Flóamarkaður, laufabrauð á þorra, hjartabíll og forseti lýðveldisins

Staðlað

Samtök Svarfdælinga í Reykjavík og nágrenni efndu til fyrsta flóamarkaðar á Íslandi. Þau lögðu líka lýðveldinu til forsetaefni árið 1968. Það leika ekki önnur átthagafélög eftir. Björk Guðjónsdóttir frá Skáldalæk gekk snemma til liðs við samtökin. Hún var í forystusveit þeirra um árabil og formaður stjórnar um hríð.

 

„Snorri Sigfússon, skólastjóri og námstjóri, átti frumkvæði að því að stofna Svarfdælingasamtökin í Reykjavík formlega 26. nóvember 1957. Mér þykir trúlegt að hann hafi haft fengið mig og fleiri með sér í félagsstarfið,“ segir Björk.

Björk Guðjónsdóttir. Myndin er tekin 18. júní 2015.

„Ætli starfsemin hafi ekki verið hvað blómlegust á sjöunda áratugnum og fram á þann áttunda. Við vorum til dæmis alltaf með vorfagnað fyrir elstu sveitunga okkar og buðum þeim í ókeypis kaffisamsæti í tilefni sumarkomunnar. Þeir sem á þurftu fari að halda gátu hringt og pantað bíl til að skutla sér á samkomuna og heim aftur, rétt eins og kjósendur geta látið í kosningaskrifstofur stjórnmálaflokkanna stjana við sig á kjördag!

Vorfagnaðurinn mæltist afskaplega vel fyrir og ég minnist þess að hafa fengið einu sinni kveðju frá Sesselju Eldjárn frá Tjörn daginn eftir. Hún var svo ánægð að hún lét vita af því í símskeyti.“

Svarfdælingasamtökin héldu líka kökubasara, spilakvöld og skipulögðu meira að segja sumarferðir líka, yfirleitt dagsferðir á tiltekna staði á landsbyggðinni. Að minnsta kosti einu sinni var sumarferðin lengri en dagurinn. Þá var farið í Djúpuvík á Ströndum og gist á leiðinni. Svo var grillveisla í Saltvík og sjálfsagt mætti tína enn fleira til.

Árshátíð var fastur liður og þorrablót líka. Svarfdælingar syðra tóku sig gjarnan til og komu saman til laufabrauðsgerðar í aðdraganda þorra. Laufabrauð var ekki nærri því eins algengt þá og nú á höfuðborgarsvæðinu, helst spurðist til slíks á vegum Norðlendinga.

Þetta þótti býsna merkileg iðja. Morgunblaðið gerði þannig laufabrauðsgerð Svarfdælinga skil í febrúar 1970 og tók hús á Agli Júlíussyni útgerðarmanni og sveitungum hans að Bugðulæk 1 í Reykjavík.

Í febrúar 1971 birti dagblaðið Tíminn heilsíðuúttekt í máli og myndum á laufabrauðsferð Svarfdælinga heima hjá Björk Guðjónsdóttur og Guðmundi Þórhallssyni að Gnoðarvogi 84 í Reykjavík. Þar má m.a. sjá norskar mæðgur á mynd, Ásu Eskeland, eiginkonu Ívars Eskeland, fyrsta forstjóra Norræna hússins í Reykjavík, og móður Ásu. Þær kynntu sér þessa íslensku hefð og svarfdælsk handbragð á kökunum alveg sérstaklega.

Tíðindum þótti sæta þegar Bjarki Elíasson yfirlögregluþjónn mætti til leiks þar í fullum skrúða, svipti af sér jakkanum og tók til við að skera lauf og krúsidúllur í kökur.

Ekki sætti minni tíðindum þegar nokkuð var liðið á kvöld og sjálfur forseti lýðveldisins, Kristján Eldjárn, birtist. Hann fékk sér kaffi og fór svo að skera, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Engin mynd af þjóðhöfðingjanum í laufabrauðssveiflu fylgdi með greininni í Timanum. Kristján vildi af einhverjum ástæðum ekki láta mynda sig þarna og ljósmyndari blaðsins varð að sætta sig við það.

Kristján Eldjárn var annars virkur í starfi Samtaka Svarfdælinga og sat í fyrstu stjórn þeirra ásamt Gísla Kristjánssyni og Snorra Sigfússyni. Skömmu áður en Kristján var kjörinn forseti, vorið 1968, efndu Svarfdælingasamtökin til árshátíðar í Sigtúni og Kristján var þar ræðumaður. „Forsetaefni flytur minni Svarfaðardals á árshátíð í kvöld“, sagði dagblaðið Vísir í fyrirsögn klausu um samkomuna 22. mars 1968.

Um útgáfuþrekvirkið Svarfdælinga

Fyrsta stjórn Svarfdælingasamtakanna í Reykjavík: Gísli Kristjánsson, Snorri Sigfússon, Kristján Eldjárn. Mynd: Gunnar Vigfússon, birtist í Svarfdælingar, útg. Iðunn 1976.

Samtök Svarfdælinga kvöddu Kristján Eldjárn í minningargrein í Íslendingaþáttum Tímans 29. september 1982 og þökkuðu honum sérstaklega fyrir þátt sinn í að koma Svarfdælingum á prent „í tveimur digrum bindum“. Stjórn Svarfdælingasamtakanna hafði frumkvæði að útgáfunni og fékk Stefán Aðalsteinsson, fræðimann og ættfræðing, til að skrá „svarfdælskt mannfræðirit“.

Stefán féll frá áður en verkinu lauk, aðeins 54 ára. Kristján Eldjárn tók við handritinu,

„ … endurskoðaði það og lagfærði og bjó til prentunar með sinni alkunnu nákvæmni og alúð. Hvort eða hvenær það ritverk hefði komist á prent án hans aðstoðar, er vandséð. Sá þáttur í verkahring samtakanna var afrek, sem honum ber að þakka sérstaklega svo og önnur, frábærlega rækt af hans hálfu,“

eins og segir í minningargreininni.

Hjartabíll og flóamarkaður

Svarfdælingasamtökin létu margt fleira gott af sér leiða, til dæmis gáfu þau fjármuni til Dalbæjar, heimilis aldraðra á Dalvík. Þekktasta átakið var samt trúlega þátttaka í söfnun fyrir neyðarbíl, „hjartabíl“, handa Rauða krossinum. Söfnunin hófst að frumkvæði Blaðamannafélags Íslands í minningu Hauks Haukssonar blaðamanns, barnabarns Snorra Sigfússonar, fyrsta formanns Svarfdælingasamtakanna í Reykjavík.

Mbl. 13. mars 1972

Svarfdælingasamtökin efndu til flóamarkaðar í Laugardalshöll í Reykjavík sunnudaginn 14. maí 1972 til að afla tekna, annars vegar fyrir hjartabílssöfnunina og hins vegar til að fjármagna útgáfu Svarfdælinga.

Svona fyrirbæri, flóamarkaður, var víst óþekkt þá á Íslandi en þekkt og algengt í Noregi. Ingrid, norsk eiginkona Hallgríms Björnssonar frá Laugahlíð, var helsta driffjöður þessarar fjáröflunar Svarfdælinga í Laugardalshöll. Uppátækið vakti mikla athygli fjölmiðla og almennings í höfuðborginni. Þarna var hægt að fá nýjar eða notaðar og nýhreinsaðar flíkur af öllu tagi, húfur, trefla, leista, vettlinga, púða, leikföng og margt, margt fleira.

Þegar nálgaðist að gestum yrði hleypt inn hafði safnast saman mannfjöldi utan dyra Laugardalshallar. Guðmundur Þórhallsson, eiginmaður Bjarkar, man vel eftir atganginum þegar opnað var.

„Við vorum fjórir karlmenn við dyrnar og horfðum alveg undrandi á mannþröngina fyrir utan. Á slaginu klukkan tvö opnuðum við og forðuðum okkur svo á hlaupum með skriðuna á eftir okkur! Fólk ruddist inn og gólf Laugardalshallar nötruðu. Þetta var alveg ótrúlegt en afrakstur flóamarkaðarins var líka framar öllum vonum.“

Björk Guðjónsdóttir er dóttir Snjólaugar Jóhannessonar frá Göngustöðum og Guðjóns Baldvinssonar á Skáldalæk. Á myndinni eru börn Jóhannesar Sigurðssonar og Jónínu Jónsdóttur á Göngustöðum. Efri röð: Snjólaug, Steinunn, Solveig, Soffía og Anna. Neðri: Þuríður, Jón, Sigurður og Sigríður.

Morgunblaðið 10. febrúar 1970

Tíminn 19. febrúar 1971

 

 

Morgunblaðið 13. maí 1972

Tíminn 29. ágúst 1974

Ein athugasemd við “Flóamarkaður, laufabrauð á þorra, hjartabíll og forseti lýðveldisins

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s