Ferðin frá Sigurhæðum

Staðlað

reynald 2„Ég þarf á því að halda að fara til Dalvíkur minnst einu sinni á ári til að hitta ættingja og vini og draga svarfdælskt súrefni ofan í lungun, nú síðast fyrir fáeinum dögum.

Við ætluðum reyndar að vera ögn lengur en ákváðum að forða okkur suður þegar út var komið að morgni dags í rok, rigningu og innan við þriggja stiga hita.

Það var einum of, meira að segja í Svarfaðardal!“

Reynald Jónsson frá Sigurhæðum á Dalvík hefur marga fjöruna sopið í lífi sínu og starfi. Þau Katrín Árnadóttir eru komin á virðulegasta skeið ævinnar, sögðu bæði skilið við vinnumarkaðinn fyrir fáeinum árum og lifa eftirlaunalífinu á sinn hátt, hérlendis eða erlendis. Þau búa í Garðabæ og eiga líka hús í grennd við Alicante á Spáni þar sem þau eru gjarnan á haustin og snemma vors, í þrjá mánuði eða þar um bil í senn. Þau voru reyndar heilan vetur einu sinni en gera það ekki aftur.

„Við söknuðum ótrúlega margs að heiman á aðventunni og um jólin. Þar ber auðvitað fyrst að nefna fjölskylduna en svo vantaði ljósaskreytingar til hátíðarbrigða og flugelda á gamlárskvöld. Hlutirnir voru bara ekki eins og þeir áttu að vera, þrátt fyrir að við værum í góðum félagsskap ytra og hefðum það í sjálfu sér gott. Rétta andrúmsloft jólanna var bara ekki til staðar.“

Frekar að leigja en eiga á Spáni

reynald-3Núna standa Katrín og Reynald í stórræðum í fasteignamálum á báðum heimavöllum sínum.

Þau hafa auglýst húsið í Garðabæ til sölu og hyggjast minnka við sig.

Spánarhúsið La Sóley er sömuleiðis falt, enda óþarflega stórt.

Þau telja líka hyggilegra á þessu æviskeiði að leigja frekar minni íbúð í sólarlandinu en að eiga hús, ekki síst vegna gildandi erfðalaga á Spáni.

Á ýmsu hefur hins vegar gengið í efnahagslífi og á fasteignamarkaði á Spáni, líkt og hér heima og víðar. Tíminn leiðir því í ljós hver framvindan verður en alla vega verður Spánarhúsið góða í boði til leigu oftar hér eftir en hingað til utan þess tíma sem eigendurnir nýta það.

„Hér heima horfum við vissulega í kringum okkur eftir minni íbúð hér í Garðabæ en erum ekki fráhverf neinum öðrum möguleikum. Í Garðabæ er vissulega gott að búa. Tónlistarlífið er til dæmis bæði mikið og blómlegt, síðast í gær vorum við á tónleikum Salon Islandus, hljómsveit undir stjórn Sigurðar Ingva Snorrasonar klarinettuleikara. Þar spilar Sigrún Eðvalds fiðluleikari með fleiru góðu fólki og Gissur Páll Gissurarson söng. Þvílík rödd sem sá maður hefur!“

Fjölbýlishús reis á rústum brunnins skemmtistaðar

Reynald er sonur Jóns smiðs og Fríðu á Sigurhæðum, fæddur og alinn upp á einu af goðsagnakenndum heimilum Dalvíkur. Á Sigurhæðum á Akureyri orti séra Matthías himneska lofsöngva en á Sigurhæðum á Dalvík smíðaði Jonni líkkistur. Þannig sögðu gárungar í það minnsta frá og Jonna leiddist það ekki. Honum þótti líka kista mun praktískari en sálmur.

Reynald brást við atvinnuleysi á Dalvík forðum með því að sækja í vinnu suður á Keflavíkurflugvöll, á vertíð í Vestmannaeyjum og víðar. Svo fór hann í tækninám í Danmörku og eftir það var ekki aftur til Dalvíkur snúið nema í hlutverki brottflutts ættingja og sveitunga.

Eftir heimkomu úr námi gerðist hann bæjartæknifræðingur á Húsavík 1965 og fór þaðan til Landsvirkjunar. Leiðin lá síðan meðal annars í virkjun vatnsafls á hálendinu syðra, fyrst við Sigöldu og síðan Hrauneyjarfoss.

Frá árinu 1982 starfaði Reynald á eigin vegum. Hann stofnaði teiknistofu, vann eftir það sem hönnuður og verktaki og á tímabili rak hann líka verslun við Grensásveg í Reykjavík.

„Ég var í mörgum stórum og smáum verkefnum í Garðabæ, stofan mín annaðis til að byrja með alla verkfræðihönnun í Ásbúð og bæði hönnun og byggingar nánast í heilum hverfum hér. Síðar stóð ég að miklum framkvæmdum í Borgarnesi, bæði nýjum fjölbýlishúsum og breytti gamla kaupfélagshúsinu þar í 25 íbúðir.

Á Akureyri keypti ég brunarústir skemmtistaðarins H-100 við Hafnarstræti og þá þótti víst ýmsum að komið væri að því að hann Reynald þyrfti að leita sér andlegrar aðstoðar. Uppátækið þótti svo galið. Vissulega var „eignin“ ekki álitleg í upphafi en þarna hannaði ég, byggði og innréttaði 15 íbúða fjölbýlishús í hjarta bæjarins á skömmum tíma. Húsið stendur enn og stendur fyrir sínu!“

Fiðla lögð á hillu eftir sextíu ár

Dagblaðsfrétt frá 6. nóvember 1980 um nýjan dagskrárþul Sjónvarpsins.

Dagblaðsfrétt frá 6. nóvember 1980 um nýjan dagskrárþul Sjónvarpsins.

Þegar horft er um öxl hefur Reynald haft mörg járn í eldinum, jafnvel á sama tíma. Efnahagshrunið 2008 lék hann grátt eins og fleiri. Þá var hann einmitt í miklu ati á heimaslóðum, að endurnýja heimavist Dalvíkurskóla og breyta í hótel.

Skuldir sem áttu rætur í erlendum gjaldmiðlum stökkbreyttust á svipstundu og margfölduðust. Byggingarbransinn fraus og bæði athafnalíf og mannlíf sigldu inn í meira kuldaskeið en dæmi voru um áður.

Svo fór smám saman að hlýna á ný og þiðna en Reynald tók ekki upp þráðinn í verktakabransanum á nýjan leik og lét gott heita.

Katrín hætti að vinna um svipað leyti. Hún lék í Sinfóníuhljómsveit Íslands um árabil og kenndi fiðluleik í Barnamúsíkskóla Reykjavíkur, Tónmenntaskóla Reykjavíkur, Nýja tónlistarskólanum og síðast í Tónlistarskólanum í Hafnarfirði. Svo var hún reyndar á sjónvarpsskjám landsmanna sem dagskrárþulur Sjónvarpsins í fimm ár.

„Ég byrjaði að spila á fiðlu 5 ára og hætti 65 ára. Þá hafði ég sem sagt verið viðloðandi fiðluna í 60 ár og taldi nóg komið. Fiðlan fór ofan í kassa og var lögð á hilluna, í orðsins fyllstu merkingu. Ég hef ekki snert á hljóðfæri síðan þá.

Við Reynald komum úr gjörólíkum áttum en eigum samt tónlistaráhugann sameiginlegan. Hann hefur mjög gaman af músík og syngur sjálfur, enda með ágætis söngrödd. Á sínum tíma dreif hann sig í Frímúrarakórinn og ég stuðlaði að því að hann sækti kennslu í Hafnarfirði hjá Eiði Ágústi Gunnarssyni, óperusöngvara og tónlistarmanni.“

Spánn eða Stóllinn

Þar með er komin í ljós ný og óvænt hlið á Reynald: söngvari. Og meira til, hann er tómstundamálari líka.

Á trönum í stofunni í Garðabæ blasti við eitt málverka hans og mótívið augljóslega ættað frá Spáni. Þegar hann málar á Íslandi birtist Spánn í myndunum hans en þegar hann málar á Spáni birtist Stóllinn í Svarfaðardal oftar en ekki á léreftinu.

Þannig ferðast sonur Sigurhæða álfa á milli en er í raun alltaf á sama stað.

Reynald við Spánarmyndina sína. Fjær á vegg er málverk frænda hans, Kristins G. Jóhannssonar, úr Svarfaðardal.

Reynald við Spánarmyndina sína. Fjær á vegg er málverk frænda hans, Kristins G. Jóhannssonar, úr Svarfaðardal.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s