Dýrfirðingar slegnir út á marklínu

Staðlað

IMG_8222Það er hvorki fyrir hjartveika né sérlega viðkvæma að fylgja liði Svarfdælinga & Dalvíkinga að málum í spurningakeppni átthagafélaga í Reykjavík á vegum sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN. Okkar fólk var undir allan tímann í harðri rimmu við Dýrfirðinga í kvöld en krækti í öll stigin í lokaspurningunni og tryggðu sér jafnframt sæti í undanúrslitum!

Liðið okkar gjörsigraði Þingeyinga í fyrstu umferð keppninnar og keppti nú við Dýrfirðinga um sæti í fjögurra liða úrslitum.

Þetta leit satt að segja ekki vel út framan af. Ekkert stig fyrir málsháttaleikinn í fyrsta hluta og stigasöfnun í fyrstu bjölluspurningum var hógvæg á meðan Vestfirðingar kroppuðu eitt og eitt stig í hús til sín. Það bætti ekki úr skák að Árni Helgason, liðsmaður vor, var svo ákafur að svara einni spurningunni að hann klúðraði því að hringja bjöllunni og gaf Dýrfirðingum svarið – alveg ókeyps. Þeir þáðu það glottuleitir.

IMG_8212Árni átti hins vegar heldur betur eftir að bæta ráð sitt og send Vestfirðingana um leið langt út í kuldann. Hverri keppnislotu lýkur með vísbendingarspurningu og fást þrjú stig fyrir að svara rétt eftir fyrstu vísbendingu.

Spurningin var í skepnulegra lagi og varðaði ákveðið land. Þá var staðan 5 stig okkar fólks gegn 7 stigum Dýrfirðinga. Árni lét vaða á Laos og það var hárrétt og við blasti á stigatöflunni í leikslok: Svarfdælingar & Dalvíkingar 8 stig, Dýrfirðingar 7 stig!

Spyrillinn trúði vart eigin eyrum en svona var það bara. Hinir síðustu urðu fyrstir og sætur var nú sigurinn!

Þetta heitir að slá út keppinautinn á marklínu. Slíkt leikur ekki hver sem er.

Núna blasir einfaldlega við að lið Svarfdælinga & Dalvíkinga keppir í undanúrslitum á fimmtudaginn kemur, 12. mars, í Breiðfirðingabúð.

Eftir standa nú fjögur lið. Okkar fólk keppir við Siglfirðinga á fimmtudaginn og Húnvetningar við Vestmannaeyinga. Sigurliðin í þeim viðureignum keppa síðan til úrslita þá um kvöldið.

Sigurliðið okkar var skipað sama fólki og í fyrstu umferðinni. Í því voru Árni Helgason Jónssonar rafvirkja frá Böggvistöðum, Sindri Heimisson, Dalvíkingur sem ræktaður var til manns á Húsabakka, og Steinunn Aldís Helgadóttir frá Másstöðum.

Á varamannabekknum var Margrét Birna Sigurbjörnsdóttir, Skíðdælingur að uppruna. Hún er dóttir Kristjönu Kristjánsdóttur frá Klængshóli. Sú er yngst Klængshólssystra.

Og koma svo!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s