Lið Svarfælinga/Dalvíkinga hafnaði í fjórða sæti í úrslitarimmu spurningakeppni átthagafélaga á höfuðborgarsvæðinu í Breiðfirðingabúð í kvöld.
Siglfirðingar sigruðu okkar fólk í undanúrslitum en töpuðu svo naumlega fyrir Eyjamönnum í úrslitakeppninni.
Vestmannaeyingar sigruðu Húnvetninga auðveldlega í fyrri undanúrslitaviðureigninni með 16 stigum gegn 7. Þá tók við keppni Siglfirðinga og Svarfdælinga/Dalvíkinga og þeir hinir fyrrnefndu voru sterkari nánast frá upphafi til enda. Sveitungar vorir töpuðu með sæmd og fengu 5 stig en Siglfirðingar 16 stig.
Engum blöðum var um að fletta að tvö öflugustu lið keppninnar áttust við í slagnum um gullið og leikar gátu farið á hvorn veg sem var. Eyjamenn voru ívið sterkari þegar á leið en voru samt stigi undir þegar kom að þriggja stiga vísbendingaspurningu í blálokin. Hvorugt liðið náði að svara þriggja stiga vísbendingu en Eyjamenn gómuðu hins vegar tveggja stiga vísbendinguna og slógu Siglfirðinga á marklínu, rétt eins og okkar lið gerði gegn Dýrfirðingum í áttaliðaúrslitum fyrir viku.
Eyjamenn uppskáru því 17 stig í lokin gegn 16 stigum Siglfirðinga.
Þá var uppskeruathöfnin ein eftir. Sigurvegararnir fengu að sjálfsögðu bikar með sér heim í nestið og helling af alls kyns hlutum öðrum, gjafabréf upp á hitt og þetta, meðal annars andlega næringu í bókarformi, töflur og salt.
Liðið í fjórða sæti fékk líka fangið fullt af góssi frá ÍNN, þar á meðal blómaáburð í fljótandi formi, þangtöflur, sjávarsalt og kiljur til lestrar. Verðlaunin voru sem sagt kapítuli út af fyrir sig.
Þetta var í heild skemmtileg keppni. Sindri, leiðtogi Sunnansvarfdælinga, gaf strax í kvöld fyrirheit um markvissan undirbúning fyrir spurningaleik átthagafélaga að ári. Hann hyggst hóa saman í lið strax eftir göngur í haust og hefja þrotlausa þjálfun fyrir átökin. Fjórða sætið er ávísun á eitthvað miklu meira næst …