samfélaginu.

   ∗

Á stjórnarfundi í september 1989 var greint frá því að gjaldkerinn hefði sagt sig úr stjórn „vegna óánægju með störf stjórnar“, án þess að það væri skýrt þar frekar.

Hafist var handa við undirbúning árshátíðar og henni fenginn staður að Sigrúni 3. Húsaleiga var greidd en samkomunni sjálfri var hins vegar aflýst vegna þess að innan við 40 manns skráðu sig til borðhalds, að stjórnarmönnum meðtöldum.

Á stjórnarfundi 1. febrúar 1990 var undirbúinn aðalfundur samtakanna. Af fundargerð má ráða að deyfð í félagsstarfinu hafi í reynd orðið helsta umræðuefnið stjórnarfundarins:

„Heitar umræður urðu um framtíð samtakanna og voru stjórnarmenn sammála um að nú ylti á almennum félagsmönnum; þá yrði að virkja til þátttöku ef samtökin ættu að lifa. Einnig að nauðsynlegt væri að setja samtökunum markmið og tilgang.

Fram komu margar hugmyndir um þörf verkefni, styrk eða aðstoð við þjóðþrifafélög í heimahéraði eða kaup á þinghúsinu á Grund fyrir sumarbústað félaga.“

Í skýrslu stjórnar á aðalfundi 11. febrúar 1990 kom fram að sumarferð samtakanna 1989 hefði verið blásin sjálfkrafa af. Ætlunin var að fara yfir hálendið en enginn skráði sig til þátttöku. Sumarferðin féll þannig niður annað árið í röð vegna áhugaleysis.

Skýrsla stjórnar fjallaði nær eingöngu um félagsdeyfðina. Þar var frá því greint undir lokin að enginn stjórnarmaður gæfi kost á sér til endurkjörs og að fráfarandi stjórn myndi heldur ekki leggja tillögur um nýja stjórn fyrir fundinn. Fundarmenn yrðu sjálfir að ráða örlögum samtakanna.

„Ef enginn gefur sig fram í stjórn verða samtökin lögð niður og eignum þess komið í geymslu þar sem hægt verður að vitja þeirra ef einhver vildi seinna meir taka upp þráðinn.“

  ∗

Á aðalfundinum 1990 varð félagsdeyfðin aðalumræðuefnið undir dagskrárliðnum „framtíð samtakanna“. Fram kom að lítil endurnýjun hefði verið í félaginu og að félagið skorti hreinlega tilgang.

Rifjað var upp að útgáfa bókanna Svarfdælingar hefði verið hvati í starfinu fyrr á árum og stuðningur við „ýmis góð málefni á heimaslóð“ sömuleiðis.

Mögulegum verkefnum var varpað fram og af þeim má sjá að sumir fundarmenn hugsuðu hreint ekki smátt, þrátt fyrir allt! Þarna var til dæmis nefnd „bygging félagsheimilis, kaup jarðarparts í nágrenni Reykjavíkur þar sem komið yrði upp sumarhúsi, tré gróðursett o.fl.“

Samþykkt var að útbúa félagaskrá samtakanna og innheimta árgjald. Skiptar skoðanir voru reyndar um tillöguna en hún var samþykkt mótatkvæðalaust.

Ný stjórn var kjörin. Einn úr fráfarandi stjórn var endurkjörinn. Nýja stjórnin var þannig skipuð:

 • Valdimar Óskarsson formaður
 • Árni Helgason gjaldkeri
 • Edda Ögmundsdóttir ritari
 • Helga Hjörleifsdóttir meðstjórnandi
 • Björn Kristjánsson meðstjórnandi.

Nýja stjórnin lagði mikla vinnu í að koma félagsskrá samtakanna í gott horf og senda út gíróseðla til að fá „tillag í tóman sjóð“

Í apríl 1990 voru skráðir félagsmenn 298 talsins.

   ∗

Fjölskyldudagur Samtaka Svarfdælinga var sunnudaginn 29. apríl 1990 í Sóknarsalnum við Skipholt. Þar var opið hús og veglegar veitingar á borðum, ókeypis aðgangur fyrir 67 ára og eldri en 600 krónur fyrir aðra.

Þarna ríkti hreint engin deyfð og drungi, þvert á móti!

Í frásögn Eddu Ögmundsdóttur, ritara stjórnar, kveður við gleðilegri tón en oft áður í fundargerðarbókinni:

„Yfirfullt var á þessa fjölskyldugleði, aðsókn meiri en elstu menn muna, líklega um 160 manns, og gleðilegt hve vel unga fólkið mætti með börn sín, allt niður í kornabörn. Einnig kom margt eldra fólk sem ekki hefur sést á þessum degi til fjölda ára, t.d. Egill Bjarna, Egill nafni hans Júl. og Valdimar Jóhannsson, svo einhverjir séu nefndir og höfum við fyrir satt að þeir hafi átt þarna góða stund í nærveru gamalla sveitunga sinna ásamt ungviðinu.

Kári Gestsson kom, blessaður, og lék ýmis lög sem hæfðu þessari stundu og Söngsveitin skagfirska kom vel upphituð og galvösk frá Húnvetningum í Glæsibæ og tók lagið af skagfirskri söngsnilld.

Síðan tók Júlli Dan við, tók myndir og stýrði fjöldasöng sem tókst alveg framúrskarandi vel. Ekki trúi ég öðru en Píu minni frá Brautarhóli og þeim systrum öllum hafi vöknað um augu þegar allir sungu Svarfaðardalinn hennar af frábærri sönggleði og list.

Óhætt er að segja að flestir hafi farið heim af samkomunni glaðir í sinni og gæti ég best trúað að Viðeyjarferðin verði fjölmenn, fari sem horfir.“

Fleiri molar úr fundargerðum Samtaka Svarfdælinga

birtast síðar hér á þessum vettvangi.

Ein athugasemd við “Samtök Svarfdælinga í baksýnisspegli – I

 1. Eftir lesturinn um Átthagafélag Svarfdælinga (brottfluttra) langar mig að bæta því við, að þegar sýnt þótti að félagsskapurinn væri að syngja sitt síðasta, tókum við nokkrar konur okkur saman, tæmdum sjóði Samtakanna og færðum öllum kirkjunum
  í Svarfaðardal kr. 50 þúsund hverri. Hef ekki árið á hreinu, en síðar endurnýjaði Valdimar Óskarsson félagið (auralaust) og var formaður þess í nokkur ár, en hvernig þetta stendur nú, veit ég ekki.
  Kristján Eldjárn bauð eldri Svarfdælingum i kaffi á heimili sínu á Bessastöðum eitt
  árið og þótti það flestum mikil upphefð, vel mætt og móttökur hinar bestu
  hjá þeim heiðurshjónum.
  Það var gaman að lesa þessa upprifjun um Samtökin og mér finnst nærtækast að
  rifja upp líka að þegar konur þær sem voru í félagsskapnum frá byrjun og lögðu á sig mikla vinnu við basarsölu, kaffisölu, árshátiðirnar sem mikils undirbúnings þurfti við,
  spilakvöldin og margt annað, þegar þær hættu, oft vegna aldurs vildu fáar yngri leggja þessa vinnu á sig , skiljanlega, og þá var þessu bara lokið.
  Virkilega gaman að lesa um sveitungana í Sýslinu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s