„Ég tengi dulræna hæfileika mína við móðurættina og Svarfaðardal. Norðlendingar eru yfirleitt dulrænir, opnir og næmir. Það á ekki síst við um Skagfirðinga en líka Eyfirðinga og Þingeyinga,“ segir Þórhallur Guðmundsson.
Snjólaug amma frá Skáldalæk uppgötvaði snemma að dóttursonurinn sæi og heyrði fleira en fólk flest.
Þórhallur leitaði síðar fyrir sér á vinnumarkaði sem kokkur, þjónn og bankamaður en endaði sem miðill í fullu starfi.
„Snjólaug Jóhannesdóttir var trúuð kona, dulræn, næm og skilningsrík. Hún var vinur sem ég sótti mikið til þegar hún bjó hjá foreldrum mínum fyrir sunnan. Sami mannkærleikurinn einkenndi reyndar þessi systkin öll frá Göngustöðum og ég skynjaði að systur ömmu trúðu líka á dulræna hluti.
Amma sótti oft fundi hjá Hafsteini Björnssyni miðli. Þegar ég sá hana klæðast upphlut eða peysufötum táknaði það annað hvort væntanlegan fund hjá Hafsteini eða jarðarför! Hún var síðustu stundir ævinnar á Kristnesspítala í Eyjafirði og lést þar í febrúar 1974. Björk Guðjónsdóttir, móðir mín (fyrrverandi formaður Svarfdælingasamtakanna í Reykjavík), hafði nokkru áður pantað tíma hjá Hafsteini miðli en hann bað um að fundinum yrði frestað. Amma kvaddi svo daginn áður en Hafsteinn hafði sett tímann á dagskrá. Mamma hikaði en ákvað að fara og Snjólaug móðir hennar lét vita af sér þar. Svarfdælingar eru kraftmiklir þegar þeir vilja beita sér og bíða ekkert með að minna á sig.“
„Strákurinn er slæmur í byljunum“
„Ég var mikill ömmustrákur og sótti í að vera í kringum hana. Hún áttaði sig á því, þegar ég var sex eða sjö ára, að ég hefði dulræna hæfileika og fattaði það auðvitað á undan mér sjálfum! Ekki minnist ég þess að hæfileikinn háði mér á neinn hátt en ég var býsna skapmikill og erfiður í æsku, hvort sem skýringin er sú eða önnur. „Strákurinn er slæmur í byljunum“! var sagt um mig á Urðum í Svarfaðardal.
Annars var ég fremur einrænn og sjálfum mér nægur á uppvaxtarárunum, æfði sund í sundfélaginu Ægi og stundaði leiklist í Vogaskóla. Þar lék ég meira að segja djöfulinn sjálfan á sviði og notaði sparibuxur af pabba í sýningunni. Buxurnar hurfu af einhverjum ástæðum og skiluðu sér aldrei heim. Kannski þarf ég að fara fyrst niður og sækja buxurnar áður en ég fer upp – þegar ég dey.
Félagar mínir í Vogaskóla segja að ég hafi verið dálítið sér á parti í skóla. Enda heyrði ég margt sem aðrir heyrðu ekki og varð oft fjarrænn við að hlusta og skynja. Einn kennarinn kom til mín í tíma löngu síðar og sagði: „Nú skil ég margt sem ég ekki skildi þá. Þú sast vissulega á þínum stað í kennslustundum en varst stundum alls ekki á staðnum heldur einhvers staðar annars staðar.““
Úr bankaveröld í annan heim
Þórhallur ákvað á sínum tíma að gerast matreiðslumaður og fékk vinnu í eldhúsinu á Aski við Suðurlandsbraut og á Hóteli Loftleiðum. Hann hafði gaman af kokkamennsku en fann sig samt ekki í því að gera matreiðslu að ævistarfi. Hann prófaði þá að þjóna til borðs en fann sig heldur þar.
Svo lá leiðin inn á allt aðrar brautir. Hann fékk vinnu í Verslunarbankanum og var þar um hríð. Þá og fyrr, þegar hann þreifaði fyrir sér á vinnumarkaðnum, var hann jafnframt virkur þátttakandi í starfi Sálarrannsóknafélags Íslands og Sálarrannsóknafélags Reykjavíkur.
Svo kom að því að Verslunarbankinn, Alþýðubankinn og Iðnaðarbankinn sameinuðust og urðu Íslandsbanki í ársbyrjun 1990. Við þau tímamót ákvað Þórhallur að segja skilið við fjármálageirann og snúa sér að andlegum efnum. Hann gerðist miðill í fullu starfi á eigin vegum og hefur verið að síðan þá.
Allur skalinn frá gráti til hláturs
„Hvernig er vinnuvika miðils? Ja, hún er að ýmsu leyti lík því sem gerist hjá fólki í ýmsum öðrum störfum. Ég er mest með einkafundi þar sem oftast mætir einn í hvert sinn en stundum tveir eða jafnvel enn fleiri. Af og til eru skyggnilýsingar í stærri hópum í sal. Þetta er tarnavinna og mest um helgar, enda á fólk frí þá. Ég fer um allt land.
Sálarrannsóknafélög eða aðrir undirbúa fundina og auglýsa þá. Þegar nær dregur beini ég athygli að næsta fundarstað og færi þangað bæði hugsun og orku, enda er þar að finna fólkið sem ég hitti og tek á móti. Hver fundur er tilraun milli heimanna tveggja.
Fundirnir er jafnólíkir og þeir eru margir. Þar geta brotist út afar ríkar tilfinningar með tár á hvarmi en þar getur líka ríkt kátína og hlátur frá upphafi til enda. Og allt þar á milli.
Fólk er mistrúað á svona lagað, sem eðlilegt er. Sumir koma aftur og aftur en aðrir hafa aldrei fyrr hitt miðil og vita ekkert út á hvað miðilsfundur gengur.“
Hlý og köld tengsl milli heima
„Kærleiksríkustu tengslin á einkafundum eru jafnan þegar látir eiginmenn eða eiginkonur láta eftirlifandi maka sína vita af sér. Fyrir mörgum árum lenti ég reyndar í andstæðu þessa. Þá kom til mín kona og ég sagði að látinn eiginmaður hennar væri líka mættur og vildi láta vita af sér. Þá kvaðst konan ekkert vilja af honum vita og færði fyrir því stuttaraleg rök. Hún spurði hvort ég sæi ekki einhverja aðra sér tengda, sem hún vildi frekar vera í sambandi við. Þarna varð ég kjaftstopp en í ljósi reynslunnar síðan þá myndi ég bregðast öðru vísi við ef eitthvað þessu líkt gerðist núna.
Öllu notalegri var heimsókn manns á níræðisaldri sem kom til mín einu sinni til mín á aðventu, nákvæmlega kl. 13:30, uppáklæddur, þveginn og strokinn. Hann hafði pantað fund með skömmum fyrirvara. Ég fór að lýsa því sem ég skynjaði og sagði svo: „Þú átt eiginkonu fyrir handan og það er svo skrítið að sjá hana sífellt veifa hangikjötslæri og sýna mér.“ Þá stóð gesturinn skyndilega upp, eftir einungis 20 mínútna samtal eða svo. „Nú er þetta orðið gott, Þórhallur minn. Ég er sáttur og mér líður vel. Ég vildi bara vita hvernig henni liði því hún verður jörðuð núna klukkan þrjú. Við ætlum að hafa hangikjötsbita á borðum í erfidrykkjunni.“
Förum þegar við eigum að fara
„Fólk kemur misjafnlega sterkt fram í gegnum miðla og sumir koma bara alls ekki neitt. Fólk, sem farið hefur reitt og neikvætt úr jarðlífinu, kemur ekki fram og heldur ekki fólk sem er ekki sátt við sjálft sig af einhverjum ástæðum. Það er verst að hverfa reiður og ósáttur.
Annars förum við þegar við eigum að fara. Hver skrifar eigin sögu að ákveðnu marki, tekur hana með sér en getur haldið áfram að vinna úr ákveðnum hlutum á nýjum slóðum í tilveru sinni. Þetta á við um alla. Við fáum til dæmis engan aukabónus í eilífðinni út á að vera Svarfdælingar eða Dalvíkingar!“