Svarfdælingar blótuðu þorra á hefðbundinn hátt á Rimum að kveldi 9. febrúar. Þar var allt í hefðbundnum skorðum og þétt setinn Svarfaðardalur eins og fyrri daginn á svona samkomum.
Þarna var fólk af öllum stærðum og gerðum og sumir reyndar talsvert meira en höfðinu hærri en aðrir, líkt og dæmin sanna.
Af myndunum að dæma mætti halda að svarfdælsk þorrablót væru samkomur fyrir góðtemplara og þá sem hanga þurrir á snúrum. Mikið kaffi var að vísu drukkið en það rann líka eitthvað fleira og sterkara. Alla vega hitaði skemmtinefndin upp með ísköldum brennivínssnaps við komuna í húsið. Á því þurftu gestir líka að halda eftir að hafa barist um í roki á svellinu utan dyra.