Hún stendur á þrítugu, hélt upp á tímamótin á með tímamótatónleikum á Rósenberg, starfar í þremur hljómsveitum og kór að auki í Lundúnum, er langt komin í vinnu við plötu með einni sveitinni og stefnir á upptöku eigin efnis eftir áramót. Svo dreymir hana um menningarbrú milli Svarfaðardals og Lundúna og ætlar að pæla í viðskiptamódeli þar að lútandi í haust. Öspin blómstrar.
Ösp Eldjárn hefur búið í Lundúnum í fjögur ár og útskrifaðist þar haustið 2014 með BA-próf í skapandi tónlist. Námið tók til þess að semja og útsetja með fleiru tilheyrandi til að gera út í músíkbransanum. Lokaverkefnið var tónleikar með eigin efni.
Eftir útskriftina hefur hún farið lengra út á þá braut að semja tónlist, með afar góðum árangri eins og heyra mátti núna að kvöldi uppstigningardags á Café Rósenberg í Reykjavík. Þar flutti hún mörg lög úr eigin smiðju og uppskar dúndrandi viðtökur gæsahúðaðra áheyrenda. Hún er líka alveg mögnuð söngkona með eigin stíl, með mörg og mismunandi járn í eldinum. Eldjárn.
Á tónleikunum á Rósenberg hafði Ösp með sér Örn bróður sinn Eldjárn gítarleikara á sviði og sömuleiðis músíkalskt par, sambýlinga sína í Lundúnaborg, Helgu Ragnarsdóttur frá Húsavík og Sam Pegg. Þau starfa saman í hljómsveit ytra, Luna, og eru þrælgóð, eins og gestir á tónleikunum fengu staðfest með eigin eyrum. Og
Í öðru lagi starfar Ösp við þriðja mann í hljómsveitinni Hrím, ásamt Anil nokkrum Sebastian, tónlistarmanni sem á að hálfu rætur að rekja til Þýskalands og að hálfu til Sri Lanka. Anil og Ösp kynntust í kór, London Contemporary Voices, sem hann stofnaði á sínum tíma og lýsti áhuga á frekara samstarfi þeirra. Þannig varð Hrím til og síðar bættist í hópinn Cherif Hashizume, tónlistarmaður með egyptskar og japanskar rætur.
Spuni í stemningu varð óvart að plötu
„Fljótlega kom í ljós að við Anil áttum mjög auðvelt með að búa til tónlist saman og fórum að hittast einu sinni í viku til að semja og æfa. Allar æfingar eru teknar upp og eftir árið vorum við komin með efni á heila plötu, eiginlega óvart!
Tónlistin er samin í spuna, sem er ný og óvenjuleg nálgun. Hann setur inn einhverja hljóma og ég spinn, hann útsetur og býr til mikinn hljómheim úr þessu, notar strengi og fleira.
Þetta er samið í stemningu og ég gæti ekki farið á svið með efnið nema hlusta fyrst á upptökurnar og læra lögin. Það er ekki einfalt að lýsa því í hvaða áttir við förum þarna, sumt er kannski í ætt við kvikmyndatónlist, annað í átt að Sigurrós, ef á að nefna eitthvað. Fyrst og fremst stendur þetta efni fyrir sínu.
Forgangsverkefnið núna er að ljúka við plötuna, enda er hún mjög langt komin, finna síðan útgefanda og kynna plötuna og hljómsveitina. Ég hef til dæmis áhuga á að koma með Hrím á Iceland Airwaves tónlistarhátíðina í Reykjavík í haust og kynna annars vegar bandið og það sem við Anil erum að gera og hins vegar flytja mitt eigið efni. Sjáum til hvort það tekst.
Við höfum fengið flott fólk með okkur á plötuna, meðal annars ásláttarhljóðfæraleikarann Manu Delago, sem spilar með Björk á Biophilia plötunni og er með henni á tónleikaferð.“
Sunnudagsdjass
Þriðja hljómsveitin, sem Ösp starfar í, er djasskvartettinn Good as Gold. Það er vinna sem skilar tekjum fyrir salti í grautinn.
„Við flytjum „standarda“ úr djasstónlist áranna 1930-’40 og erum fastráðin á ákveðnum börum á sunnudögum. Núna svermum við fyrir fleiri stöðum til að fjölga verkefnum og föstum tekjuliðum í tilverunni.
Svo er það kórinn minn góði, London Contemporary Voices, afskaplega góður og skemmtilegur. Við erum í samtímatónlist og komum oft fram á tónlistarhátíðum og þá gjarnan í samstarfi við aðra tónlistarmenn. Við sungum til dæmis með söngkonunni Imogen Heap, sem ég held mikið upp á.
Núna æfir kórinn fyrir tónleika í Union Chappel 20. júní og þá vinnum við með tónskáldi og miklum snillingi, Guy Sigsworth, sem meðal annars hefur unnið með Björk.“
Uppfræðir börn tvisvar í viku
Ösp er með réttindi tónlistarkennara og vinnur sem slíkur í Lundúnum. Nemendurnir eru ekki háir í loftinu en afskaplega móttækilegir og áhugasamir!
„Eigendur kaffihúss í Peckham-hverfinu í suðausturhluta Lundúna réðu mig til að sjá um tónlistarnámskeið fyrir allra yngstu músíkantana. Þangað fer ég á þriðjudagsmorgnum með slæður, bjöllur, hristur og fleira í tösku á fund barna á aldrinum hálfs árs til þriggja ára og foreldra þeirra. Á laugardagsmorgnum er ég með svipað námskeið á öðrum stað í borginni og þá fyrir tveggja til fimm ára.“
Menningarbrúin Svarfaðardalur – Lundúnir
Það er því eitt og annað sem Öspin frá Tjörn sýslar við í heimsborginni en hún ætlar sér samt ekki að skjóta þar rótum nema að hluta til en hlúa hins vegar að upprunanum. Og þá er komið að sögunni um stóra drauminn.
„Helst vildi ég koma því svo fyrir að geta skipt árinu á milli Svarfaðardals og Lundúna og ætla þess vegna að byggja brú þar á milli! Ég hef sótt um styrk til að útfæra viðskiptaáætlun fyrir menningarbýlið Tjörn.
Hugmyndin er að breyta útihúsum í vinnustofur, hljóðver og aðsetur til dvalar í viku eða vikur til að taka þátt í námskeiðum og ýmsu því sem við heimafólk á Tjörn og í byggðarlaginu höfum fram að færa.
Ég vil gjarnan fá tónlistarfólk frá Bretlandi í Svarfaðardal til að semja og taka upp í umhverfi sem það aldrei hefur kynnst áður og veitir því nýjan innblástur. Ég sé fyrir mér íslenskar eða útlendar fjölskyldur sem dvelja í viku, skipta liði og skrá sig í gönguferðir, jurtalitun, leiklist, söng og tónlist. Möguleikarnir eru ótalmargir og fjölbreyttir.
Heima vil ég vera og starfa á sumrin en dvelja svo eitthvað í Lundúnum að vetrarlagi og vinna í tónlist. Svona er stóri draumurinn!
Ég kem aftur heim í október og verð fram yfir áramót. Þá verður pælt í viðskiptaáætlun um menningarbúskap á Tjörn, vonandi sem ég meiri tónlist og undirbý upptöku á eigin efni í Lundúnum snemma á næsta ári. Örn bróðir verður með á þeirri plötu.
Ég er ekki tilbúin að koma heim til lengri dvalar alveg strax en að því kemur, fyrr en síðar.“
-
Upptökur með Ösp – hlustið vel og njótið …!

Fjölskyldan á Tjörn – harkaliðið á væntanlegu menningarbýli, að kvöldi uppstigningardags. Kristján Eldjárn Hjartarson, Kristjana Arngrímsdóttir og ungarnir þeirra þrír: Ösp, Örn & Björk.