
Sigrún Hjartardóttir t.v. og Ásgerður Ólafsdóttir með CAT-kassann og köttinn Lísu, sem reyndar er svarfdælsk – ættuð frá Tjörn eins og Sigrún!
Stuðningur og starf með einhverfum í íslenska grunnskólakerfinu vekur athygli út fyrir landsteinana. Stjórnvöld í Rúmeníu ákváðu að leita ráða á Íslandi til byggja upp kennslukerfi fyrir einhverf börn þar í landi þar. Þar yrði ekki síst horft til minnihlutahópsins Rómana eða Rómafólks.
Ásgerður Ólafsdóttir og Sigrún Hjartardóttir eru komnar í útrás á vegum ráðgjafarfyrirtækis sem þær stofnuðu árið 2001 og hafa rekið síðan þá.
Stöldrum fyrst við í Breiðholti áður en sögunni víkur til Rúmeníu.
Stöllurnar efndu til dagsnámskeiðs um „Um CAT kassann“ í Gerðubergi 9. mars, líkt og þær hafa gert margoft undanfarin ár í Reykjavík, á Akureyri og víðar. Umfjöllunarefnið á nákvæmlega ekkert skylt við ketti og „kassinn“ er ekki kassi í eiginlegum skilningi heldur bólgin og efnismikil mappa með kennsluefni í tilfinningalegri þjálfun fyrir börn og unglinga með röskun á einhverfurófi og aðra þá sem eiga í vandræðum með að tjá sig.
CAT er reyndar skammstafað heiti tiltekinnar aðferðafræði á ensku, Cocnitive Affective Training, sem útleggst hugræn tilfinningaleg þjálfun.
Þær setja venjulega 30 sem hámarksfjölda þátttakenda á svona námskeiðum og færri komast að en vilja. Í þetta sinn var fullt hús og þremur betur. Langflestir voru kennarar af höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og frá Höfn í Hornafirði. Foreldrar einhverfa barna voru þarna líka, eins og gjarnan er. Oft mæta líka sálfræðingar, iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar og fagfólk úr fleiri greinum.
CAT-gúrúar
Ásgerður og Sigrún eru lærimeistarar – gúrúar í CAT-fræðum á Íslandi, sérhæfðir ráðgjafar sem kynntust hugmyndafræði og útfærslu hennar á sínum tíma í Danmörku. Frumkvöðlar CAT eru þrír sálfræðingar, tveir danskir og einn ástralskur. Þær höfðu áður kynnst aðferð sem kallast félagsfærnisögur, kynnt hana og haldið námskeið eftir að hafa sótt þekkingu og reynslu til Skandinavíu, Bretlands og Bandaríkjanna.
Eftir námskeið í Danmörku 2001 helltu þær sér út í CAT og lögðu út í það mikla verkefni að þýða allt efni möppunnar/kassans á íslensku.
Reynslan sýnir ítrekað að CAT-kassinn virkar vel sem tæki til kennslu og verkfæri fyrir kennara og foreldra til að ræða við einhverf börn. Kassinn er til í fjölmörgum skólum hringinn í kringum landið en auðvitað þarf að læra að nota hann og það sem í honum er. Til þess eru einmitt námskeið á borð það sem var í Gerðubergi á dögunum.
Samstarfsmenn í áratugi
Ásgerður og Sigrún eru báðar sérkennarar með einhverfu sem sérsvið. Leiðir þeirra lágu saman á barna- og unglingageðdeildinni við Dalbraut 1978. Þar kenndu þær einhverfum börnum sem voru lítt eða ekki í venjulegum skólum.
Síðar stofnaði Sigrún sérdeild við Digranesskóla, þá fyrstu í almennum grunnskóla hérlendis fyrir börn á einhverfurófi. Það gerðist 1989 og þangað kom Ásgerður ári síðar til starfa.
Sigrún fór síðar að vinna á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og er þar enn. Ásgerður stofnaði með fleirum starfsbraut fyrir fatlaða í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Hún varð síðar kennari og skólastjóri í Borgarfirði og notaði sjálf CAT-kerfið í kennslu í starfi sínu.
Ásgerður og Sigrún stofnuðu eigið fyrirtæki 2001, Einhverfuráðgjöfina ÁS, og reka það í hlutastarfi. Skammstöfunin í nafni fyrirtækisins vísar til upphafsstafa í nöfnum þeirra og af sjálfu leiddi að ef fjölgað yrði í eigendahópnum yrði nafn nýs eða nýrra meðeigenda að hefjast á Á eða S!
Þegar Einhverfuráðgjöfin ÁS var orðin tíu ára gekk Áslaug Melax til liðs við fyrirtækið sem eigandi og starfsmaður. Hún smellpassaði í hópinn, meira að segja Á-ið í nafninu hæfði fyrirtækinu fullkomlega. Aðalstarf Áslaugar, líkt og Sigrúnar, er einhverfuráðgjöf á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Svarfdælsku ræturnar
Sigrún Hjartardóttir er fædd og uppalin á því merka og þekkta menningarheimili Tjörn í Svarfaðardal, tvíburasystir Ingibjargar rithöfundar og leikskálds, í hópi alls sjö systkina, barna Sigríðar Hafstað og Hjartar Eldjárns Þórarinssonar. Hann lést 1996 en hún (Sigríður) býr að Tjörn.

Þessi mynd VARÐ að fylgja með! Filippía Jónsdóttir frá Jarðbrú og Ólafur Kjartan Guðjónsson, foreldrar Ásgerðar, nýtrúlofuð á Laugarvatni 1933 eða ’34.
Ásgerður Ólafsdóttir á líka svarfdælskar rætur. Filippía móðir hennar var yngst fimm barna Jarðbrúarhjónanna Þóru Jóhannsdóttur frá Ytra-Hvarfi og Jóns Baldvins Hallgrímssonar frá Stóru-Hámundarstöðum. Systkini Filippíu voru Sigurður, búsettur í Reykjavík, Jóhann og Guðrún bjuggu á Dalvík og Jón var bóndi á Jarðbrú.
Faðir Ásgerðar var Hnífsdælingurinn Ólafur Kjartan Guðjónsson kaupmaður. Þau Filippía bjuggu þar framan af en fluttu þaðan á Akranes og bjuggu þar til æviloka.
Ásgerður á núna heima í Þýskalandi. Þau Sigurður Rúnar Jónsson – Diddi fiðla búa undir sama þaki og einkasonurinn Ólafur Kjartan Sigurðarson óperusöngvari og fjölskylda hans. Hún tekur með öðrum þátt í að reka Einhverfuráðgjöfina ÁS í fjarbúð, notar Skype, tölvupóst og símtækið og skreppur annað slagið heim til Íslands til námskeiðahalds og fleiri verka sem til falla.
Þurfa að bakka 40 ár aftur í tímann á Íslandi!
Lokið er þá ættbókarfærslu Einhverfuráðgjafarinnar og komið að Austurevrópuhluta hugvekjunnar.
Hingað til lands komu á vordögum tvær konur frá Rúmeníu. Þær heimsóttu meðal annars Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og leituðu til Einhverfusamtakanna eftir aðstoð til að innleiða verklag heima fyrir svo finna mætti einhverfum börnum verðuga hillu í grunnskólakerfinu. Samtökin bentu á Einhverfuráðgjöfina ÁS og skemmst er frá að segja að skólahald í Rúmeníu verður eitt helsta viðfangsefni fyrirtækisins smáa næsta árið, kannski lengur.
„Ástand kennslumála gagnvart fötluðum og einhverfum börnum í Rúmeníu er skelfilegt. Eftir að Rúmenar gengu í Evrópusambandið jókst þrýstingur á þá að gera eitthvað í málinu, ekki síst varðandi Rómafólkið. Dæmi eru meira að segja um að börn þessa minnihlutahóps gangi ekki í skólum yfirleitt,“ segir Sigrún.
„Okkur er ætlað að búa til handbók fyrir kennara og leggja drög að því hvernig unnt er að byggja upp kennslu fyrir einhverf börn í skólum eða sérdeildum skóla. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins verður með okkur í verkefninu. Rúmensku konurnar frá Rúmeníu kynntu sér fræðslustarfið þar og óskuðu sérstaklega eftir samstarfi við stöðina um að efna til námskeiða fyrir kennara í Rúmeníu um ákveðnar kennsluaðferðir fyrir börn með einhverfu.
Við þurfum að bakka í huganum ein 40 ár aftur í tímann og rifja upp hvernig staða mála var þá á Íslandi og hvað var gert. Það er nákvæmlega sú reynsla sem Rúmenar sækjast eftir.“
Rúmenum leist betur á íslenska kerfið en það norska
Rómafólk er stærsti minnihlutahópur Evrópu og hefur mátt þola meiri átroðning og kúgun en flestir aðrir minnihlutahópar svo öldum skiptir. Rómanarnir eru þjóðflokkur sem talinn er eiga rætur að rekja til Indlands fyrir mörgum öldum. Áður voru þeir gjarnan kallaður sígaunar en það telst skammaryrði nú.
Mark Gitenstein, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna í Búkarest, sagði í viðtali fyrir nokkru að misrétti, sem Rómafólkið sætti í Rúmeníu, væri eitt stærsta vandamál Rúmena og minnti sig á kúgun þeldökkra í Suðurríkjum Bandaríkjanna þegar hann ólst þar upp um miðja 20. öldina. Þau ummæli segja sína sögu.
Í Rúmeníu búa á þriðja tug milljóna manna, þar af yfir 600 þúsund Rómanar. Rómafólkið á afar erfitt uppdráttar þar og víða annars staðar í Evrópu. Menntun þess er í molum, það mætir andúð og mótlæti á vinnumarkaði og gengur þar af leiðandi illa að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Verkefni Ásgerðar og Sigrúnar telst því umfangsmikið, eiginlega risavaxið.
„Þetta er auðvitað bæði stórt mál og afar spennandi mál fyrir okkur að fást við. Fríverslunarsamtökin EFTA veita fjárstyrk til verkefnisins og til greina kom að Norðmenn yrðu faglegir ráðgjafar. Rúmenum sjálfum leist hins vegar betur á það sem gert hefði verið á Íslandi,“ segir Ásgerður.
„Við Sigrún erum kennaramenntaðar og höfum gengið í gegnum miklar breytingar í menntakerfinu hér gagnvart einhverfum og þekkjum þá sögu vel af eigin reynslu. Við hljótum að líta á ákvörðun Rúmena sem mikla viðurkenningu og staðfestingu á því að vel hafi tekist til á Íslandi
Þær stöllur fara utan til Rúmeníu á vordögum, í apríl eða maí, til að kynna sér stöðu og ástand á vettvangi. Síðan er meiningin að þær noti sumarið til að byrja að vinna að sjálfu verkefninu og leggja góðan grunn að því sem koma skal.
Má mikið verða ef tölvulínur Skype-samtalskerfisins verða ekki glóandi oft og lengi, á milli heimilanna þeirra að Fjólugötu og í Saarbrücken, þegar líður á sumarið.